19.10.1976
Sameinað þing: 5. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

Kosning í fastanefndir skv. 15. gr. þingskapalaga

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Hér fara nú fram býsna einkennilegar umr. undir þeim dagskrárlið sem fjallar um kosningu í n., því hér er beinlínis efnt til mjög almennra umr. um býsna viðamikið mál. Ef það er talið hagstætt og leyfilegt af hæstv. forseta, þá skal ekki standa á mér eða öðrum að taka hér þátt í umr. um þetta mál. En ég vek athygli á því, að hér er sem sagt um mjög óvenjulegt atriði að ræða, að efna til almennra umr. undir dagskrárlið þar sem eru boðaðar kosningar.

Ég vil þá fyrst segja það, að það er algjörlega rangt, sem hér hefur verið sagt, að við Alþb. menn höfum rofið eitthvert samkomulag sem við höfum gert. Hv. 5. þm. Vestf. skýrði í upphafi síns máls réttilega frá því hvað hefði gerst hér í sambandi við kosningu til n. á Alþ. að loknum síðustu alþingiskosningum. Þá stóðu mál þannig, eins og lengi hafði verið áður, að í fjvn. átti að kjósa 9 fulltrúa. Það lá alveg augljóslega fyrir, að eftir réttum leikreglum færi það svo, að stjórnarflokkarnir fengju þar 7 menn kjörna, Alþb. einn mann kjörinn og þá hinir flokkarnir tveir, ef þeir gætu verið saman, einnig einn mann. Þá gerist það, einmitt hv. 5. þm. Vestf., Karvel Pálmason, leitar eftir samkomu.lagi við okkur í Alþb. um að hann verði fremur kosinn í fjvn. en fulltrúi frá Alþfl. Hann leitaði eftir því að komast á sameiginlegan lista hjá okkur til þess að tryggja sér setu í fjvn. Þingflokkur Alþb. skoðaði málið og féllst á að tryggja hv. 5. þm. Vestf. þetta sæti með því að þeir kysu sameiginlega með Alþb. í n. Af þessu auðvitað hlaut að verða það, sem hv. 5. þm. Vestf. og allir vissu, að Alþfl. gat ekki fengið mann kjörinn í n., enda stóð ekki á því að Alþfl. sprytti upp með tilheyrandi hávaða og látum og segði við okkur í Alþb. að við værum sérstaklega ósvífnir að taka samtakamanninn fram yfir þá. En vitanlega var það okkar vald, sem höfðum hér umframatkv., að velja um það hvort við vildum styðja hér til kjörs í n. fulltrúa frá Samtökunum eða fulltrúa frá Alþfl., og við völdum. Og hv. 5. þm. Vestf., Karvel Pálmason, stóð að þessu, Hann var þá ekki kominn hálfur inn í Alþfl. eins og nú.

En þegar þetta hafði gerst og þetta lá fyrir, þá gerðist það sem oft hefur gerst og hefur verið að gerast nú síðustu daga, Alþfl, rumskaði heldur betur og knúði dyra hjá stjórnarflokkunum og spurði þá hvort það væri virkilega svo að það væri meiningin, að Alþfl. yrði látinn liggja utan fjvn. Og þá kom það auðvitað upp eins og oft áður, að það voru ýmsir leyniþræðir enn þá á milli þessara aðila, og stjórnarflokkarnir fundu til með Alþfl. og sögðust gjarnan vilja flytja hér frv. um breyt. á gildandi lögum og fjölga í fjvn. um einn mann eða fleiri ef á þyrfti að halda. Sú lagabreyt., sem gerð var á þessum tíma, var því ekki heldur gerð vegna Samtakanna sem voru búin að tryggja sér sæti í n. Hún var gerð til þess að reyna að tryggja Alþfl. setu í fjvn. Þegar till. síðan kom fram á Alþ. um að sá háttur skyldi hafður á um fjvn., sem ekki þekkist um neina aðra n. í þinginu, að hún skyldi skipuð 9–11 fulltrúum eftir ákvörðun Alþ. hverju sinni, m.ö.o. að gera það að geðþóttaatriði hér á Alþ. hvort menn teldu rétt að loka þennan úti eða hleypa hinum inn, bara eftir því sem á stæði hverju sinni, þá kom það fram sem afstaða okkar Alþb-manna, að við teldum að að sjálfsögðu ætti að ákveða fasta tölu fulltrúa í fjvn. eins og öðrum n., hvort sem sú tala yrði 9 menn, 10 menn eða 11 menn. Okkar afstaða var sú, að hér ætti að ákveða fasta tölu. Ýmsir aðilar féllust á þetta, og það varð ofan á að ákveðið var að í n, skyldu framvegis vera 10 fulltrúar.

Okkur var ljóst á þessum tíma að með því samkomulagi, sem við höfum þá gert við Samtökin um að hafa fulltrúa frá því í öðru sæti á okkar lista, vorum við að tryggja Samtökunum mann í fjvn. á okkar kostnað, því þegar ákveðið hafði verið að hafa 10 menn í fjvn., þá áttum við samkv. réttum lýðræðisreglum að fá tvo menn kjörna. Hv, 5. þm. Vestf., Karvel Pálmason, hefur setið í fjvn. á atkvæðastyrk okkar í Alþb., á kostnað okkar. Við áttum að hafa tvo menn, sættum okkur við að hafa aðeins einn, en að hv. þm. yrði kosinn í n. Það er svo auðvitað tilsvarandi þakklæti af hans hálfu, þegar við erum búnir að tryggja honum sæti í n, í tvö ár, að skora nú á stjórnarflokkana: Ætlið þið virkilega að láta Alþb. fá tvo menn? Viljið þið ekki gera þá ráðstöfun að færa allt til baka aftur svo að Alþb. fái ekki nema einn mann, svo að stjórnarandstaðan sé þá ekki með nema tvo menn, í staðinn fyrir að stjórnarandstaðan á þrjá menn? Það er hans krafa að það verði tekinn einn fulltrúi frá stjórnarandstöðunni.

