19.10.1976
Sameinað þing: 5. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

Kosning í fastanefndir skv. 15. gr. þingskapalaga

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Eins og þingheimi er kunnugt, þá er nú rösklega ein vika liðin frá því að Alþ. kom saman og enn hefur ekki verið kosið til fjvn. hér í Sþ. Ég segi enn, vegna þess að mér skilst samkv. dagskránni að nú muni eiga að kjósa hér á eftir í fjvn. En ég taldi ástæðu til þess að ekki bara þingheimur hér, heldur og almenningur í landinu, fengi um það vitneskju hvað hefur gerst, ekki bara núna, heldur og á undanförnum tveimur árum, þegar átt hefur sér stað skipan fjvn. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir það að gefa mér tækifæri til þess að gera hér, að ég vona í ekki allt of löngu máli, grein fyrir þessum mínum viðhorfum.

Það er öllum hv. þm. ljóst hver staðan var hér á hv. Alþ. að afloknum kosningum sumarið 1974. Þá stóðu mál þannig að nefndarskipan í fjvn. voru 9 menn og hlutföll hér á Alþ. þannig eftir stjórnarmyndun, að núv. stjórnarflokkar fengu með samstillingu á lista 7 menn í fjvn. en stjórnarandstaðan átti þá að fá 2. Þetta var öllum ljóst og þetta lá fyrir. Þá gerði þingflokkur SF samkomulag við þingflokk Alþb. að stilla sameiginlegum lista til kjörs í fjvn. sem hafði atkvæðamagn til þess að fá tvo menn kjörna. Þá var Alþfl. fyrir utan með mann í fjvn. ef mál hefðu skipast með þessum hætti.

Við þessu brugðust þeir alþfl: menn, að vonum má kannske segja, hart, en höfðu þá ekki framsýni til að sjá hver eftirleikurinn eða framvinda mála yrði eins og raun ber vitni, vegna þess að þetta samkomulag milli þingflokks Samtakanna og Alþb. hafði það í för með sér að fjölgað var í fjvn. úr 9 í 10 og stjórnarandstöðunni þannig tryggt að fá þriðja manninn inn t fjvn. í staðinn fyrir tvo áður, hefði samkomulagið við Alþb. af okkar hálfu ekki verið gert. Ég held að það sé nauðsynlegt, að menn hafi þetta í huga, þegar litið er til þessa máls, hvernig þetta gerðist.

Þarna var að verki staðið á þann veg að tryggja frekar en útlit sýndist fyrir stöðu stjórnarandstöðunnar á Alþ. og innan fjvn. Ég þóttist sjá það strax, a.m.k. fannst mér einkennilegt, ef eitthvað annað yrði uppi á teningnum en það sem raun varð á, að hæstv. ríkisstj. og meiri hl. hér á Alþ. í hennar umboði gerðu ráðstafanir til þess að tryggja að Alþfl. fengi mann inn í fjvn. Og sú tilgáta mín reyndist vera rétt. Það sýndu þau viðbrögð sem uppi voru á þessum tíma.

Það kom sem sagt í ljós að hæstv. forsrh. mælti í Ed. Alþ. 4. nóv. fyrir frv. sem hefði inni að fela fjölgun í fjvn. úr 9 í 9–11 menn, en síðan átti fjöldinn að verða samkv. ákvörðun Alþ. hverju sinni. Það varð um það samkomulag að binda þessa tölu við 10. Það var gert fyrst og fremst vegna andstöðu þeirra Alþb: manna við það að hafa ekki fastbundna tölu um hversu margir ættu að sitja í fjvn. Það var fyrst og fremst Alþb. sem hafði andstöðu við það að hafa þetta opið, og það var að þeirra — ég skal ekki segja kröfu, a.m.k. af þeirra þrýstingi sem það var gert, að talan var bundin við 10. Rökin sem fyrst og fremst voru færð fram af hálfu hæstv. forsrh. fyrir þessu stjfrv. um fjölgun í fjvn. frá því sem áður var, voru þau, að þar með væri tryggt að allir þingflokkar, sem ættu sæti á Alþ., fengju fulltrúa í fjvn. Það voru rökin, það voru þær forsendur sem fram voru bornar fyrir því að ríkisstj. og meiri hl. hér á Alþ. beittu sér fyrir því að í fjvn. var fjölgað. Um þetta tókst samkomulag, og ég veit ekki um neinn þann einstakling eða forustumann í stjórnmálum hér innan þings á undanförnum tveimur árum sem hefur um það efast að hér varð samkomulag um það að skipa þessum málum með þeim hætti að allir þingflokkar ættu fulltrúa í fjvn. að óbreyttum aðstæðum. Og ég er viss um það, að engum, sem kalla má foringja í íslenskum stjórnmálum, hefur dottið það í hug þá að hér yrði breyting á, hér yrði samkomulag rofið á miðju kjörtímabili til þess með þeim hætti, sem nú virðist blasa við, að knýja út kosningu til handa einum þingflokki hér á Alþ. til þess að fá tvo menn inn í fjvn. sem ella hefði ekki fengið nema einn, hefði lögum ekki verið breytt.

