08.12.1976
Efri deild: 18. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

91. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á þskj. 101 flytjum við 4 þm. Alþb. frv. til l. um breyt. á stjórnarskrá lýðveldisins. Brtt. þessi er gerð við 67. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um eignarrétt.

Þegar þessi till. kom fram hér á Alþ. var gerð grein fyrir henni í blöðum stjórnarflokkanna á þann veg að hér væri um þjóðnýtingartillögu að ræða, hér væri um að ræða till. sem fæli í sér skerðingu á eignarrétti bænda. T.d. sagði Morgunblaðið 25. f. m. í fyrirsögn og í umsögn um þetta frv. okkar alþb-manna: „eignarréttur bænda takmarkaður“ — og hélt því fram að hér væri um að ræða eignarskerðingarákvæði. Og sama gilti um fréttir Tímans af þessu máli. Hinn 26. f. m. er frá því skýrt að við höfum flutt þetta frv. og að það kveði á um eignarskerðingu bænda. Ég vil láta það koma hér strax fram að hér er um mjög villandi frásögn að ræða. Með þjóðnýtingu er að sjálfsögðu átt við það að eign færist úr einkaeign og yfir í ríkiseign. Við alþfl.-menn erum að sjálfsögðu reiðubúnir að flytja ýmsar till. þess efnis, en þessi ákveðna till. fjallar alls ekki um þetta viðfangsefni, hún fjallar um annað. Hér er fyrst og fremst reynt að festa í stjórnarskrá að það, sem verið hefur sameign þjóðarinnar, verði það áfram. Hér er því einungis verið að ákveða mörk eignarréttar, en það er ekki verið að flytja hér till. um beina þjóðnýtingu. Ástæðurnar fyrir þessum villandi málflutningi í frásögnum af þessu frv. mun e.t.v. að leita til þess, að á sama tíma hefur þm. Alþfl., hv. þm. Bragi Sigurjónsson, flutt hér í Ed. till. um eignarréttarmál og eitt stærsta atriði þeirrar till. snýst um eignarrétt bænda á jörðum sínum og sérstaklega um rétt þeirra til veiða í ám og vötnum. Þar er vissulega um þjóðnýtingu að ræða að vissu marki. En eins og ég hef sagt, þá er þetta frv. um annað efni. Hvað bændur snertir er þar gert ráð fyrir því að staða bænda sé ekki skert og þeir haldi þeim hlunnindum sem fylgt hafa íslenskum búskaparháttum á liðnum öldum.

Það er megineinkenni á þjóðlífi okkar íslendinga, að þjóðin er lítil, en landið er stórt. Hér á Íslandi eru íbúar aðeins um 2 á hvern km2 lands, annars staðar í Evrópu eru lönd yfirleitt 7–100 sinnum þéttbýlli en hér á landi, og þarna er e.t.v. komin skýringin á því að eignarréttarákvæði eru óljósari hér en víðast annars staðar. Einnig var það svo að fram á þessa öld, að menn litu almennt svo á að land okkar væri ekki aðeins fámennt, heldur einnig fátækt og hrjóstrugt og hér væri ekki önnur umtalsverð auðæfi að finna en fiskinn í sjónum og grasið á grundunum. En í upphafi þessarar aldar gerbreytast viðhorf manna með stórkostlegum tækniframförum og þeim margfrægu vísindalegu uppgötvunum sem þá komu fram. Menn ráku sig þá á það, að þetta fátæka, fámenna og hrjóstruga land var uppfullt af ónotuðum orkulindum.

Frá því land byggðist hefur land á Íslandi skipst í þrennt: 1) í heimalönd, 2) í afréttarlönd og 3) í almenninga.

Fram á þessa öld hefur það verið óumdeilt í fyrsta lagi, að heimalönd væru háð eignarrétti

landeigenda og í þeim rétti fælust hinar almennu venjulegu heimildir eignarréttar, þ.e.a.s. réttur til hvers konar nýtingar landsins og réttur til sölu.

