07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

76. mál, greiðslufyrirkomulag úr Fiskveiðasjóði vegna smíða fiskiskipa

Fyrirspyrjandi (Guðmundur H, Garðarsson):

Herra forseti. Ég hef lagt fsp. fyrir hæstv. iðnrh. um greiðslufyrirkomulag úr Fiskveiðasjóði Íslands vegna nýsmíða,lenginga og yfirbygginga fiskiskipa. Fsp. er svo hljóðandi:

„1. Hvernig hefur greiðslum verið háttað úr Fiskveiðasjóði Íslands við áfangamat árin 1974, 1975 og það sem af er þessu ári vegna:

a) Nýsmiði skipa innanlands?

b) Lenginga og yfirbygginga skipa innanlands?

2. Hefur núverandi framkvæmd þessara mála tafið þau verkefni sem eru í gangi í íslenskum skipasmiðastöðvum?“

Svo sem kunnugt er gegna íslenskar skipasmiðastöðvar mjög veigamiklu hlutverki í atvinnuþróun þjóðarinnar. Í þeim fer fram auk nýsmiða mikilvæg þjónustustarfsemi fyrir sjávarútveg, — þjónustustarfsemi sem verður að vera fyrir hendi í landinu sjálfu. Hundruð manna vinna við þessa atvinnugrein víðs vegar um landið og með árunum hafa íslenskir járniðnaðarmenn öðlast mikla reynslu og þjálfun við viðgerðir og skipasmíðar. Á orði er haft að þessi iðngrein standist fyllilega erlenda samkeppni. En þrátt fyrir það hafa ætið verið nokkur brögð að því, að leitað hefur verið til útlanda með viðgerðir á fiskiskipum sem unnt hefði verið að gera við hér innanlands. Hefur stundum verið borið við að íslenskar skipasmiðastöðvar hefðu ekki getað tekið að sér umrædd verkefni vegna skorts á fjármagni eða nauðsynlegri fyrirgreiðslu hjá innlendum lánastofnunum. En á sama tíma sem erlendar skipasmíðastöðvar hafa tekið að sér verkefni með greiðslufresti á grundveili bankaábyrgða frá íslenskum ríkisbönkum hafa innlendu stöðvarnar ekki fengið nægileg verkefni eða hraði ekki verið sem skyldi á þeim verkefnum sem stöðvarnar hafa verið að fást við. Það er auðvitað hin mesta óhæfa ef þessum málum er þannig háttað sem ég gat um.

Íslenskar skipasmíðastöðvar verða að búa við bestu kjör hvað fjármagnsfyrirgreiðslu áhrærir. Þessa atvinnugrein ber að efla eftir því sem kostur er, og eiga opinberir fjárfestingarsjóðir þar sérstöku hlutverki að gegna. Með tilliti til þessa óska ég eftir að fá upplýsingar um hvernig Fiskveiðasjóður Íslands hefur rækt skyldur sínar við þessa þýðingarmiklu iðngrein sem hefur vaxið mikið á síðustu árum sérstaklega og á væntanlega eftir að vaxa enn meir og verða sú lyftistöng í atvinnuþróun þjóðarinnar sem sjávarútvegur sérstaklega og þjóðin öll bindur vonir við.