10.12.1976
Neðri deild: 20. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Hæstv. forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs hér utan dagskrár þó að mér sé ljóst að það sé orðið þröngt um starfstíma hér á Alþ. og því er það ekki meining mín að efna til langra eða mikilla umr. utan dagskrár. En ástæðurnar til þess, að ég hef gert þetta, eru að í gærkvöld komu fréttir í útvarpinu varðandi landhelgismálið sem voru á þá lund að ég tel alveg óhjákvæmilegt að kalla eftir ákveðnum skýringum hér á hv. Alþ. frá ríkisstj. í sambandi við þá frétt.

Frá því var skýrt í fréttaskeyti frá fréttastofu Reuters að sá samningamaður Efnahagsbandalagsins, sem hér hefur verið tvisvar til þess að ræða við ríkisstj. um fiskveiðimál. Gundelach, hafi skýrt frá því á blaðamannafundi að hann teldi miklar líkur til þess að samningar verði gerðir fyrir áramót, — samningar sem hann nefndi bráðabirgðasamninga um veiðiheimildir breta í íslenskri fiskveiðilandhelgi. Sagt er að hann hafi sagt að hann gerði sér vonir um að leyfið yrði miðað við a.m.k. 12 skip sem fengju leyfi til þess að veiða stöðugt á miðunum. Einnig var skýrt frá því, að hann hefði tilgreint að hann teldi að Efnahagsbandalagið gæti boðið íslendingum 30 þús. tonna fiskafla af fiskimiðum bandalagsþjóðanna.

Mér sýnist að frétt þessi sé í slíku ósamræmi við það, sem fram hefur komið í frásögn íslenskra ráðh. um viðtal við þennan samningamann, að það kalli á skýringu.

Í fyrsta lagi liggur það fyrir að þeir ráðh. okkar, sem áttu viðtöl við þennan sendimann Efnahagsbandalagsins, hafa skýrt frá því að þeir hafi algjörlega neitað að fallast á allt sem héti bráðabirgðasamkomulag varðandi veiðar breta hér við land. Eigi að síður segir þessi sendimaður nú við opinbera fréttastofu að hann telji miklar líkur á því að það takist að ná bráðabirgðasamkomulagi um veiðar breta hér við land. Sé gengið út frá því, sem ég vil ganga út frá, að ráðh. skýri hér rétt frá og dragi ekkert undan varðandi þennan lið, þá er augljóst mál að sendimaður Efnahagsbandalagsins er að fara hér með staðlausa stafi sem ber að mótmæla ef hann er þegar búinn að fá skýr svör við því að bráðabirgðasamningur um veiðiheimildir breta komi ekki til greina.

Þá hafa íslenskir ráðh. einnig skýrt frá því hér á Alþ. m.a. að í þeim könnunarviðræðum, sem fram hafa farið, hafi ekkert verið rætt um skinafjölda eða aflamagn. Sem sagt því hefur algjörlega verið neitað að umr. hafi komist á það stig. En eigi að síður leyfir þessi erlendi samningamaður sér að tala opinberlega um það að hann hafi sterkar líkur fyrir því að samningar muni takast um veiðiheimildir fyrir a.m.k. 12 skip sem fái þá að veiða stöðugt á miðunum, borið saman við 24 skip áður. Ef þessi erlendi sendimaður segir þetta gjörsamlega út í bláinn og án þess að hafa nokkuð fyrir sínu máli, þá ber vitanlega einnig að bera þetta til baka, mótmæla þessu harðlega og segja að hann hafi enga ástæðu til þess að halda slíku fram sem þessu.

Það verður líka að teljast alveg furðulegt að ráðh. okkar skýra frá því að í þessum könnunarviðræðum hafi ekkert boð komið fram af hálfu Efnahagsbandalagsins, ekkert efnislegt boð um veiðiheimildir eða magn sem okkur stæði til boða á fiskimiðum bandalagsþjóðanna, en þá birtir hann hins vegar tilkynningu um það erlendis að bandalagið vilji bjóða okkur 30 þús. tonna fiskafla af sínum miðum.

Hér skakkar svo miklu á því sem okkur hefur verið sagt hvað hafi farið á milli íslenskra ráðamanna og þessa erlenda sendimanns að það kallar á skýringu, eins og ég hef sagt, og ég óska eftir því að hæstv. forsrh. geri hér grein fyrir því hvernig getur í þessu legið. Einnig óska ég eftir því að hann fallist á að gera ráðstafanir til að mótmæla því sem fram hefur komið hjá Gundelaceh erlendis varðandi þessi mál, — hann geri ráðstafanir til að bera þetta til baka sé þetta rangt, neita þessu formlega sem staðlausum stöfum. Hitt verð ég að segja, að mér sýnist að það sé með fádæmum ef erlendur sendimaður, sem kemur hingað til að ræða við íslensk stjórnvöld um mál eins og það sem hér er um að ræða, fer af fundi þeirra hér og lætur opinberlega hafa eftir sér það sem greint er frá í fréttastofufregnum um þetta efni án þess að hann hafi nokkra minnstu ástæðu til þess. Það ætti þá a.m.k. af okkar hálfu ekki að vera mikill vandi að afgreiða þann mann þegar hann kemur enn einu sinni til fundar við okkur. En ef hann hefur haft einhverja ástæðu til þess að tala um málið á þann hátt, sem hann hefur gert, vegna viðtala sinna hér, formlegra eða óformlegra, þá á það líka að koma hér fram.

Það, sem ég tel að skipti hér öllu máli, er að ríkisstj. fáist til að tala skýrt um þetta mál, hún þurfi ekki að nota neitt rósamál sem megi síðan þýða á marga vegu. Það teldi ég að hún gæti m.a. gert af þessu tilefni með því að gera aths. erlendis við það sem haft er eftir þessum erlenda samningamanni, þannig að það verði þá ekki misskilið sem frá íslensku ríkisstj. kemur í þessum efnum. En auk þessa, sem ég hef nefnt, þá sýnir það, sem þarna hefur verið að gerast, að það er rétt, sem ég og fleiri hafa þér sagt af hálfu stjórnarandstöðunnar, að það er knýjandi nauðsyn að hæstv. ríkisstj. birti stefnu sína í þessu máli, að hún láti koma fram hver stefna hennar er. Annars má búast við því að fregnir af þessu tagi haldi áfram og þá vitanlega tilheyrandi óróleiki hér um allt land, því það má ríkisstj. vita, að þeir verða æðimargir hér í okkar landi sem ekki vilja fallast á að gera nýjan veiðiheimildasamning við breta eða við Efnahagsbandalagið.

Ég lofaði því að eyða hér ekki löngu máli og skal standa við það. Ég óska eftir því að hæstv. forsrh. geri hér grein fyrir því af hálfu ríkisstj. hvernig stendur á þeim mikla mismun sem kemur fram í frásögn hins erlenda sendimanns og því, sem þjóðinni og okkur hér á Alþ. hefur verið sagt af okkar trúnaðarmönnum um þessar viðræður, og að hann lýsi því yfir, að hann sé fús til að bera þetta til baka, það sem rangt er þarna sagt. Ég vænti þess líka, að hann vilji nú að athuguðu máli fallast á kröfu okkar um það að gera stefnu ríkisstj. skýra og opinbera, svo það þurfi ekki að koma til slíkra missagna aftur.