Í öðru lagi hefur verið litið svo á að á afréttum ættu menn einungis óbein eignarréttindi, þ.e. rétt til vissra sögulegra afnota, t.d. einkarétt til beitar og til veiða, og að þessi réttindi hafi getað fylgt ákveðnum jörðum eða ákveðnum hreppsfélögum, jafnvel fleiru en einu.

Í þriðja lagi er svo allt það svæði sem talið verður til miðbiks landsins og er í hringnum inn af afréttum landsins. Það hefur verið talið sameign allra landsmanna, — sameign sem enginn ætti öðrum frekar, hvorki beint né óbeint.

Orkulindir landsins eru að takmörkuðu leyti í heimalöndum, en mest í afréttum og almenningum, eins og síðar verður getið, og það er einmitt kjarni þessa máls.

Það gerist í upphafi þessarar aldar að það rennur upp fyrir mönnum þvílík verðmæti þjóðin á í landinu, og þá upphefst mikið kapphlaup um orkulindir landsins og þá fyrst og fremst um vatnsaflið. Hin nýja raforkutækni ýtti af stað öldu brasks og spákaupmennsku um land allt, og það gerðist á tiltölulega mjög skömmum tíma að flestir stærstu fossar landsins voru seldir í hendur erlendum auðfélögum. Kaupendurnir voru fyrst í stað hreinlega erlendir aðilar. En í kjölfar fyrstu löggjafar um þetta efni breyttist þetta á þann veg, að það urðu íslensk félög að nafninu til sem keyptu þessi fossaréttindi, en í reynd voru þetta erlend félög, eins og flestum var þá kunnugt um.

Haustið 1916 var sýslumaður Vestur-Skaftafeilssýslu, Gísli Sveinsson, kosinn á þing. Það var fyrsta verk hans, þegar hann kom hér á hv. Alþ., að flytja svo hljóðandi þáltill.:

„Neðri deild Alþingis ályktar að skora á landsstjórnina að gæta hagsmuna þjóðfélagsins og réttar landssjóðs til fossa og annarra verðmæta í almenningum landsins og í afréttum, þeim er eigi heyra til neinni ákveðinni jörð einstakra manna eða sveitarfélaga, með því 1) að komast að ábyggilegri niðurstöðu um það, hve langt yfirráðaréttur sýslu og hreppsfélaga yfir afréttum nái samkvæmt þeim notum er tíðkast hafa frá fornu fari (svo sem upprekstur, beit, fjallagrös, rótargröftur, skógarhögg, veiði) og gefa síðan hlutaðeigendum það til vitundar, 2) að láta fara fram rifting á öllum samningum er sýslur eða hreppar kunna að hafa gert við einstaka menn eða félög og í bága koma við rétt landssjóðs.“

Þannig var þáltill. Gísla Sveinssonar sem hann flutti í ársbyrjun 1917.

Aðaltilefni þessarar tillögugerðar Gísla Sveinssonar mun hafa verið salan á vatnsréttindum í Þjórsá og þverám hennar: Tungnaá, Fossá, Geldingaá og Köldukvísl, svo og í Þórisvatni, en kaupandi allra þessara vatnsréttinda var Fossafélagið Titan.

Gísli Sveinsson gerði sér grein fyrir því, að gífurleg hætta væri fylgjandi þeirri þróun sem hér var að eiga sér stað, að íslendingar ættu það á hættu að glata umráðarétti yfir flestum stærstu fossum sínum í hendur erlendum aðilum. En það var ekki einungis þess vegna sem hann flutti þessa till., heldur einnig vegna hins, að honum var það ljóst að í mjög mörgum tilvíkum var afar hæpið að seljendur þessara réttinda ættu nokkurn rétt til þess selda.

