09.12.1976
Efri deild: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

66. mál, vegalög

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. 10. landsk. þm. að mér láðist að geta um þessa till. um ákvæði um endurgreiðslur á þéttbýlisvegafénu, en við ræddum það í n. og bárum þetta atriði undir vegamálastjóra og starfsmenn Vegagerðarinnar. Þeir skýrðu okkur frá því að þetta væri greitt samkv. reikningum eftir á og það hefur stundum viljað verða dráttur á því að þessir reikningar bærust. Það er vafalaust misjafnt hve sveitarfélög skila þeim fljótt, en þar sem þetta greiðist eftir á eftir reikningum, en ekki fyrirfram sem hlutfall af heildarfjárveitingunni, þá treystum við okkur ekki til þess að fara að setja inn í vegalögin einhver ákvæði um ákveðna gjalddaga. En ef það kæmi einhver ákveðin till. um það, þá mundi vafalaust vera hægt að athuga það.