09.12.1976
Neðri deild: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (749)

12. mál, meðferð opinberra mála

Friðjón Þórðarson:

Virðulegi forseti. Ég held að það sé almennt mat manna, sem til þekkja, að lög um meðferð opinberra mála, nr. 74 frá 1974, gangi mjög langt í því að gæta réttar sakbornings og virða hann. Þetta er eðlilegt og sjálfsagt. Lögin eru samin í anda mannúðarstefnu í þessum málum og það er ekki nema gott eitt um það að segja. Þeir, sem lenda í þessu, sakborningarnir, eru menn eins og við og ber að sjálfsögðu að gæta réttar þeirra á allan hátt.

En þeirrar skoðunar hefur líka gætt að lögin gengju jafnvel nokkuð langt og stundum óþarflega langt í þessu efni. Við megum ekki gleyma því, að hlutverk lögreglumanns og dómara er þó fyrst og fremst að leiða hið sanna og rétta í ljós, að leita sannleikans í hverju máli. Og satt að segja er það þá fyrst, þegar búið er að leggja spilin á borðið, sakborningur er búinn að segja satt og rétt frá öllu, sem hægt er að fara reglulega að styðja hans mál og gæta þeirra reglna sem settar eru honum til verndar í lögunum. Ég held að menn megi dálítið gæta sín í þessu efni. Það er hægt að ganga of langt í þessum efnum eins og svo mörgu öðru. Það verkar t.d. óneitanlega dálítið einkennilega stundum þegar sakborningur er tekinn fyrir rétt eða yfirheyrður af lögreglumanni, að þá skuli það vera eitt af því fyrsta, sem lögreglumaður eða dómari verður að gera, að benda manninum á að hann þurfi ekki að svara spurningum. Ég held þess vegna að ég verði að taka undir orð hæstv. dómsmrh., að þessar till., sem nú hafa verið ræddar hér í dag, séu að sumu leyti á misskilningi byggðar og óeðlilegar, og án þess að hafa um þær fleiri orð held ég að mitt mat sé á þá lund, að ég verði að telja till. þessara hv. þingkvenna, sem hér hafa komið fram óþarfar.