Skömmu eftir að Gísli Sveinsson flutti þessa till., sem samþ, var hér á Alþ. samhljóða, gerðist það, að flutt var hér á Alþ. svonefnt Sogsfossafrv. sem fól það í sér að Fossafélagið Ísland, sem var að miklum meiri hluta eign erlendra aðila, fengi heimild til 99 ára til að reka Sogsvirkjun og til að reisa orkuflutningslínu til Reykjavíkur, en ríkið átti að fá innlausnarrétt til þessara eigna að 55 árum liðnum, þ.e.a.s. árið 1973. Fossafélagið átti að vera undanþegið tolli á öllu því er þurfti til byggingar fyrirtækisins og sama gilti um innflutt hráefni til hinnar orkufreku stóriðju sem átti að tengjast orkuverinu. Fossafélagið var einnig undanþegið öllum útflutningsgjöldum og reyndar öllum öðrum sköttum og tollum til landssjóðs en þó var því gert að greiða í landssjóð 10% árlegs nettóhagnaðar sem eftir stæði þegar búið væri að greiða hluthöfum 5% arð og leggja til hliðar fyrir afskriftum.

Ef þessi áform hefðu þá orðið að veruleika hefðu þessir erlendu aðilar hugsanlega haldið þessum einstæðu hlunnindum og þessum einstæðu skattfríðindum allt til ársins 1973. Það er af máli þessu að segja, að Heimastjórnarflokkurinn lagði allt kapp á að koma þessu máli fram, en forustumenn Sjálfstæðisflokksins gamla snerust hart á móti og þetta mál varð eitt mesta hitamál á þeim tíma hér á hv. Alþ. Framsóknarmennirnir voru lengi nokkuð tvístígandi, eins og stundum fyrr og síðar, en snerust að lokum til andstöðu og það réð úrslitum málsins. Lyktir málsins urðu sem sagt þær, að Sogsfossafrv. fékkst alls ekki afgreitt, en í þess stað var ákveðið að sett skyldi á stofn 5 manna n. til að gera allsherjarúttekt á fossamálunum.

Svo að farið sé fljótt yfir sögu, þá gerðist það næst í þessum málum að fossanefnd réð sér sem lögfræðilegan ráðunaut Einar Arnórsson þáv. prófessor og síðar hæstaréttardómara. Hann samdi rækilega álitsgerð um vatnsréttindi og komst að þeirri niðurstöðu að vatn væri ekki almennt undirorpið eignarrétti þeirra er land ætti undir því, landeigandi ætti að vísu sérstakan rétt til að nota vatn til heimilisþarfa, jarðræktar eða iðnaðar, en að öðru leyti væri öllum frjálst að nota vatnið endurgjaldslaust. Og það er skemmst af að segja, að á þessari niðurstöðu þessa merka lögfræðings byggði meiri hl. n.: Bjarni frá Vogi, Jón Þorláksson, forustumaður íhaldsmanna og síðar forustumaður Sjálfstfl., og Guðmundur Björnsson landlæknir, þá kenningu sína að orka í vatnsföllum landsins væri almenningseign. Minni hl. n., þeir Sveinn í Firði og Guðmundur Eggerz, aðhylltist hins vegar svonefnda séreignarstefnu. Aftur á móti voru allir nm. samþykkir því að flutt yrði þáltill. um rétt ríkisins til vatnsorku í almenningum og á afréttum. Sú till. var síðan flutt á þinginu 19l9 og var skorað á landsstjórnina að lýsa alla vatnsorku í almenningum og á afréttum eigu ríkisins og gera, ef með þarf, ráðstafanir til þess að rifting fari fram á gerningum milli einstaklinga eða félaga er í bága kynnu að koma við þennan rétt þjóðfélagsins.

Þess ber að geta, að eftir að till. kom fram flutti einn nm., Bjarni Jónsson frá Vogi, birti. þess efnis, að í staðinn fyrir orðin „í afréttum“ kæmi „i afréttum þeim er eigi heyra til neinni ákveðinni jörð einstakra manna eða sveitarfélaga.“ Niðurstaðan varð sú, að þegar Alþ. samþ. till. 27. sept. 1919 var einungis talað um vatnsorku í almenningum, en afréttir voru ekki nefndar. Það virðist sem sagt ekki hafa skapast full samstaða um málið á öðrum grundvelli. En þessi meðferð þingsins bendir eindregið til þess, að mjög margir hafi á þeim tíma, þ. á m. öll fossanefndin, talið sjálfsagt að slá þessu föstu einnig hvað viðvíkur afréttunum.

