07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

76. mál, greiðslufyrirkomulag úr Fiskveiðasjóði vegna smíða fiskiskipa

Stefán Jónsson:

Herra forseti: Það gerist nú harla titt í fyrirspurnatímum hér á Alþ. að stjórnarþm. beri fram mjög þýðingarmiklar fsp. um ýmis mál sem komin eru í óefni hjá núv. hæstv. ríkisstj. og ráðh. komi hér upp í ræðustól og lýsi yfir eldskýrum og óvefengjanlegum vilja sínum til þess að leysa þessi mál, en bera við vonsku ríkisstj. og aumingjaskap sem þeir sitja í, að þau mál nái ekki fram að ganga.

Okkur er kunnugt um það, þm. utan af landi, í fyrsta lagi, hversu vel fræðsluskrifstofurnar hafa reynst í skólakerfinu úti í dreifbýlinu, og hins vegar hitt, að þær hafa verið reknar með þeim hætti af hálfu hins opinbera að þar hafa hrúgast upp skuldir. Fræðslustjórarnir hafa setið undir ógnunum um lokun síma og yfir þeim hafa vofað reikningar vegna hitakostnaðar og vangoldinnar búsaleigu. Þeir hafa bókstaflega ekki getað sinnt þessu starfi eins og þeir gjarnan hefðu viljað sökum fjárskorts.

Ég get ekki tekið undir óskir tveggja hv. stjþm. úr Norðurl. v. um að þetta ágæta starf, sem unnið hefur veríð af hálfu fræðsluskrifstofanna, verði ekki aukið eða — eins og þeir orða það — komið verði í veg fyrir útþenslu, en með því mun vera átt við það að í herrans nafni megi ekki efla þetta ágæta starf ef því skyldi fylgja einhver aukinn kostnaður.

Ég get ekki með öllu tekið undir gagnrýni hv. þm. Sighvats Björgvinssonar á menntmrh. fyrir fræðilegan óbreytileika hans í svörum frá einu ári til annars. Þó hefði hæstv. ráðh. gjarnan mátt draga dám af afa allmargra kjósenda hans á Suðausturlandi sem þótti ekki nógu vel að sér í fræðunum þegar prestur húsvitjaði. Gamall maðurinn kunni ekkert gott fyrir sér og prestur kenndi eina ljóðlinu úr sálmi, svolátandi: „Sjá þar guðs lamb sem burt ber heimsins synd.“ Þegar prestur húsvitjaði aftur þar á Berufjarðarströndinni og gekk nú á karl um það hvort hann myndi þessa hendingu, þá sagði karl: „Sjá þá guðs veturgömlu kind sem burt ber heimsins synd.“ Prestur leiðrétti sóknarbarn sitt og sagði, að það væri nú rannar lamb sem hér var um að ræða. En þá sagði karl: „Hafi það verið lamb í fyrra, þá er það orðin veturgömul kind núna.“ Svar hæstv. ráðh. við ítrekaðri fsp. var nú tvævetla.

Eins og ég sagði fyrst, þá ætla ég að óhagganleikinn beri vott um fræðilegt „stabilltet“, ef svo má segja. En þess ber að gæta, að vandamálið, sem spurning hv. þm. Sighvats Björgvinssonar kviknaði af fyrir tveimur árum, hefur nú fengið vexti og vaxtavexti og hefur orðið miklu brýnna síðan, þar sem fræðsluskrifstofurnar munu hafa starfað þennan tíma undir handarjaðri hæstv. menntmrh., eru komnar í þrot og forstöðumenn þeirra sjá fram á þess háttar vandræði á næsta ári að ætla má að þeir taki nú þann kostinn til þess að halda uppi sæmd stofnana sinna að hafast ekkert að, þannig að þeir lendi ekki aftur í skammarskuldum, nema því aðeins að þeir fái tryggingu fyrir því að séð verði fyrir nauðsynlegu rekstrarfé.