10.12.1976
Efri deild: 20. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

119. mál, tollskrá o.fl.

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur lagt hér fram stórmál og gefið lítinn tíma, eins og oft vill verða, til athugunar. Hann gat um það í lok ræðu sinnar að umsamdar breytingar, sem þurfa að eiga sér stað samkv. samningum við Efnahagsbandalagið og EFTA, muni taka gildi um áramótin hvort sem þetta frv. verður samþ. eða ekki, aftur á móti gæti það komið sér mjög illa fyrir íslenskan iðnað ef það frv. til l., sem hér liggur frammi um breytingu á tollskránni, nær ekki fram að ganga fyrir áramót. Ég vona að það verði engin fyrirstaða á að svo megi verða, en ég legg á það áherslu, eins og hv. síðasti ræðumaður, að það eru slæm vinnubrögð að gefa þm. ekki meiri tíma til athugunar á slíku stórmáli sem hér er til umfjöllunar.

Hæstv. ráðh. gat um það, að upphaflega hafi verið farið mjög varlega í álagningu tolla, og ég harma það að sú tíð er um garð gengin. Eins og tollafrv. þetta ber með sér, þótt það sé til bóta, þá er auðséð að löngu er liðin sú tíð sem varlega er farið í tollanir á innfluttum vörum almennt. Ég hefði viljað sjá í þessu frv., sem nú liggur fyrir, breytingar eins og t.d. samræmingu á tannlækningatækjum við sælgætisgerðarvélar sem þegar eru tollfrjálsar. Ég hefði viljað sjá tollalækkun á efni til tannlækninga og mörgum öðrum lækningavörum. Ég hef flutt á sérstöku þskj., nr. 83, frv. til l. um breyt. á l. um tollskrá, en þar er um að ræða samtollun.

Ég vil á þessu stigi að það komi hér fram, að ég áskil mér rétt til þess að bera fram brtt. við þetta embættismannafrv. Að sjálfsögðu fagna ég öllum breytingum sem eru íslenskum iðnaði til hagsbóta, en tel að fella eigi niður samtímis tolla af vélabúnaði til fiskiðnaðar sem hlýtur að teljast til samkeppnisiðnaðar. Ég áskil mér fyrrgreindan rétt og óska eftir að fá þann tíma sem ég þarf til að hafa samband við þá aðila sem ég tel nauðsynlegt að hafa samband við til að athuga þetta frv. gaumgæfilega. Ég mun reyna að tefja það ekki, en vona að ég verði ekki þvingaður með bolabrögðum til að vinna hraðar en ég treysti mér til við að gera þessu máli sæmileg skil. Þeir aðilar, sem ég mun hafa samráð við mér til upplýsinga, eru að sjálfsögðu aðilar iðnaðarins, sjávarútvegsins og Verslunarráð Íslands.