09.12.1976
Efri deild: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

66. mál, vegalög

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir málflutning hv. 10. landsk. þm. þar sem hann benti réttilega á þau vandamál sem sveitarfélög hafa átt í við Vegagerð ríkisins þegar til innheimtu eða greiðslu úr Vegasjóði til sveitarfélaganna kemur. Hjá Reykjavíkurborg var útlitið þannig að ekki leit út fyrir að Reykjavíkurborg fengi nokkurn skapaðan hlut af þeim 90 millj. kr. sem hún átti kröfu til að fá á þessu ári, en með aðstoð og sérstökum bréfaskriftum fjmrh. sjálfs greiddi Vegagerðin loksins helming af því sem henni bar að greiða til Reykjavíkurborgar á þessu ári, en 45 millj. af þessum 90 millj. koma ekki til greiðslu fyrr en næsta ár.

Ég tel að það sé ekki erfiðara að breyta í mánaðargreiðslur greiðslum úr Vegasjóði heldur en þegar breytt var í mánaðargreiðslur til sveitarfélaga úr Jöfnunarsjóði, það eru hliðstæðir sjóðir hvað það snertir. Ég legg mikla áherslu á að þarna verði settar ákveðnar reglur þannig að greiðslur úr Vegasjóði komi til sveitarfélaga mánaðarlega. Það á ekki að vera erfiðara fyrir ríkið eða sjóði þess að standa í skilum heldur en einstaklingana.