Nú hefur það gerst að því er mér er sagt, að átt hafi sér stað sinnaskipti og það hafi verið samþykkt í þingflokki Alþb., líklega fyrir atbeina utan að komandi aðila, utan þingflokksins, — ég segi: líklega fyrir atbeina utan að komandi aðila, — að breyting hefur verið gerð á afstöðu Alþb. og nú hefur það, að mér skilst, tilkynnt að það ætli sér að stilla upp tveimur mönnum og ná þeim kjörnum, sem það hefur þingstyrk til eins og málin nú standa. Þennan þingstyrk hafa þeir haft undanfarin tvö ár. Frá og með fjölguninni í 11 hafa þeir haft þingstyrk til þess að fá tvo menn kjörna í fjvn. En einhverra hluta vegna þykir þeim fremur henta nú á miðju kjörtímabili að rjúfa þetta samkomulag. Það hefur ekki, að því er ég best veit, verið neinn áberandi vilji fyrir því í þingflokki Alþb. á undanförnum tveimur þingum. Þessu hefur skotið upp nú.

Það skal alveg játað hér af mér, og ég hygg að svo sé um fleiri, að það þarf mismunandi langan tíma til þess að kynnast innviðum einstaklingsins í sinni réttu mynd. Og ég skal játa það jafnframt, að haustið 1974 hafði ég ekki til að bera þá framsýni eða þá þekkingu á þeim einstaklingum, sem hér um ræðir, sem nægði til þess að vara við að byggja á samkomulagi af því tagi sem gert var. Það var ekki heldur í huga að það bæri að skoða málin frekar, skoða innrætið, skoða innréttinguna, til þess að ganga úr skugga um hvernig hún væri, til þess samkomulags sem gert hafði verið. Ég játa þetta alveg hér og nú, að til þessa skorti mig framsýni. En hér á við eins og oft áður hið gullvæga máltæki, að lengi skal manninn reyna.

Ég taldi nauðsynlegt að fá tækifæri til þess að rifja þetta upp hér fyrir þingheimi, hvernig þessi mál gerðust að afloknum kosningunum 1974 og hver þróun mála hefur orðið síðan, — og ekki bara til þess að þingheimur geri sér þetta ljóst, hvert hugarfar og hvert innræti býr meðal sumra hverra forustumanna í íslenskum stjórnmálum, heldur og ekki siður til þess að almenningur í landinu geti fengið rétta og sanna mynd af því hvernig viðkomandi forustumenn í íslenskum stjórnmálum eru innréttaðir sumir hverjir. Ég vil því fyrst og fremst vegna þess rökstuðnings, sem hæstv, forsrh. hafði fyrir frv. á sínum tíma, þegar það var borið fram um fjölgun í fjvn. úr 9 í 10 sem samkomulag varð um, gera þá fsp. til hæstv. forsrh., hvort enn sé ekki í fullu gildi sú meginröksemd sem lá að baki frv. um fjölgunina í fjvn., hvort enn sé ekki í fullu gildi sú meginforsenda og meginröksemd, að það sé ástæða til þess og talið eðlilegt, ekki síst vegna meðferðar málsins í þinginu, að allir þingflokkar eigi fulltrúa í fjvn., — hvort þessi forsenda hefur breyst eða hvort hæstv. forsrh. vill þá lýsa því hér yfir að meginforsendan og rökin fyrir breytingunni hafi verið þau að tryggja Alþb. tvo menn í fjvn.

