09.12.1976
Neðri deild: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (745)

12. mál, meðferð opinberra mála

Frsm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Það er út af brtt., sem hv. þm. Svava Jakobsdóttir og Sigurlaug Bjarnadóttir hafa gert hér grein fyrir, sem ég vildi segja nokkur orð. Mér sýnist lítið mál vera gert nokkuð flókið og blásið óþarflega mikið út og kannske einhver misskilningur hér á ferðinni.

Öll erum við sammála um að nauðsynlegt sé að rétta hlut sakborninga og vernda hann sem best. Þetta kemur og fram í frv. til l. um meðferð opinberra mála, bæði því, sem lagt var fram í fyrra, og eins því sem var lagt fram á þessu þingi, og að því leyti voru mjög verulega og held ég að öllu leyti teknar til greina þær till. sem fram komu frá lagadeild Háskóla Íslands og höfðu þetta sjónarmið ríkt í huga.

Lög og ákvæði, sem fjalla um þessi atriði sem hér er verið að ræða um, eru lög um meðferð opinberra mála, nr. 74 frá 1974, Þar er aðallega vitnað í 80, gr. og ég held að það sé nú kominn tími til að þessi gr. sé lesin yfir svo að þingheimi sé ljóst hvað verið er að tala um. Í 80. gr, þessara laga segir í 1. mgr.:

„Nú er farið með mál samkvæmt 79. gr., og skal þá jafnan skipa verjanda.“ — Mál, sem hafa meðferð samkvæmt 79. gr., eru mál sem varða 8 ára fangelsi eða meira, eru sem sagt mál mjög alvarlegs eðlis, og þar fer ekki milli mála að skipa skal verjanda og er ekki um þetta deilt.

Síðan er 2. mgr. þessarar 80. gr, sem hljóðar svo:

„Eftir ósk sökunauts skal skipa honum verjanda:

1. Meðan hann sætir gæsluvarðhaldi.

2. Ef hann er sakaður um brot er að lögum getur valdið honum missi þjóðfélagsréttinda, svo sem missi stöðu, kosningarréttar eða kjörgengis, atvinnuréttinda o. s, frv.

3. Ef brot getur varðað 50 þús, kr. sekt eða tveggja mánaða refsivist eða hefur í för með sér upptöku eigna er verulegum verðmætum nema miðað við efnahag og ástæður sökunauts. Þó getur dómari skipað sökunaut verjanda þótt þessum skilyrðum sé ekki fullnægt ef sérstaklega stendur á, svo sem ef vafaatriði eru í máli um lög eða staðreyndir, sbr. 2. mgr.

Þetta er 2. mgr. 80, gr., sem hér hefur verið vitnað til. Síðan kemur 3, mgr.

„Án óska sökunauts skipar dómari honum réttargæslumann:

1. Hvarvetna þess er matsmenn eiga að staðfesta framburð eða matsgerð að sökunaut fjarstöddum. Dómari veitir réttargæslumanni kost á að kynna sér það allt, er staðfest skal, og annað, sem nauðsynlegt kann að vera til skilnings á því áður en staðfesting fer fram. Ber réttargæslumanni að gæta hagsmuna sökunauts við staðfestingu.

2. Dómari getur skipað sökunaut réttargæslumann í rannsókn máls ef sökunautur er að áliti dómara sérstaklega sljór eða skilningslítill eða haldinn annmörkum er torvelda skynjun hans, svo sem sjóndepru, málleysi eða heyrnarleysi, sökunautur er undir 18 ára aldri eða annars er honum svo farið eða framkoma hans fyrir dómi er slík, að dómari telji skipun réttargæslumanns heppilega.“

Þetta er 2. og 3. mgr. 80. gr. sem vísað er þér til, og eins og fram kemur í till. Svövu Jakobsdóttur er nú gert ráð fyrir að aftan við þessa mgr. í 80. gr. komi svo hljóðandi ný mgr.:

„Dómari skal skipa sökunaut réttargæslumann við rannsókn máls hjá rannsóknarlögreglu ríkisins samkvæmt ákvæðum 2. og 3. mgr. eftir því sem þau eiga við, nema það sé talið varhugavert vegna rannsóknar málsins.“