Eins og ég hef þegar tekið fram gilda ekki sömu reglur um eignarrétt annars vegar að heimalöndum og hins vegar að afréttum eða almenningum, og nú þegar ég tek mér fyrir hendur að lýsa gildandi rétti um þessi efni er rétt að víkja fyrst að eignarrétti að orku þar sem enginn vafi leikur á um, hver á landið.

Mér virðist að í raun og veru hafi aldrei verið endanlega skorið úr því hvort landeigandi telst beinlínis eigandi orkunnar í rennandi vatni eða hvort réttur hans er óbeinn og nær fyrst og fremst til skaðabóta vegna eignatjóns sem hann verður fyrir vegna virkjunarframkvæmda.

Eignarréttur að orku í rennandi vatni er sem sagt umdeilanlegur enn í dag, þó að það sé hins vegar ekki umdeilt í sjálfu sér að það land, sem þarf undir orkuver og verður að þjóðnýta og taka eignarnámi, það land verður að sjálfsögðu að bæta. Og það er óumdeilt að bændur, sem verða fyrir tjóni vegna þess að spennistöðvar eru reistar, háspennulinur eða önnur mannvirki á landi þeirra, þeir eiga rétt á bótum. Þeir eiga líka rétt á bótum ef beit á afréttarlandi rýrnar vegna orkuframkvæmda, veiði í vötnum eða ám spillist eða önnur almenn búskaparhlunnindi fara forgörðum. En á hinu er sem sagt mikill vafi, hvort þeir eiga sjálfa orkuna sem fólgin er í hinu rennandi vatni. Ef litið er til laga um þetta efni, þá segir í 2. gr. vatnalaganna: „Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lög þessi heimila.“

Hér er sem sagt komið að fyrstu löggjöfinni þar sem gerð var tilraun til þess að skera úr um þetta atriði. Sú löggjöf var til afgreiðslu hér á Alþ. í allmörg ár, og það var ekki fyrr en á þinginu 1923 að hún fékkst samþ. Frv., sem þá var samþ., byggðist á áliti beggja nefndarhlutanna sem ég nefndi hér áðan og nefndir voru fossanefnd, og staðreyndin var sú, að ákvæði vatnalaganna þóttu nægilega tvíræð einmitt hvað eignarréttaraðildina snerti til þess að báðir aðilar gátu á þau fallist. Það var af þessum ástæðum að Sveinn í Firði, sem tilheyrði þeim hluta n. sem vildi að eignarréttur að orku fylgdi jörð, greiddi atkv. gegn samþykkt frv. En Jónas frá Hriflu, sem átti lokaorðið á Alþ. við afgreiðslu málsins, kallaði lögin „bastarð“ hvað þetta atriði snerti, en greiddi þó atkv. með þar sem hann taldi það óhjákvæmilegt. Þetta var sem sagt söguleg málamiðlun, og þessi sögulega málamiðlun byggðist fyrst og fremst á þessum 7 orðum sem ég gat um hér áðan: „Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lög þessi heimila.“ Það var þessi endir setningarinnar sem var kjarninn í hinni sögulegu málamiðlun. Og þessi lög veita landeigendunum margvísleg réttindi yfir vatni, en sem sagt ekki meiri rétt en þar er sérstaklega tilgreindur. Og í þessum lögum var umráðamanni vatnsréttinda beinlínis bannað að virkja fallvatn, sem var yfir ákveðnu hámarki hvað afl snerti, nema með leyfi ráðh. Jafnframt var ráðh. heimilað að taka sérhvert fallvatn, virkjað eða óvirkjað, lögnámi til að vinna úr því orku til almenningsþarfa og skyldi landeigandi aðeins eiga rétt til endurgjalds vegna tjóns sem hann biði af vatnstökunni eða vegna missis orkuvers eða orkuveitu sem hann hefði þegar byggt. Í þessari löggjöf fólst raunverulega engin viðurkenning á eignarrétti landeigandans til sjálfrar orkunnar.

