07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

76. mál, greiðslufyrirkomulag úr Fiskveiðasjóði vegna smíða fiskiskipa

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það hafa orðið miklar umr. um þessa fsp., og ég þakka þann stuðning sem menn leggja hér fram í þessu málefni sem hér er rætt um.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og reyndar fleiri hv. þm. eru ekki sérstaklega lukkulegir með það, hvernig þokað hefur fram því máli að tryggja að greiðist hluti heimaaðila í kostnaði og rekstri fræðsluskrifstofanna. Ég er það ekki heldur. Hitt er svo annað mál, að fræðsluskrifstofurnar eru nú komnar á laggirnar að nafninu til. Þær byrjuðu að starfa, sumar árið 1975, og það er búið að skipa í öll embættin núna. Það hefur verið ákveðið að greiða allan kostnað á árunum 1975 og 1976 úr ríkissjóði. Mér finnst rétt í framhaldi af þessum umr. að rifja upp örfáa punkta í sambandi við þetta mál.

Það fer ekki á milli mála að þeir, sem njóta skulu þjónustu fræðsluskrifstofanna, telja hana mikilsverða. Það hefur komið hér fram í ræðum manna. Öll landshlutasamtökin með tölu hafa tekið undir þessa skoðun, og það yrði allt of langt mál að telja upp ályktanir þeirra, hvað þá heldur að greina efni þeirra sérstaklega. En ég vil minna á það, að á fulltrúafundum þessara samtaka mæta fulltrúar frá öllum sveitarfélögum svo að segja, svo að ætla má að þeir sýni nokkuð almennan vilja í þessu efni — almennan vilja fólksins. Samtök skólamanna, kennara og skólastjóra, og fræðsluráða o.s.frv. hafa mjög viða látið til sín heyra um þetta mál og alls staðar á einn veg og tekið í sama streng og landshlutasamtökin, sveitarstjórnirnar og einnig Samband ísl. sveitarfélaga. Þetta er alls staðar sama sagan. Svo þýðingarmiklar telja menn fræðsluskrifstofurnar vera, að t.d. Reykjanesumdæmi, þar sem eitt sveitarfélag hefur nokkra sérstöðu í þessum málum, þar hafa næstum öll önnur sveitarfélög og öll þau stærstu lýst stuðningi sínum við þetta mál með sérstökum ályktunum sem hafa borist til okkar í rn. og e.t.v. víðar.

Það er ekki enn þá fullráðið hversu þetta verður afgreitt um kostnaðarhluta sveitarfélaganna í rekstri fræðsluskrifstofanna. Ég hef vel getað hugsað mér það, að þessar skrifstofur yrðu, eins og skrifstofur Vegagerðarinnar, reknar eingöngu fyrir ríkisfé, en viðurkenni þó að í mínum huga er hitt aðgengilegra og sveitarstjórnarmennirnir virðast eindregið á þeirri skoðun að sveitarfélögin skuli standa að rekstri þeirra líkt og grunnskólalögin gera ráð fyrir, en vilja aðeins fá tekjur á móti, fá tekjustofn, aukna tekjustofna vegna þess kostnaðar. Það hafa komið fram formlegar tillögur í þessa stefnu, þær till. eru í athugun á vegum ríkisstj. nú og ég fæ niðurstöður frá þeim starfshópi alveg á næstunni. Ég vil taka það fram og árétta það, sem ég held að hafi komið fram í svari mínu um daginn, að ég tel að nú verði að finna lausn á þessu máli, ekki innan tveggja ára, heldur fyrir næstu áramót.

En svo aðeins þetta: Hvað er það þá sem sóst er eftir í starfi og þjónustu fræðsluskrifstofanna, sbr. þetta sem ég áðan sagði? Ég vil aðeins rifja þetta upp í lokin. Og þó, áður en ég svara þeirri spurningu beint, þá vil ég minna á að fræðsluskrifstofurnar munu alveg tvímælalaust draga úr annars óhjákvæmilegri aukningu í mannahaldi í menntmrn. og á þann hátt, eins og hér hefur verið lögð áhersla á af öðrum þm., stuðla að því að flytja störf og ákvarðanatöku úr höfuðstöðvunum hér syðra og út á landið. Það er alveg greinilegt að það léttir mikið á ýmsum deildum í menntmrn., t.d. fræðsludeild, fjármáladeild, byggingadeild, skólarannsóknadeild o.s.frv., sem hafa verið mjög svo áhlaðnar að undanförnu, að ég segi ekki meira. Störf fræðsluskrifstofanna hljóta að létta á þessum deildum og þannig koma í veg fyrir aukningu sem ella hefði verið óhjákvæmileg á starfseminni þar.

