07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

76. mál, greiðslufyrirkomulag úr Fiskveiðasjóði vegna smíða fiskiskipa

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með að þessi fsp. skuli

vera hér flutt og rædd, um leið og ég lýsi óánægju minni með svör hæstv. ráðh.

Ég vil minna hæstv. ráðh. á að það eru nú liðin tvö ár síðan ég bar sams konar fsp. fram hér í Sþ. Hún var borin fram haustið 1974, svo dróst nokkuð lengi að hæstv. ráðh. sæi sér fært að svara fsp., en henni var svarað í Sþ. 25. febr. 1975. Þá tók hæstv. ráðh, það sérstaklega fram, að hann gerði sér ljóst að hér væri við mikinn vanda að etja og vart við því að búast að fræðsluumdæmin gætu tekið til starfa og starfað eðlilega nema sá vandi yrði leystur. Hann lýsti því yfir, hæstv. ráðh., þá, fyrir tveimur árum, að enn væri ekki búið að taka ákvörðun um það af hálfu ríkisstj, hvernig sá vandi yrði leystur, en einmitt þá væri á hans vegum og ríkisstj. verið að vinna að slíkri ákvarðanatöku. Síðan sagði hæstv. ráðh. orðrétt, með leyfi forseta: „Ég álít hins vegar að það væri ekki skynsamlegt að fresta því lengur en svo sem eins og fram um mitt ár“ — mitt ár 1975.

Það hafa sem sagt liðið tvö ár síðan þessari fsp. var svarað. Það hefur liðið hálft annað ár frá því að hæstv, ráðh, taldi sjálfur óhjákvæmilegt annað en fræðsluskrifstofurnar gætu tekið til starfa með eðlilegum hætti, en samt hefur ekkert gerst. Og ég vil ljúka þeim fáu orðum, sem ég get sagt í þessu máli tímans vegna, með því að benda hæstv. ráðh. á það, að fyrir tveimur árum taldi hann í svari við þessari fsp. minni að óleystur fjárhagsvandi vegna kostnaðarhluta sveitarfélaganna af rekstri fræðsluskrifstofa væri 23 millj, og 70 þús. Þessa tölu mætti örugglega í dag margfalda með tveimur, ef ekki þremur. Þetta er sá vandi sem hæstv. ráðh. sagði að væri til umr, í ríkisstj, að leysa fyrir tveimur árum og lofaði lausn á sem komin yrði um mitt sumar 1975, en ekki sést enn. Ég vil enn fremur vekja athygli hv. þm. á því, að svarið, sem hæstv. ráðh. gaf við fsp. um nákvæmlega sama efni sem flutt var tveimur árum síðar en þessi vandi kom til umr. hér á Alþ., var nákvæmlega hið sama í öllum efnisatriðum og hæstv. ráðh. svaraði sams konar fsp. fyrir tveimur árum. Það hefur sem sé hjá hæstv. ráðh. ekki gerst nokkur skapaður hrærandi hlutur í þessu máli í tvö ár.