Með orkulögunum, nr. 12 frá 1946, 1. gr., var ríkinu beinlínis áskilinn allur réttur til að reisa og reka raforkuver sem væru stærri en 100 hestöfl, en þá voru þessi fyrrnefndu ákvæði vatnalaganna felld úr gildi. Í núgildandi orkulögum segir: „Til að reisa og reka raforkuver stærri en 2000 kw. þarf leyfi Alþingis. Til að reisa og reka raforkuver 200–2000 kw. þarf leyfi ráðh. raforkumála. Þá er heimilt að reisa og reka varastöð allt að 1000 kw. án sérstaks leyfis. Þeir, sem við gildistöku þessara laga hafa rétt til að eiga, reisa eða reka raforkuver, halda þeim rétti áfram.“

Ég vil halda því fram að þessu öllu athuguðu að umráðamaður vatnsréttinda eigi engan lögverndaðan rétt til endurgjalds fyrir orku sem fólgin er í vatnsfalli, a.m.k. ef vatnsaflið er yfir 0.2 mw. að stærð, vegna þess að hann ræður ekki yfir þessari orku lögum samkv. Eins og ég hef hér fram tekið, þá á hann rétt til bóta vegna tjóns sem hann sannanlega verður fyrir, en það er augljóst að réttur hans til orkunnar í vatninu getur ekki talist mikils virði.

Mjög svipuð sjónarmið gilda bersýnilega varðandi eignarrétt að jarðhita. Almenn regla um eignarrétt á jarðhita er nú í 9. og 10. gr. orkulaga frá 1967, þar sem segir að landeigendur hafi umráða- og eignarrétt á jarðhita bæði á og í jörðu. Ólafur Jóhannesson, þáv. prófessor, benti á það í ritgerð sem hann skrifaði 1957 að þrátt fyrir þetta ákvæði væri ekki þar með sagt hversu langt í jörð niður eignarráð landeiganda næðu almennt né heldur hversu djúpt í jörð hann mætti sækja jarðhita. Hann benti á að í íslenska löggjöf vanti hreinlega ákvæði um takmörk eignarráða landeigenda niður á við og af því verði alls ekki dregin sú ályktun að eignarréttinum séu engin takmörk seti.

Ólafur prófessor Lárusson segir í Eignarrétti, bls. 46, með leyfi forseta, eftir að hafa vitnað til þeirra lagaákvæða sem ég gat um hér áðan: „Með hliðsjón af þessum ákvæðum virðist almenna reglan vera sú að eignarráð landeiganda nái svo langt niður sem nauðsynlegt er að leyfa honum þau til þess að hann geti haft þau not af landi sínu sem heyra til venjulegrar hagnýtingar á eignarrétti yfir fasteignum.“ Ég undirstrika: „sem heyra til venjulegrar hagnýtingar“. Í ritgerð sinni, sem ég gat um, ræðir Ólafur Jóhannesson um kenningu Ólafs Lárussonar og varpar fram þeirri spurningu hvort nýting jarðhita, sem sækja verður djúpt í jörðu, geti talist til venjulegrar hagnýtingar í þessu sambandi. Hann segir: „Þeirri spurningu verður ekki svarað með öruggri vissu, en líklega er þó rétt að svara henni neitandi. Virðist eðlilegra að skilja framangreinda reglu svo, að þar sé átt við venjulega hagnýtingu fasteigna yfirleitt, en auk þess mundi einkaeign á jarðhífa í ótakmarkað dýpi leiða til ýmiss konar árekstra.“

Miðað við álit þessara fræðimanna virðist alls ekki líklegt að íslenskír dómstólar mundu dæma landeiganda rétt til jarðhita niður á hvaða dýpi sem er, jafnvel inn að miðpunkti jarðar, þótt ekki hafi verið enn settar reglur um þetta efni. Það er einmitt með stoð í þessum rökum að við þm. Alþb. flytjum hér till. um að eignarréttur á jarðhita fyrir neðan 100 m dýpi teljist almenningseign. Ég tel að íslenskir dómstólar mundu ekki telja þetta vera eignaupptöku. Þeir mundu komast að þeirri niðurstöðu, eins og þeir fræðimenn sem ég hef hér vitnað í, að þessi réttindi hefðu aldrei verið eign viðkomandi jarða og því væri samfélaginu rétt að setja þessar takmarkanir bótalaust.

