07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (688)

246. mál, raforkumál á Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans. Eins og kom fram í þeim svörum, þá er sýnilegt að á milli þessara mála allra er ákveðið samhengi, og þess vegna setti ég fram þessar fsp. í einu lagi eins og þær birtast á þskj. 63. Ég álít að það sé ákaflega þýðingarmikið fyrir okkur austfirðinga að fá ákvörðun tekna um Bessastaðaárvirkjun. Ég er ekki að tala fyrir því, að það sé gert áður en nauðsynleg gögn liggja fyrir, og vil leggja áherslu á nauðsyn þess að menn taki ekki ákvarðanir í orkumálum, sem varða stórar fjárhæðir, fyrr en öll gögn og athuganir liggja fyrir, þannig að hægt sé að byggja á traustum grunni. En eigi að síður er málum svo háttað eystra, að ákvarðanir í þessum efnum þola ekki mikla bið. Austfirðingafjórðungur er fjarri öðrum fjórðungum, eins og kunnugt er, og öðrum orkuveitusvæðum. Ef fjórðungurinn þarf að byggja verulega á orku frá Suðvesturlandi, þá gefur auga leið að hætta er á truflunum á slíkum orkuflutningi. Þess vegna er ákaflega þýðingarmikið að teknar verði ákvarðanir um byggingu orkuvers á Austurlandi sem tryggi austfirðingum grunnafl úr fjórðungnum. Á annað er í raun og veru ekki að treysta til fulls þegar til lengdar lætur. Þess vegna leggjum við á það hina mestu áherslu, að ákvörðun um Bessastaðaárvirkjun verði tekin sem allra fyrst, til þess að menn viti hvar þeir standa í þessum málum og geti þá hagað sér í samræmi við það.

Ég geri mér góðar vonir um að línan frá Kröflu verði tekin inn á lánsfjáráætlun á þessu þingi og stefnt verði að því að hún verði tekin í notkun til Austurlands haustið 1978, eins og fram kom hjá hæstv. ráðh. að væri vel mögulegt. Ég vil fagna svari hans varðandi það atriði sérstaklega.

Um ástand orkumála eystra í vetur, þá er það vægast sagt mjög krítískt. Það kom strax fram um daginn í fyrsta kuldakastinu að það urðu nokkrar truflanir á Lagarfljótsvirkjuninni sem leiddu til þess að stöðva varð vinnslu þýðingarmikilla undirstöðuatvinnufyrirtækja í fjórðungnum Og sýnilegt er, ef ekki verður úr bætt þegar kemur fram á loðnuvertíð og vetrarvertíð, að þá er hreinn háski á ferðinni ef ekki er nægilegt rafmagn til að tryggja stórvirkum atvinnutækjum á Austurlandi næga raforku til vinnslu.

Það atriði treysti ég að Rafmagnsveiturnar og hæstv. ráðh. athugi nánar, hvað þarf til að tryggja nauðsynlega lágmarksorkuframleiðslu í vetur.

Varðandi þessi mál öll vil ég láta það koma fram aftur, en ég minntist á það í þingræðu í fyrra, að ég álít að það sé ekki hægt að búa við það til langframa að hið mikla þéttbýli hér á Suðvesturlandi verði alfarið og einvörðungu að treysta á raforkuframleiðslu frá Þjórsársvæðinu. Það geta gerst atburðir á þessu svæði sem valda því að rafmagnstruflanir verða verulegar um lengri eða styttri tíma eftir atvikum, og þarf ekki að ræða það nánar. Þess vegna er ákaflega þýðingarmikið að það séu aðrar leiðir fyrir hendi um raforkuflutning til þessa svæðis, og þess vegna álít ég að það þurfi í fullri alvöru að bera saman þá valkosti sem nú eru fyrir hendi, sem samkv. þessari álitsgerð, sem ég vitnaði til áðan, eru Hrauneyjarfossvirkjun og Bessastaðaárvirkjun, — bera saman þessa valkosti í fullri alvöru og þá einnig með tillíti til nauðsynjar á því, að það verði einhvers konar varaafl fyrir þéttbýlissvæðið á Suðvesturlandi ef jarðskjálftar, eldgos eða einhverjir þvílíkir atburðir gerast. Það er erfitt að gera sér í hugarlund hvað mundi gerast á þessu svæði ef hin miklu orkuver við Þjórsá og á því hættusvæði yrðu fyrir skakkaföllum. Og ég legg á það mikla áherslu að þessir valkostir verði athugaðir. Ég geri engar kröfur í því efni og við gerum það ekki, austfirðingar, aðrar heldur en þær, að það verði af fullum heiðarleika og sem fyrst gerður raunhæfur samanburður á hagkvæmni þess, hvaða valkost á að velja í fyrstu lotu.