09.12.1976
Neðri deild: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (748)

12. mál, meðferð opinberra mála

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Það er sjálfsagt ekki mitt að deila við dómarann, hæstv. dómsmrh., um þessi mál. Ég finn vissulega til fáfræði minnar þegar ég stend andspænis honum sem andmælanda hér. Mér er þó nær að ætla að hafi ég misskilið eitthvað hér, þá hafi e.t.v. hæstv. dómsmrh. misskilið mig líka. Það, sem ég á við með þessari till., er ekki að hugsanlega sé þessu ákvæði, sem ég er að fara fram á að komi inn í lögin, ekki fullnægt samkv. lögunum sjálfum. En staðreyndin er sú, að lögin hafa verið túlkuð þannig hingað til, og þar hef ég fyrir mér orð starfandi lögmanna, — þau hafa verið túlkuð þannig að manni, sem handtekinn er og settur í gæsluvarðhald, er óheimilt að fá sér verjanda. Þannig eru lögin í praxís, og það er þetta sem brtt. mín á að laga. Honum er alls ekki heimilt að kveðja neinn sér til aðstoðar áður en til gæsluvarðhaldsúrskurðar kemur. Það er fyrst eftir að búið er að dæma manninn og loka hann inni í gæsluvarðhaldi sem hann fær sinn verjanda. Og ég hygg að ef hægt er að rangtúlka íslensk lög með þessu móti og framkvæma lögin þannig, þá sé vissulega tímabært að reyna að lagfæra það ákvæði. Og það er það sem þessi brtt. mín leitast við að gera.