09.12.1976
Efri deild: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

66. mál, vegalög

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég gat þess við 1. umr. að borist hefði ósk til þm. Reykn. um að koma því ákvæði inn í vegalög að settir yrðu fastir gjalddagar á greiðslu þéttbýlisvegafjár. Það hefur til þessa að sögn sveitarstjórnarmanna skort nokkuð á að greiðslur væru inntar af hendi í þessu efni af hálfu Vegagerðarinnar og sveitarfélögin átt inni stórfé á þeirra mælikvarða hjá Vegasjóði af þessum sökum.

Á s.l. ári, rétt í þinglokin, kom vegamálastjóri þáv. á fund þm. Reykn., raunar til að ræða annað atriði. Þá var á þetta minnst og kom greinilega fram þar að á þessu væri ekki nógu góð regla. Taldi Vegagerðin sig þá oft ekki fá fullnaðaruppgjör að sínu leyti, annars vegar við ríkissjóð og hins vegar að það skorti á að skilað væri inn skýrslum eða grg. um framkvæmdir af hálfu sveitarfélaganna. Ég hef hins vegar kynnt mér það að þau sveitarfélög, sem hafa skilað inn slíkum grg., hafa þrátt fyrir það ekki fengið sínar greiðslur inntar af hendi. Ég sé að hv. samgn. hefur ekki tekið neitt tillit til þessa og hv. frsm. gat þessa ekki í framsöguræðu sinni neitt frekar. Ég vil því, herra forseti, áskilja mér allan rétt til að kanna þetta mál betur og með tilliti til þess, að ef ástæða verður talin af minni hálfu, að leggja fram brtt. þar að lútandi við 3. umr. málsins.