10.12.1976
Neðri deild: 20. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Austurl. og hv. 9. þm. Reykv. hafa óskað eftir því að ég gæfi hér skýringu og gerði grein fyrir ummælum Finns Olavs Gundelachs. Ég verð strax að segja eins og er, að mér er það algjörlega um megn vegna þess að ég eða ríkisstj. ber ekki ábyrgð á þeim ummælum. Þau eru algjörlega á hans ábyrgð og það verður að krefja hann sjálfan skýringa á þeim. Aðrar skýringar af hálfu íslensku ríkisstj. er ekki um að ræða en þær sem ráðh. hafa gefið hér í umr. sem nýlega hafa farið fram um viðræðurnar við fulltrúa Efnahagsbandalagsins og framhald þeirra. Það er í raun og veru til of mikils ætlast að ég geti gefið skýringu á þessum ummælum, og ég held, að hv. þm. hljóti að skilja það.

Ég hef haft símasamband við hæstv. utanrrh. og hann gerir ráð fyrir því að hitta Finn Olav Gundelach í kvöldverðarboði, að vísu ásamt fleira fólki, og hann mun áreiðanlega í fyrsta lagi ganga úr skugga um hvort þessi ummæli séu rétt eftir höfð og í öðru lagi mótmæla þeim ef svo er.

Ég vil taka það fram að við höfum orðið fyrir því fyrr að ummæli slík sem þessi, bæði erlendra manna og innlendra, eru afbökuð af fjölmiðlum og fréttamönnum, svo að út af fyrir sig megum við ekki taka þau of alvarlega. Það skiptir ekki höfuðmáli hvað þessi maður segir erlendis. Það, sem skiptir höfuðmáli, er hvaða niðurstaða verður af þeim viðræðum sem gerð var grein fyrir með fréttatilkynningu eftir síðustu könnunarviðræðurnar hér í Reykjavík að mundu fara fram fyrir jól.

Það, sem fram kemur í þessum fréttum af ummæli Finns Gundelachs, er alger nýlunda fyrir mér og þess vegna er ekkert meira um þau að segja af minni hálfu en ég hef sagt áður í umr. um þessi mál.

En það er rétt að það komi hér fram, að í samræmi við niðurstöðu á könnunarfundum í Reykjavík var samþ. að viðræður yrðu fyrir jól, og það er búist við því að léð verði máls á að þær viðræður fari fram í Brüssel 16.—17. des. undir forustu sendiherra okkar þar, Tómasar Tómassonar, en að öðru leyti hefur ekkert verið ákveðið um það hverjir taki þátt í þeim viðræðum af okkar hálfu.

Ég sé svo ekki ástæðu til að dvelja frekar við þessi ummæli Gundelachs, en vil þó aðeins vitna í frétt Morgunblaðsins um þetta mál, hvað sjútvrh. og utanrrh. segja um þessi ummæli, með leyfi forseta: „Í fyrsta lagi hefur engin ákvörðun verið tekin um viðræður enn sem komið er,“ — og það er alveg rétt, vegna þess að það er fyrst nú í dag sem í samtali við utanrrh. var léð máls á þessum dagsetningum og þeirri tilhögun viðræðnanna sem ég gat um, — „og í öðru lagi,“ segir sjútvrh. „tel ég að fulltrúar Efnahagsbandalagsins geti á engan hátt sagt hvers konar samkomulagi þeir geti komist að um gagnkvæmar fiskveiðiheimildir Efnahagsbandalagsins og íslendinga eða með hvaða hætti.“ Einar Ágústsson utanrrh. sagði skv. frásögn blaðsins, efnislega samhljóða því sem hann hefur sagt hér á hv. Alþ., þegar Morgunblaðið bar undir hann þau ummæli Finn Olav Gundelachs að handalagið mundi ekki geta farið yfir 30 þús. tonna aflakvóta til handa íslendingum í skiptum fyrir veiðiheimildir aðildarríkja bandalagsins innan 200 mílnanna við Ísland, — eftir hæstv. utanrrh. er haft: „Í þeim könnunarviðræðum, sem fram hafa farið, hafa engin bein tilboð komið fram um hugsanlegt aflamagn okkar á miðum Efnahagsbandalagsins. Þar var allt mjög óljóst og því get ég ekki skilið hvernig þessi tala um 30 þús. tonn er til komin.“

Það hefur verið sagt áður í sambandi við þessar viðræður, að við íslendingar gætum ekki tekið afstöðu til málsins fyrr en við vissum hvað Efnahagsbandalagið hefði að bjóða. Efnahagsbandalagið hefur ekkert boð lagt fram og hafi það nú tilboð tilbúið um 30 þús. tonn, þá vitum við ekki um hvaða fisktegundir er hér að ræða eða á hvaða svæðum veiðiheimildir mundu verða veittar. Það er ekki fyrr en við sjáum slíkt tilboð að við getum metið það og vegið og gert upp huga okkar um það, hvort það er þess virði að því sé sinnt eða ekki.