Ég rek ekki frekar þessa hlið málsins, þ.e.a.s. þá sem snertir jarðhitann, og síst af öllu sé ég ástæðu til þess þar sem hér á Alþ. hafa nýverið og reyndar hvað eftir annað á undanförnum árum orðið miklar umr. um svonefnt háhitafrv. sem þm. Alþb. og þar á undan ráðh. Alþb. hafa flutt. En ég vil að sjálfsögðu vekja athygli á því, að í þessu ákvæði frv., sem við flytjum, er gengið nokkru lengra en gert er í háhitafrv., því að frv. um breyt. á orkulögum er málamiðlunartilraun. Það er tilraun til þess að ná samkomulagi um að allur háhiti í landinu verði gerður að sameign þjóðarinnar. En hitt er allt annað mál, að við alþb.-menn teljum miklu sjálfsagðara og eðlilegra að gengið sé lengra og að allur jarðhiti neðan við 100 m, hvort sem er á háhítasvæði eða lághitasvæði, verði talinn almenningseign.

Í þessu sambandi er rétt að vekja á því athygli, að 90% af öllu varmaafli jarðhitasvæðanna er á svonefndum háhitasvæðum og því ljóst að háhitasvæðin eru langsamlega verðmætust. Það er því eðlilegt og rökrétt af okkar hálfu að leggja þyngsta áherslu á samþykkt frv. hvað snertir háhitasvæðin. Hins vegar er ljóst að orka lághitasvæðanna hefur í sér fólgin gífurleg verðmæti þótt um sé að ræða tiltölulega lítinn hluta af heildarorkunni. Lághitasvæði liggja víða nærri byggð og þau eru miklu hagkvæmari og hentugri til notkunar í hitaveitu vegna þess að lágbitavatnið er þannig að samsetningu að það er heppilegra til húsahitunar og má oft nota það beint án forhitunar. Er því ljóst að hér er um gífurlega stórt hagsmunamál að ræða fyrir fjöldamörg byggðarlög og sjálfsagt að þessi verðmæti verði einnig talin almenningseign.

Ég sný mér því næst að þeim landssvæðum sem óvíst er um eignarhald á, — landssvæðum sem eru utan heimalanda, og það á að sjálfsögðu einkum við, eins og ég hef áður nefnt, um afréttir og almenninga. Ég nefndi hér háhitasvæðin áðan, en þau eru 27 talsins. Ég hef kannað hvernig háttað er eignarrétti á þessum háhitasvæðum, og mér telst til að 5 þeirra séu formleg eign ríkisins, 2 þeirra séu að hálfu leyti eign ríkisins, 3 þeirra séu að hálfu eign sveitarfélaga, um 1–2 er óvist, en 15 liggja á afréttum og almenningum — 15 af 27. Af þessu sést að mikill meiri hluti þessarar orku er í afréttum og á almenningum, og það gildir reyndar um mörg stærstu svæðin, eins og Öskjusvæðið, Kverkfjallasvæðið og Torfajökulssvæðið.

Þetta nefni ég hér fyrst og fremst til að benda á hversu gífurlega miklir hagsmunir eru hér í húfi. Reyndar gildir nokkuð það sama um vatnsaflið. Flest stærstu fallvötn landsins, sem líklegt er að verði virkjuð á næstu áratugum, eru einmitt á landi sem telst annaðhvort afréttir eða almenningur. Þannig er t.d. virkjunarstaður Blöndu á afréttarlandi Auðkúlu í Svínavatnshreppi í Austur-Húnavatnssýslu og fjölmargir bændur í Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði eiga beitarrétt á þessu svæði þó þeir eigi vafalaust ekki eignarrétt á svæðinu. Jörðin Reykjahlíð í Mývatnssveit á afréttarland á vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum allt inn að Herðubreiðarlindum, en þar fyrir innan og inn að jöklum eru almenningar. Vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum er tvímælalaust eitt mesta vatnsorkasvæði landsins og snertir þar að auki mjög virkjunaráformin í Fljótsdal. Á þessu má sjá að eignarrétturinn að orku í afréttum og almenningum er gífurlega stórt hagsmunamál.