Ég ítreka það, að við í Alþb. höfum ekki rofið neitt samkomulag. Það hafði aldrei komið til tals að við gerðum samkomulag um að kjósa Karvel Pálmason í fjvn. það sem eftir væri kjörtímabilsins eða til eilífðar. Það var aðeins talað um að kjósa hann eins og lög standa til í fjvn., og við vorum auðvitað frjálsir að því að breyta um þá afstöðu hvenær sem væri. Ég spyr: Ætli mönnum hefði ekki þótt það einkennilegt, hefði jafnvel nú tekist að vera kominn formlega inn í Alþfl., að við hefðum farið að fórna einum manni, sem við áttum rétt til í Alþb., til þess að tryggja að Alþfl. hefði tvo menn í fjvn?

Ég vil líka benda á það, að hlutur okkar í fjvn. er aðeins eðlilegur. Ég bendi á það, að þingflokk Framsfl. skipa 17 menn, Framsóknarmenn hafa 17 fulltrúa á þingi, Hvað hafa þeir marga menn í fjvn., þessir 17? Þrjá. Sjálfstfl. hefur 25 menn á þingi. Hann hefur 4 menn í fjvn. En við höfum 11 menn á þingi, meira en helming á við Framsókn, en við höfum aðeins einn mann í fjvn. Við höfum auðvitað tæpan helming á við Sjálfstfl., en hann hefur 4 menn í fjvn., en við bara einn. Auðvitað eigum við að réttum lýðræðisreglum að hafa tvo menn í fjvn. En það er vitanlega á okkar valdi hvort við ákveðum að taka þá úr okkar þingfl. eða kjósa einhvern úr öðrum.

Ég mótmæli því harðlega að við höfum nokkurt það samkomulag gert við Samtökin eða aðra sem hægt sé að kalla að við höfum rofið samkomulag, eins og hv. 5, þm. Vestf. margendurtók hér, en er staðlausir stafir. Við höfum ekki rofið neitt samkomulag. Við bundum okkur ekki til frambúðar um að kjósa hann í neina n. Hitt gefur svo auga leið, að það, sem auðvitað hefur haft áhrif á þessa breyttu afstöðu okkar, er að þegar svo er komið, að það er orðið erfitt að segja til um hvort Samtökin eru í rauninni lengur til sem sérstakur flokkur, og þegar hv. þm. Karvel Pálmason er þegar búinn að leggja inn beiðni til Alþfl. um að ganga í þann flokk með einum eða öðrum hætti, þá er ofureðlilegt að við tökum til endurskoðunar afstöðu okkar til þess að tryggja honum sérstaklega sæti í nefnd.

Ég verð að segja það, að ég skil það mætavel að Karvel Pálmasyni, hv. 5, þm. Vestf., þyki það súrt í brotið að eiga ekki rétt á sæti í fjvn. Það er mál út af fyrir sig. Við höfum mátt standa frammi fyrir því í mínum flokki að þurfa að sæta miklu erfiðari kjörum en það að fá ekki mann kosinn í þýðingarmiklar nefndir. Ég minnist þess m.a. að afloknum kosningum ekki fyrir alllöngu að sjá þá í einu af dagblöðum landsins með risafyrirsögn, þegar við fengum aðeins 9 þm. kjörna alls í landinu, að það merkilegasta af öllu merkilegu í sambandi við kosningaúrslitin væri það, að nú gæti Alþb. ekki komið mönnum í vissar n. á Alþ. Já, það átti sannarlega að fylgja því eftir og var gert yfirleitt það sem hægt var, því að það hefur ekki verið gengið undir okkur með að reyna að koma okkur í n. sem við höfum ekki átt styrk til að hafa menn í.

Ég skal ekki lengja þessar umr. um skör fram, sem ég tek fram að mér þykja mjög afbrigðilegar undir kosningalið á dagskrá, Það var vitanlega hægt að taka þær hér upp í öðru formi. En afstaða okkar er samkv, réttum leikreglum. Við vitum það og höfum vitað það allan tímann, að við áttum rétt á tveim mönnum í fjvn., eftir að hafði verið fjölgað í n. Við erum frjálsir að því að velja þessa menn, og aðstæður hafa breyst þannig að það var full ástæða til þess að við endurskoðuðum afstöðu okkar til vals á mönnum í n. Ég sem sagt vísa því algjörlega á bug, sem hér hefur komið fram um að það hafi verið fjölgað í fjvn. með einhverju sérstöku samkomulagi við okkur. Það var ákveðið af öðrum — til þess bjarga öðrum flokki en okkar — að fjölga í n. Það var ekki gert fyrir okkur. Það var eflaust gert að einhverju leyti vegna þess, að við höfðum valið á milli fulltrúa Samtakanna og Alþfl. og valið að kjósa þann fulltrúa í n., með svo því þakklæti sem við fáum fyrir lánið þennan tíma.