Ég þykist vita fyrir fram að svar hæstv. forsrh. verði jákvætt við fyrri fsp., þ.e.a.s. að enn sé í fullu gildi sú röksemdafærsla sem var uppi höfð haustið 1974, — meginforsendan sé fyrir hendi eins og hún var þá og sé óbreytt nú. En þá er ástæða til þess að spyrja, ef þessi forsenda er óbreytt og ef það gerist, sem ég hef að vísu ekki fullkomna staðfestingu á, að hér eigi að standa að kosningu til fjvn. með þeim hætti að halda óbreyttri tölu og að stjórnarflokkarnir fái á sameiginlegum lista 7 menn og svo Alþb. 2 og hinir stjórnarandstöðuflokkarnir tveir fái einn mann, — ef það á að gerast hér, þá vil ég enn fremur spyrja hæstv. forsrh, hvernig á því standi, ef forsendur hafa ekkert breyst, að stjórnarliðið ætlar sér nú að viðurkenna og samþykkja, leggja blessun sína yfir að sá aðilinn, sem rýfur samkomulag sem gert hefur verið, eigi að græða á því. Hver er ástæðan fyrir því? Ég er að gera mér í hugarlund að hún sé sú, að hlutföll hér á Alþ. eru þannig, það er fræðilegur möguleiki, — og nú vil ég biðja menn að taka eftir, — það er fræðilegur möguleiki að 7. maður á sameiginlegum lista stjórnarflokkanna, sem er framsóknarmaður, eigi undir högg að sækja í hlutkestavali á móti tveimur öðrum á öðrum listum og það sé því ekkert um að ræða að framsóknarmenn hafi á neinn hátt ætlað að taka þá áhættu að leita undir slíkt högg, þeir vilja hafa allt sitt á hreinu fyrir fram, vilji heldur að sá, sem rýfur samkomulag, hagnist, heldur en þeir geti átt á bættu að missa einhver ítök annars staðar. kannske eru þetta illar getgátur, en það verður þá að hafa það. Ég hygg að í þessu liggi svona. Mér er a.m.k. um það kunnugt, að þó nokkuð margir, — þó nokkuð margir, segi ég, af þm. Sjálfstfl. hafa verið og eru jafnvel enn þeirrar skoðunar, að vegna þess sem gerst hefur, vegna þess að Alþb. hefur rofið samkomulag, þá eigi að færa tölu fjvn: manna aftur niður í 9, eins og hún var áður en samkomulagið var gert 1974. Og það er auðvitað eðlileg röksemd. Ég fyrir mitt leyti vil lýsa því yfir hér, að vegna þessarar breyttu afstöðu Alþb. tel ég eðlilegt og sjálfsagt að breyta lögunum um tölu fjvn.-manna aftur í fyrra horf. Ég tel það sjálfsagt. Það væri rökrétt afleiðing af þeim gerðum, sem nú hafa verið, — hafa verið, segi ég, ég segi kannske of mikið, en að öllum líkindum verða gerðar.

Ég þarf í sjálfu sér ekki að fara um þetta fleiri orðum. Ég vænti þess að fá svar hjá hæstv. forsrh. við þessum fsp. Ég veit ekki hvort ég á að gerast svo djarfur að spyrja um það hér úr ræðustól, hvort það sé nú í raun og veru svo, eða hvort ég fæ svar við því, að áður en kosning fer fram í fjvn., þá eigi að standa svona að málum, hvort hæstv. ríkisstj. og meiri hl. hér á Alþ. ætli ekki að beita sér fyrir því, a.m.k. að leiðrétting verði gerð til fyrra horfs. Ég vildi mjög gjarnan fá að vita það áður en til kosninga er gengið, því að ég tel að við í þingflokki Samtakanna þurfum að taka mið af því hvað hér er um að vera. En eins og ég sagði áðan, ég hef ekki fengið neinar formlegar upplýsingar frá réttum aðilum um hvað er hér að ræða og hvað á að gerast.

Ég skal, herra forseti, að sinni a.m.k. ljúka hér máli mínu. Ég heyri það að sumir aðrir hv. þm. hafa beðið hér um orðið, og ég vænti þess þá að fá, ef ástæða þykir til, að gera frekari grein fyrir okkar viðhorfum til þessa. Ég vil þó að lokum segja það, að á undanförnum mánuðum, kannske fyrst og fremst, hafa verið uppi um það háværar raddir meðal almennings að Alþ. hafi sett niður, að hugarfar fyrst og fremst forustumanna í íslenskum stjórnmálum sé meira og minna rotið. Ég hefði miklu frekar kosið að geta sagt það áfram með hreinni samvisku, að ég hefði ekki neinum þeim forustumanni í íslenskum stjórnmálum í minni setu hér á Alþ. sem ég teldi ekki að væri þannig — svo að ég noti orðið aftur — innréttaður að hægt væri að eiga við hann eðlileg og mannleg samskipti, þ.e.a.s. að ekki mætti treysta því sem um væri talað. Ef málum fer svo fram sem mér virðist hér horfa, þá virðist mér að enn komi eitt dæmið í safn þeirra sem haldið hafa fram þeim málflutningi, að Alþ. væri að setja niður og hugarfar sumra hverja íslenskra stjórnmálamanna væri rotið. Þá bætist hér enn eitt dæmið í safn þeirra til þess að fylla þann málflutning sem af þeirra hálfu hefur verið haldið uppi. Ég hefði siður viljað að slíkt ætti sér stað fyrir opnum tjöldum á Alþ. Það er að vísu erfitt að gera grein fyrir því sem gerist bak við tjöldin, en það má þó segja að kosturinn við það að menn komi hreint til dyra og geri málin upp fyrir opnum tjöldum, hann er þó þess eðlis að menn vita hvar þeir hafa viðkomandi aðila. Það er alltaf — a.m.k. hefur mér reynst það, — miklu betra að heyja baráttu, heiðarlega baráttu, við andstæðing sem maður veit hvar er og hvernig er.