Áður en ég held lengra og tel önnur auðæfi sem hér koma til greina, þá er rétt að nefna niðurstöður dómstóla um það hver eigi afrétti landsins því um þetta atriði ríkir hinn mesti vafi. Ég vil í því sambandi benda á dóm Hæstaréttar árið 1955 bls. 108, þar sem fjallað var um eignarhald á landi á Landmannaafrétti. Undirréttur hafði komist að þeirri niðurstöðu að Landmannaafréttur væri háður eignarrétti Landmannahrepps og væri ekki almenningur. En Hæstiréttur komst einróma að gagnstæðri niðurstöðu og taldi að ekki hefðu verið leiddar sönnur að því að Landmanna- og Holtamannahreppar hefðu öðlast eignarrétt á afréttinum, hvorki fyrir nám, löggerninga, hefð né með öðrum hætti. Hins vegar ættu íbúar þessara hreppa svo og ábúendur býlanna Næfurholts og Hóla í Rangárvallahreppi sameiginlegan veiðirétt í vötnum á afrétti þessum. Í dómi Hæstaréttar frá árinu 1969, bis. 510, var fjallað um deilur skagfirðinga og eyfirðinga um eignarrétt á Nýjabæjarafrétti. Undirréttur dæmdi skagfirðingum eignarrétt á afréttarlandinu í samræmi við afsal frá árinu 1464. En Hæstiréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu og taldi að hvorugur aðilinn, eins og sagði í dómi Hæstaréttar, með leyfi forseta, „hefði fært fram gögn fyrir fullkominni eignartöku að fornu eða nýju að landssvæði því sem um er að tefla í máli þessu.“ Og síðan bætir Hæstiréttur við þessum athyglisverðu orðum: „Yfirlýsingar í afsölum fyrir og síðar, sem eigi styðjast við önnur gögn, nægja eigi til að dæma öðrum hvorum aðila eignarrétt til öræfalandsvæðis þessa. Verða því kröfur hvorugs aðila í málinu teknar til greina.“ Þannig hljóðaði sem sagt þessi Salómonsdómur Hæstaréttar.

Þessu til viðbótar er rétt að benda á að í grg. fyrir frv. til námulaga, sem samþ. var á Alþ. árið 1973, segir m.a. að ákvæði 1. gr. námulaga, nr. 50/1909, eins og segir orðrétt í grg. sem er samin af Árna Snævarr ráðuneytisstjóra, Gizuri Bergsteinssyni fyrrv. hæstaréttardómara og Þórði Eyjólfssyni fyrrv. hæstaréttardómara, að ákvæði laganna séu „á þeim sjónarmiðum reist að almenningar, afréttir og öræfi séu ekki í einkaeign, nema sannað sé að tiltekið land, sem nú er afréttur, hafi áður verið í einkaeign“. Sem sagt, sönnunarbyrðin hvílir algjörlega á þeim sem halda slíkum kröfum fram, og í langflestum tilvikum er ógerningur að færa sönnur að slíkum fullyrðingum.

Ég læt hér nægja að ræða um eignarréttinn að almenningum eða afréttum. Ég vil bara undirstrika það enn á ný í sambandi við till. okkar alþfl.- manna, að með henni er ekki verið að þjóðnýta afrétti eða almenninga. Það er ekki verið að færa eignarréttinn úr hendi eins yfir á hendi annars aðila. Það er einungis verið að fá Alþ. og stjórnarskrárgjafa til þess að slá því föstu í eitt skipti fyrir öll að þessi auðæfi, þessar lendur, sem hafa verið almenningseign, skuli vera það áfram.

