10.12.1976
Neðri deild: 20. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Yfirlýsingar þær, sem Gundelach hefur gefið í Brüssel og þrír íslenskir ráðh. hafa gefið leiða fram svo algjörar mótsagnir að það er ekki að undra þótt fólk sé hissa. Mönnum finnst ótrúlegt að ráðh. okkar segi okkur visvítandi ósatt og það berum við ekki á þá, en mönnum finnst líka ótrúlegt að jafnreyndur maður í svo mikilli ábyrgðarstöðu sem Gundelach skuli tala svo ógætilega ef rétt er eftir honum haft og hann telur að þetta sé hans mat á því sem muni koma. Að vísu sækja bretar mjög að honum og gagnrýna hann, en engu að siður er þetta þrautreyndur maður sem ætti að standast slíkt.

Hæstv. forsrh. benti á þann möguleika að rangt væri farið með ummæli Gundelachs. Fréttirnar eru að vísu þess eðlis, að mér þykir ótrúlegt að breskir blaðamenn, sem mikið hafa spurt og skrifað um fiskveiðimál, hafi ekki farið rétt með aðalatriði eins og skipafjölda og tonnatölu, eða eitthvað nálægt því, a.m.k. að þeir hafi ekki farið að búa til tölur ef engar hafa verið nefndar. En þó að frétt Reuters, svo við tökum hana eina, sé ekki algjörlega rétt, þá væri ástæða til þess fyrir íslensku ríkisstj. að kalla í fréttaritara Reuters hér og mótmæla fréttinni, því að það er ráðlegt að senda sannleikann af stað, jafnvel þó máltækið segi að honum gangi illa að elta lygina uppi. Ég tel því að ef blaðaþjónusta ríkisstj, er í lagi, þá hefðu íslensku ráðh. átt að mótmæla á þennan hátt og að þau mótmæli kæmu þá frá Reuter til þeirra sömu bresku blaða sem hafa birt þessar fréttir.

Ekki þykir mér augljóst, að skrif þessi öll. fréttir og yfirlýsingar, hvort sem sagt er satt frá þeim eða ekki, staðfesta það sem stjórnarandstaðan hefur haldið fram frá upphafi í þessu máli, að kjarni þess eru veiðiheimildir, en ekki friðunaraðgerðir. Málið snýst um veiðiheimildir fyrir breta eftir 1. jan. Má því segja að í túlkun þess hér heima hafi verið gerð nokkur tilraun til að gefa því aðra mynd en það sem mestu máli skiptir með því að tala svo mikið um friðunaraðgerðirnar sem gert hefur verið.

Hæstv. forsrh. hélt því fram að stjórnarandstaðan vildi ekki gefa Efnahagsbandalaginu kost á að leggja fram tilboð. Þetta er alls ekki rétt. Stjórnarandstaðan hefur ekki mótmælt því á nokkurn hátt. En hún hefur krafist þess aftur og aftur að ríkisstj. léti í l.jós ákveðna skoðun á tilteknum atriðum, þ.e. veiðiheimildum þegar í stað Nú veit ég ekki hvaða hugmyndir hæstv. ráðh. hafa um viðræður ríkja yfirleitt, en ég hygg að það muni algengara að annar hvor eða báðir aðilar gangi til viðræðna um deilumál eftir að hafa lýst yfir ákveðinni stefnu í ákveðnum um. Deilumál skapast af því að aðilarnir hafa ákveðna stefnu. Ég held að það sé langt frá því að vera raunhæf hugmynd um hvernig milliríkjaviðskipti eiga sér stað, að tveir englar eða fleiri setjist saman við borð og enginn hafi ákveðið neitt og allir syngi hallelúja, árangurinn fari eftir því hvað gerist við borðið. Það má taka hvaða samningaviðræður í heiminum sem er — það er nóg af þeim — og ég er sannfærður um að það muni koma í ljós að aðilar viti samningaborðið hafa fyrir fram ákveðna stefnu varðandi ákveðin meginatriði. Hitt er svo annað mál, að sáttasemjarar reyna að finna millileiðir. En það er engin dauðasynd þó að íslendingar hafi einhverja stefnu varðandi það hvort þeir geti í dag látið einhvern hluta af hugsanlegum afla hér til útlendinga áfram, umfram það sem þegar hefur verið samið um. Það er því alls ekki ráðleg samningaaðferð sem hæstv. forsrh. temur sér, vegna þess að það styrkir alla aðstöðu, ef þarf að setjast niður og tala við þessa menn, ef menn hafa lýst yfir að þeir hafi ákveðna fyrir fram gerða og mótaða stefnu. Ég skil ekki að hæstv. ráðh. skuli ímynda sér að íslenska þjóðin sé samþykk því að breskum togurum verði enn eftir 25 ára umþóttunartíma veittar frekari veiðiheimildir. Bindindismaður fer í veislu. Hann veit ekki hvað honum verður boðið. En hann veit hvað hann þiggur ekki. Það er þetta sem við erum að biðja hæstv. ríkisstj. um að taka sem fordæmi. Segið íslensku þjóðinni og segið andstæðingum okkar eða viðsemjendum, að veiðiheimildir fái þeir ekki, og talið þið svo við þá um fiskverndarmál eins lengi og þið viljið. Það liggur ekkert á í þeim efnum.