Svo eru það heimaaðilarnir. Menn hafa þegar reynt það, þrátt fyrir það að starfsemin hafi verið rekin við mikil vanefni og þess vegna ófullkomnari en ella hefði orðið, að fræðsluskrifstofurnar veita aukna þjónustu og miðla upplýsingum margs konar til þess fólks sem vinnur að skóla- og uppeldismálunum. Hér er um að ræða bæði kennslufræðileg atriði, starfshætti skólanna, námsskipan, áætlanagerð, úrskurði reikninga, eins og hér hefur aðeins verið drepið á, umsjón með einstökum vandamálum í sumum þáttum, eins og sérkennslumálunum. Sérstakur þáttur, sem oft er gagnrýndur sér á parti, er ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta. Þar er um að ræða úti á landinu alveg nýja starfsemi, nýja þjónustu, sem ekki hefur verið þar til. En þessi þjónusta hefur verið til í þéttbýlinu. Hún hefur verið og er rekin í Reykjavík og raunar víðar, t.d. í Reykjanesumdæmi og enn víðar, og hefur þar verið kostuð af sveitarfélögunum því að þau hafa haft bolmagn til þess. Þarna er um að ræða atriði sem kostar fé, og þar hljóta fjárveitingar að ráða og einnig hitt, hvernig gengur að fá hæfa kunnáttumenn til starfa, þannig að þetta getur ekki komið í neinum risastökkum, heldur verður að þróast smátt og smátt. En í raun og veru er þarna aðeins um það að ræða, með því að sameina þetta í stór svæði, að fá möguleika til þess að láta í té þá þjónustu í dreifbýlinu sem þéttbýlið hefur nú þegar komið sér upp og notið um þó nokkurt skeið.

Fræðsluskrifstofurnar kosta auðvitað fjármuni. Það þekkjum við best sem um þetta erum að fjalla. En þær veita líka mikla þjónustu eins og hér hefur verið bent á. En svo kemur fleira á móti þeim fjármunum sem þarna verður fram að leggja því að að nokkru leyti hefur þessi starfsemi verið rekin áður. Það hafa starfað fræðsluskrifstofur hér syðra í þéttbýlinu og kostaðar af opinberum aðilum, þótt það hafi ekki verið af ríkinu á sama hátt og nú. Og það hafa verið starfandi námsstjórar, þótt það hafi ekki verið í öllum landshlutum. Þeim hefur verið greitt að fullu af ríkissjóði. Og síðan er það, sem ég nefndi áðan, að starfsemi þessara skrifstofa kemur tvímælalaust í veg fyrir óhjákvæmilega fjölgun hjá rn. Menn verða að hafa þetta í huga þegar verið er að ræða um þann kostnað sem þarna kemur til og mönnum finnst kannske fljótt á lítið að sé meira nýr kostnaður heldur en hann er í raun og veru.

En svo enn til viðbótar út af þessum orðum um kostnað, þá er það mín skoðun, og ég held að hún sé alls ekki út í bláinn, að staðþekking fræðslustjóranna geti í sumum tilvikum leitt til hagræðingar og aukinnar hagkvæmni í rekstri og jafnvel til beins sparnaðar. Það er allt annað að vinna viss verk, t.d. í sambandi við áætlunargerð, fyrir menn sem þekkja staðhætti heldur en fyrir mann sem situr með allan bunkann á hnjánum hér suður í rn. og hefur aldrei komið á staðinn. Það er allt annað. Og ég vil skýra frá því hér og leggja áherslu á það sem þýðingarmikið atriði, að fræðslustjórarnir hafa í samráði við menntmrn. í upphafi lagt mjög mikla vinnu í að reyna að samræma athafnir og aðgerðir fræðslustjóranna allra og fá fullkomið samræmi í skoðunum og síðan athöfnum með fræðslustjórunum innbyrðis og fræðslustjórunum og rn. og þá ekki hvað síst með ýmis hagræðingar- og aðhaldsatriði í huga.

Ég skal svo ekki, herra forseti, hafa þessi orð öllu fleiri. En ég held nú, að þegar allt þetta er haft í huga, að það verði fleiri alþm. en þeir, sem hér hafa talað, og eru þeir orðnir óvenjulega margir um eina fsp., — þá held ég satt að segja að allir alþm. hljóti að verða sammála um að það beri að finna lausn á heimaframlaginu og þá helst í samræmi við óskir sveitarfélaganna og stuðla þannig að því að fræðsluskrifstofurnar geti eflst og aukið starfsemi sína, þá auðvitað eðlilega og innan skynsamlegra marka.