Fyrir utan hinar miklu orkulindir á afréttum og í almenningum, sem ég hef hér minnst á, mætti kannske bæta við ýmsum öðrum auðæfum eða verðmætum sem ég sé þó ekki ástæðu til að fjölyrða hér um. Við vitum að óbyggðirnar eru þegar að verða eftirsóttar sem sumardvalarstaðir, þjóðinni fer mjög ört fjölgandi og sem betur fer fara tekjur landsmanna einnig vaxandi. Það er því alveg ljóst að líka frá þessu sjónarmiði séð mun mikilvægi óbyggðalandanna fara mjög ört vaxandi.

till., sem við höfum hér flutt á þskj. 101, er þess efnis að öll verðmæti í sjó og á sjávarbotni innan efnahagslögsögu, svo og almenningar, afréttir og önnur óbyggð lönd utan heimalanda, teljist sameign þjóðarinnar allrar, einnig námur í jörðu, orka í rennandi vatni og jarðhiti neðan við 100 m dýpi. Ég hef hér rökstutt þetta ákvæði og sé ekki ástæðu til að bæta þar miklu við. 2. mgr. er svo hljóðandi: „Eignarrétti á íslenskum náttúruauðæfum, landi og landgrunni skal að öðru leyti skipað með lögum. Tryggja ber landsmönnum öllum rétt til eðlilegrar umgengni og útivistar í landinu.“ Þetta ákvæði er þess eðlis, að ekki er þörf að rökstyðja það frekar, svo sjálfsagt sem það er. Síðan kemur setning til viðbótar sem er í grófum dráttum samhljóða frvgr. sem við alþb.-menn höfum oft áður flutt hér á Alþ. og oft áður rökstutt og skal það ekki aftur gert, en hún er svo hljóðandi: „Við eignarnám á landi, í þéttbýli sem dreifbýli, skal almennt ekki taka tillit til verðhækkunar sem stafar af uppbyggingu þéttbýlissvæða í næsta nágrenni, opinberum framkvæmdum eða öðrum ytri aðstæðum, heldur ber að miða mat við verðmæti hliðstæðra eigna þar sem þess háttar ástæður hafa óveruleg áhrif til verðhækkunar.“ Og svo kemur lokasetning þar sem undirstrikað er það meginsjónarmið þessa frv., að staða bænda skuli ekki skert og þeir skuli halda þeim hlunnindum sem þeir hafa átt á liðnum öldum. Þar segir: „Með þeim takmörkunum, sem hér greinir,“

— það er verið að afmarka eignarrétt þeirra og því er rétt að taka þannig til orða, — „með þeim takmörkunum, sem hér greinir, skal við það miðað að bændur haldi eignarrétti á jörðum sínum, beitirétti í óbyggðum og öðrum þeim hlunnindum í heimalöndum og utan þeirra sem fylgt hafa íslenskum búskaparháttum á liðnum öldum.“

Herra forseti. Ég sagði í upphafi máls míns að það væri einkenni þjóðlífs okkar að hér byggi lítil þjóð í stóru landi og ein afleiðing þess væri sú, að eignarréttur á landi væri hér óskýrari en víða annars staðar. Land á Íslandi er áreiðanlega með því ódýrasta sem þekkist nokkurs staðar í Evrópu. Hversu lengi það verður skal ósagt látið. En meðan svo er er einmitt gott tækifæri til þess að kveða skýrt á um það hvað sé í dag raunveruleg eign einstaklinga og hvað sé og hafi verið sameign þjóðarinnar. Við höfum verið furðu sinnulausir, við íslendingar, að ákvarða fasta og skýra stefnu í eignarréttarmálum. En nú er tvímælalaust mikil hætta á ferðum. Hættan er fólgin í því að einstaklingar sölsi undir sig eignir sem enginn einstaklingur hefur fram að þessu átt. Við verðum að tryggja hagsmuni þjóðarheildarinnar og það er þess vegna sem þessi till. er flutt.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til hv. allshn.