07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

46. mál, Styrktarsjóður vangefinna

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svörin og góðan vilja hans, sem ég vissi reyndar fyrir, í þessu máli, og þá vænti ég þess í framhaldi af svörum hans að við getum nú fram að fjárlagaafgreiðslu lagst rösklega á sveif um að fá þessa upphæð hækkaða verulega. Ég skildi orð hans þannig, að ekki yrði um það að ræða að flutt yrði stjfrv. um framlengingu þessa sjóðs, a.m.k. ekki að svo stöddu, og ég hlýt að harma það, því að mér er ljóst að það er í raun og veru eina leiðin sem við höfum til þess að fá verulegt f.í,ármagn hér inn. Í sambandi við upphæðir við fjárlagaafgreiðsluna, þar sem hin mörgu verkefni kalla að, verður þetta ævinlega örðugra.

Mér er vel ljóst hve mikil andstaða er við hina mörkuðu tekjustofna. Það var mér því sannarlega gleðiefni í fjvn. nú um daginn að heyra hvern fjvn.- manna á fætur öðrum lýsa því yfir að síst skyldi þessi markaði tekjustofn lagður niður, og meira að segja fulltrúi hagsýslunnar tók undir og þá varð ég náttúrlega steinhissa. Ég held þess vegna að andstaðan við þetta út af fyrir sig sé ekki meiri en svo, að við ættum að geta komið þessu fram ef við vinnum þarna vel að.

Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir að taka vel í tilmæli mín um það að Þroskahjálp verði umsagnaraðili eða jafnvel taki þátt í yfirstjórn þessa sjóðs. Ég álít það mjög til bóta, sérstaklega vegna þess að hér verður nú um verkefni að ræða sem spannar meir yfir landið allt en áður hefur verið.

Ég vil aðeins benda á til viðbótar að verkefni Styrktarsjóðsins án allrar útvíkkunar á verkum hans, þ.e.a.s. nauðsynlegrar útbreiðslu á starfi almennt, — þessi verkefni, sem hann hefur sinnt eingöngu, eru risavaxin og krefjast geysimikilla fjármuna. Lausleg úttekt hjá okkur félögum Þroskahjálpar, byggð á brýnustu verkum í byggingum sem ráðgerðar eru í dag, þó Vestfirðir séu þar undanskildir og Vesturland einnig, sýnir að hér er, miðað við núverandi verðlag, um 600 millj. kr. verk að ræða á næstu 5 árum, þ.e. um 120 millj. á ári, og er þó hvergi of í lagt, svo mikið er enn þá ógert.

Svo að ég taki dæmi núna varðandi fjárlagaupphæðina eins og hún er núna, 40 millj., þá mun hún aðeins nægja til þess á næstu 5 árum að gera viðbygginguna við Sólborg á Akureyri sæmilega úr garði og ljúka fyrsta áfanga að heimili okkar austur á Egilsstöðum. Þessi fjárveiting okkar mun ekki nægja til meiri verka. Og svo kemur hér enn til viðbótar verkefni sem ég veit ekki hvar á að lenda, er komið út úr grunnskólakerfinu greinilega og er vanrækt, þar sem Öskjuhliðarskólinn er. Hvaðan á þessi skóli að fá fjármagn og hvernig ætla menn að láta starfsemi hans halda áfram? Fyrir því er ekki gert ráð í fjárl. núna. Til hans er aðeins ætluð smáupphæð og annar áfanginn sem sagt hvergi í sjónmáli. Það þýðir að sú starfsemi, sem hefur farið þar fram nú að undanförnu, verður til miklu minna gagns en annars hefði verið, ef hægt hefði verið að halda áfram með annan áfanga og standa þannig að kennslumálum þessa fólks eins og þarf að gera. Og þá dettur manni það í hug, að ef þessi sjóður yrði efldur, þá kæmi vel til greina að taka einnig úr honum til þessa menntahlutverks, sem er kannske eitt það allra brýnasta sem við eigum eftir að leysa í þessum málum.