07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

246. mál, raforkumál á Austurlandi

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég hef margtekið það fram, bæði hér á Alþ. og annars staðar, að ég vil stefna að því að á næstu árum verði reistar stórvirkjanir ekki aðeins á Þjórsársvæðinu, heldur utan þess, og eru þá sérstaklega tveir möguleikar sem hafðir hafa verið í huga. Annar er Bessastaðaárvirkjun og hinn er Blönduvirkjun. Báðar þessar virkjanir hafa það m.a. til síns ágætis, fyrir utan að þær virðast vera hagkvæmar virkjanir, þá hafa þær einnig það sér til ágætis að vera utan hins eldvirka svæðis á landinu.

Ég held að við ættum ekki að setja málin þannig fram að sé um að ræða annaðhvort Hrauneyjarfossvirkjun, Bessastaðaárvirkjun eða Blönduvirkjun. Ég held að allar þessar virkjanir hljóti að koma. Það er að vísu spurning um röð þeirra. En ég vil aðeins í tilefni af því, sem hv. 2. þm. Austurl. sagði um drátt á þessu máli, taka það fram, að að sjálfsögðu hefði mér þótt ákaflega vænt um að geta tekið ákvörðun um það að ráðist yrði í Bessastaðaárvirkjun. Það eru nú tvö ár liðin síðan ég flutti frv. um hana og það var hér lögfest. En það sem ég vil benda aðeins á hér í umr. og vil undirstrika nú, það er álit Orkustofnunar, og það er rétt að ég lesi hér upp úr bréfi orkumálastjóra fyrir hönd Orkustofnunar einmitt í tilefni af þessari fsp. hv. þm. Þar segir orkumálastjóri m.a.:

„Í áætlunum um Bessastaðaárvirkjun hefur verið reiknað með 64 mw. uppsettu afli endanlega í virkjuninni, þar af 32 mw. í fyrsta áfanga.“ Síðan segir hann: „Þetta er ljóst dæmi þess, hve nátengdar Bessastaðaárvirkjun og Fljótsdalsvirkjun eru. Ekki er unnt að fullnaðarhanna Bessastaðaárvirkjun og hrinda henni í framkvæmd fyrr en rannsókn Fljótsdalsvirkjunar er það vel á veg komin að ákvarða megi stærð hennar og áfangaskiptingu sæmilega vel. Stærð Bessastaðaárvirkjunar ræðst fremur af því en vinnslugetu hennar einnar sér.“

Það er auðvitað alltaf matsatriði og ákvörðunaratriði að hve miklu leyti Alþ. og ríkisstj. vilja fara í einu og öllu eftir áliti sérfræðinga og trúnaðarmanna, en ég tel skylt að láta þetta sjónarmið Orkustofnunar koma hér fram.