Þegar auglýst er eftir stefnu íslenskra stjórnvalda, þá er þetta stefna íslensku ríkisstj., að fá fram tilboð Efnahagsbandalagsins eða réttara sagt að gefa Efnahagsbandalaginu kost á að leggja fram tilboð og að því fram komnu að vega það og meta og taka síðan ákvörðun um hvort úr samningum verður eða ekki. Þetta liggur alveg ljóst fyrir og hefur verið sagt hér ítrekað. Það, sem okkur greinir á, ríkisstj. annars vegar og stjórnarandstöðuna hins vegar í þessu máli, að því er mér skilst, er það, að stjórnarandstaðan vill ekki gefa Efnahagsbandalaginu kost á að leggja fram tilboð sitt. Ríkisstj. vill gefa Efnahagsbandalaginu kost á að leggja fram tilboð sitt. Í því er ekki fólgin nein skuldbinding til Efnahagsbandalagsins um það að við það verði samið eða með hvaða hætti samið verður. Ég held að þetta sé alveg skýrt um afstöðu ríkisstj. að þessu leyti.

Hv. 9. þm. Reykv. ræddi nokkuð þingstörfin og talaði í fyrsta lagi um að afgreiðsla fjárlagafrv. væri seinna á ferðinni en áður. Ég er ekki svo kunnugur þingstörfum að ég hafi dagsetningar tiltækar, en mér er nær að halda að þetta sé með ósköp svipuðum hætti nú og oft hefur verið. Því miður er afgreiðsla fjárlagafrv. of seint á ferðinni. Ég get verið alveg sammála hv. þm. um það, og það virðist vera svo, að þótt góður ásetningur sé um að breyta til og hafa fyrra fallið á afgreiðslu mála, þá æxlast hlutirnir gjarnan þannig að síðustu dagar þings fyrir jól eru allt of miklir annríkisdagar. Ég held að þetta hafi verið reynslan, hvaða ríkisstj. sem hefur farið með völd. Auðvitað eru lausnir ýmissa vandamála tímafrekari en ella þegar um erfiða stöðu er að ræða, eins og verið hefur í efnahagsmálum landsmanna og fjármálum ríkisins. Þrátt fyrir það að staða okkar sé verri en oftast áður, þótt nokkrar batahorfur séu nú sem betur fer, þá er fjárlagafrv. ekki seinna á ferðinni en verið hefur oftast nær. Ég býst við því að fjvn. gangi frá till. sínum fyrir 2. umr. fjárlaga núna fyrir eða um helgina og því ætti 2. umr. að geta farið fram fljótlega eftir helgina, eftir því sem ég veit best.

Í öðru lagi ræddi hv. þm. um að frv. um nýja tollskrá hefði verið lagt fram á Alþ. í gær og væri til 1. umr. í fyrri d. nú í dag, og það er alveg rétt. Hér er líka um mál að ræða sem er of seint á ferðinni. Ég tel sjálfsagt að samráð verði haft við formenn þingflokkanna um hvernig afgreiðslu slíks máls yrði háttað og hvað þm. treysti sér til að hraða afgreiðslu þessa máls. Auðvitað væri æskilegast að fá afgreiðslu þess tryggða fyrir hátíðar. Ef það er ekki hægt, þá verðum við að finna einhvern samkomulagsgrundvöll um annað.

Í þriðja lagi gerði hv. þm. að umræðuefni meðferð skattamála. Skattalagafrv. hefur lengi verið í undirbúningi. Það er von mín að það verði sýnt nú fyrir hátíðar. Ég skal þó ekki endanlega fullyrða það og vil gjarnan hafa samráð við formenn þingflokka ásamt með hæstv. fjmrh., hvort réttara væri að hafa sérstakt samráð við fulltrúa flokkanna um skattamál áður. En ég held þó að það saki ekkert út af fyrir sig að sýna frv. og gefa sér síðan góðan tíma í þinghléi og þegar þing kemur saman aftur til að fjalla um það.