Nú hef ég verið að lesa hér upp lagaákvæði sem í gildi hafa verið og farið hefur verið eftir, og þar kemur fram að í nánast öllum tilvikum skal skipa verjanda réttargæslumann: 1) Eftir ósk sökunauts og 2) án óskar sökunauts. (Gripið fram f.) Nú er hér gripið fram í og sagt að munur sé á lögreglurannsókn og dómsrannsókn. Nú hefur þetta farið saman að því leyti til að sami aðili hefur haft þetta með höndum: rannsóknina og dóminn, þannig að þetta hefur ekki valdið neinum vandræðum fram að þessu. Þess vegna hefur verið farið eftir þessu. Nú á að skilja þarna sundur þannig að rannsóknin fari fram sérstaklega hjá öðrum aðila, og þess vegna hefur allshn. fallist á að setja nýtt ákvæði inn í gr. þar sem segir að heimilt sé að skipa réttargæslumann með hliðsjón af þessum tveim mgr. En í raun og veru er það túlkun mín og túlkun þeirra, sem með þessi mál fara, að 80. gr., eins og hún liggur fyrir í dag, fullnægi þessu hvað rannsóknina snertir. Ég get vitnað í það sem ég las upp áðan, þ.e.a.s. 2, tölul. 3. mgr., þar sem segir: „Dómari getur skipað sökunaut réttargæslumann í rannsókn máls ef sökunautur er að áliti dómara“ o.s.frv. Það er hafið yfir allan vafa að 80. gr. nær nánast yfir öll þau atriði sem til greina koma þegar rannsókn máls fer fram. Í 2. tölulið 1. mgr. segir: „Ef hann er sakaður um brot er að lögum getur valdið honum missi þjóðfélagsréttinda, svo sem missi stöðu, kosningarréttar eða kjörgengis eða atvinnuréttinda“ o.s.frv., og í 3. tölulið segir: „Ef brot getur varðar 50 þús. kr. sekt eða tveggja mánaða refsivist eða hefur í för með sér upptöku eigna“ o.s.frv. Þessir tveir töluliðir ná nánast yfir öll tilvík nema það allra minnsta. Mér var sagt í sakadómi í morgun að sennilega væri brot gegn hundahaldi það eina sem hugsanlegt væri að undanskilja, sem ekki heyrði beinlínis undir þetta.

Að gefnu tilefni skal tekið fram að lagadeild Háskóla Íslands lagði til að þetta ákvæði hljóðaði eins og allshn. hefur lagt til, þ.e.a. s. í ákvæðinu stæði eftirfarandi: „Heimilt er að skipa réttargæslumann“ o.s.frv. Það er farið fullkomlega eftir áliti lagadeildarinnar hvað þetta snertir.

Ég vil líka vekja athygli á því, að samkvæmt till. Svövu Jakobsdóttur, sem eins og hæstv. ráðh. sagði er vel skiljanleg og er góðra gjalda verð út af fyrir sig, er gengið lengra en 80. gr. segir í dag, vegna þess að þar er getið þess að jafnan skuli skipa verjanda ef sökunautur óskar þess. (Gripið fram í.) Ég er hér með þskj. 146 og þar segir: „Dómari skal skipa sökunaut“ — þetta er í till. hv, þm. (Gripið fram í.) Nei, ég var að lesa upp úr 80. gr. Í 80. gr. segir: „Eftir ósk sökunauts skal skipa honum verjanda í eftirtöldum málum.“ En samkvæmt till. hv. þm. skal ekki einu sinni spyrja sökunaut eða sakborning að því hvort hann vilji verjanda eða ekki, heldur skal það bara gert. Og þá er spurningin: Hvaða aðstæður eru fyrir hendi þegar verjandi er skipaður? Þúsundir mála berast til sakadóms og lögreglustjóra á hverju ári, stærri og smærri mál eins og gengur. Menn eru kallaðir til yfirheyrslu út af einhverjum grunsemdum út af einhverjum ákærum eða ábendingum. Málið þarf e.t.v. ekki að vera þess eðlis að það þurfi frekari rannsóknar við. Hins vegar er þarna hafin rannsókn um leið og viðkomandi aðili er kallaður til, og þá sýnist mér að ekki sé hægt að skilja till. hv. þm. Svövu Jakobsdóttur öðruvísi en svo, að það skuli sjálfkrafa skipaður réttargæslumaður, hvers eðlis sem málið er og hvernig sem það er vaxið, strax í upphafi þess. (Gripið fram í.) Rannsóknarlögregla ríkisins hefur með höndum rannsókn brotamála samkvæmt 3. gr., óskilgreint, með þeim undantekningum sem upp eru taldar í 6. gr., eins og hv. þm. veit vel, og ég held að ekki sé skynsamlegt að gera þetta, að koma á þessari sjálfsögðu skyldu í lögum. Líka er það að undir vissum kringumstæðum hefur sökunautur eða sakborningur e.t.v. engan áhuga á því að fá verjanda. í því sambandi vitna ég í 81. gr., ég held að það sé 3. mgr., þar sem segir:

„Nú vill sökunautur ekki að honum verði verjandi skipaður og skal það þá ekki gert nema dómara þyki allt að einu ástæða til þess. Sjálfum er sökunaut rétt að halda uppi vörn fyrir sig, svo er honum og rétt að ráða á sinn kostnað hvern þann löghæfan mann, sem dómari samþykkir, til að halda uppi vörn fyrir sig, hvort sem skylt er að skipa verjanda eða ekki.“

Strax þarna sýnast mér ákvæðin í lagabálknum stangast beinlínis á, og ég vek athygli á því að þó við viljum verja rétt sakborninga sem allra mest, þá megum við ekki ganga of langt. Ef rannsókn er í gangi og viðkomandi aðili er ekki hnepptur í gæsluvarðhald, þá er hann frjáls ferða sinna, þá hefur hann alla möguleika á því að kalla til lögfróðan mann, ráða sér verjanda eða hafa uppi allar aðrar þær varnir sem mögulegar eru. Ef hins vegar hann er hnepptur í gæsluvarðhald, þá er það skylda dómara samkvæmt lögum að vekja athygli hans á því að hann eigi rétt á að skipaður sé réttargæslumaður, og það er í öllum tilfeilum gert. Ég hugsa að enginn efist um það að því ákvæði sé framfylgt.

Af þessum ástæðum, sem ég hef nú rakið, get ég ekki fyrir mitt leyti, — og nú tala ég ekki lengur fyrir hönd n., heldur fyrir mig prívat og persónulega, — þá get ég ekki fallist á þær brtt. sem fram hafa verið bornar af hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur og Svövu Jakobsdóttur og legg til að brtt. allshn. verði samþ.

Ég hef satt að segja ekki haft tíma til að skoða brtt. hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur. Ég skal alveg viðurkenna það, að mér finnst margt í hennar máli svo og hv. þm. Svövu Jakobsdóttur sem til athugunar sé. En við erum búin í allshn. að margræða þetta mál og höfum komist að ákveðinni niðurstöðu sem við leggjum hér til. Það er meira og minna í samræmi við það sem réttarfarsnefnd hefur lagt til, sem lagadeild Háskólans hefur lagt til, sem rn. hefur mælt með, sem fulltrúar saksóknara hafa mælt með, og ég held að það sé ekki skynsamlegt í málaflokki sem þessum að gera skyndilega á síðustu stundu breyt. eins og hér er lagt til af hálfu hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur, sem þingheimur hefur ekki einu sinni séð, sem hugsanlega gæti stangast á við mörg önnur ákvæði í þessum lagabálki. T.d. er 9, kafli laga um meðferð opinberra mála upp á 8 eða 9 gr, sem fjalla einvörðungu um gæsluvarðhald og aðra gæslu á sökunaut, og satt að segja hef ég enga aðstöðu til að átta mig á því hvort þessar brtt, falla að þessum greinum sem hér eru í þessum lögum. En ég hef þegar bent á að mér sýnist þær stangast á við þau ákvæði sem ég hef nú þegar getað kynnt mér.

Ég minni á að nú er starfandi réttarfarsnefnd sem raunverulega hefur það að aðalverkefni að endurskoða lög um meðferð opinberra mála. Þessi n. komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri og tímabært að taka sérstaklega út úr kafla um rannsóknarlögreglu ríkisins og leggja til að sérstök lög yrðu sett um það atriði, og það hefur nú verið gert. En mér skilst að réttarfarsnefnd sé með meðferð opinberra mála áfram í athugun. Það er alveg ljóst mál að mörgum ákvæðum þar þarf að breyta með hliðsjón af nýjum aðstæðum, þó ekki væri nema vegna þess að lögin krefjast alls kyns breytinga miðað við ný skilyrði og nýjar aðstæður í nútímaþjóðfélagi. Sumar greinarnar eru mjög óljósar og illa orðaðar, eins og t.d. ég álít að 80. gr. sé, hún sé alls ekki nægilega vel orðuð. Ég lit svo á að þessi atriði, sem hér er verið að benda á og fram koma í n. og í brtt., verði og eigi að skoðast af réttarfarsnefnd og koma þá frá henni, hennar skoðun á þeim, um leið og hún leggur fram till. sínar um breyt. á þessum lögum í heild sinni.