10.12.1976
Neðri deild: 20. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Forseti. Það voru nokkrar athugasemdir sem ég vildi gera í sambandi við það sem hæstv. forsrh. sagði.

Mér datt aldrei í hug að halda þannig á mínu máli, að ég ætlaðist til þess að hann bæri ábyrgð á hví sem sendimaður Efnahagsbandalagsins hefur sagt í þessum efnum. En það var hitt, sem ég fór fram á, að hann mótmælti því að það gæti verið rétt, sem haft er eftir þessum erlenda sendimanni, og að hann kæmi því á framfæri erlendis að hér væri rangt farið með staðreyndir. En mér fannst fara eins og fyrri daginn hjá hæstv. forsrh. varðandi þetta mál, að hann vildi skjóta sér undan að verða við þessu. Hann vildi helst ekkert segja um efnisatriði þess sem haft er eftir Finn Gundelach. En þegar þetta er haft eftir þessum sendimanni — ekki einu sinni, heldur æ ofan í æ og það af viðurkenndum og þekktum erlendum fréttastofum. þá er ekki hægt að láta einsog maður hafi ekkert heyrt.

Ég tel að okkar samningamenn, okkar ráðh. séu furðulega lítilvægir ef þeir sætta sig við þau vinnubrögð. að sá aðili, sem þeir eru að ræða við um mál eins og þetta, láti hafa eftir sér slíkt sem hér hefur verið rakið. Okkar samningamenn verða að gæta sæmdar sinnar. Þeir verða að reyna að halda virðingu því annars verður hreinlega troðið á þeim af yfirgangssömum samningamönnum. Það er ekkert um það að villast að þessi framkoma hins erlenda sendimanns er furðulega ósvífin, nema þá, eins og hér hefur komið fram, að eitthvað hafi verið dregið undan í skýrslum ráðh. okkar, sem rætt hafa þessi mál, og okkur hafi ekki verið skýrt frá nema hálfum sannleika.

Ég verð að segja það, að það er líka orðið verulega óþægilegt í máli eins og þessu hvað það kemur oft fyrir að við fáum fréttir af gangi mála erlendis frá og einnig hvað það fer oft á þá lund að fréttirnar erlendis frá reynast vera sannleikurinn sjálfur. Þó að það skipti ekki mjög miklu máli, þá vil ég benda á það, að hér var margendurtekið af ráðh. okkar, bæði í sjónvarpsþætti fyrir stuttu og í umr á Alþ., að það væri alveg rangt að það væri búið að ákveða nokkrar framhaldsviðræður og það úti í Brüssel, staðurinn væri ekki ákveðinn, tíminn væri ekki ákveðinn, heldur væri aðeins rætt um það að viðræðunum yrði haldið áfram. Eftir að ráðh. okkar eru búnir að margendurtaka þetta og neita þessu og það gengur svo langt að sjútvrh. heldur meira að segja áfram að neita þessu í viðtali sínu við Morgunblaðið, eflaust seint í gærkvöldi, þá kemur forsrh. nú og verður að staðfesta að þetta, sem útlendingarnir voru búnir að þrástagast á áður, sé rétt, umr. eigi að fara fram í Brüssel og umr. eigi að fara þar fram 16. og 17. des. Þetta reynist allt vera rétt. Eða hafa þessir erlendu viðsemjendur okkar slíkt vald, að þó að ekkert sé búið að ákveða hér, þá geti þeir ákveðið hlutina fyrir fram og látið það alltaf reynast vera rétt sem þeir segja fyrir fram?

Ég tók eftir því að hæstv. forsrh. sagði að það hefði verið fyrst nú í dag sem léð hefði verið máls á þessu, að fundurinn færi fram í Brüssel 16. og 17. des., og ég skildi ummæli hans þannig, að sá fundur yrði undir forsæti sendiherra okkar í Brüssel. Það táknar þá væntanlega það, að það eigi ekki að senda ráðh okkar út til þátttöku í þessum viðræðum. því að illa trúi ég því að utanrrh. okkar og sjútvrh. eigi að sitja þar á fundi til framhaldsumr. um þetta mál og vera þar undir stjórn og forsæti sendiherra okkar í Brüssel. Það virðist því vera að þessar viðræður eigi að fara fram á allt öðrum grundvelli en þær hafa verið þér heima, og er það mál út af fyrir sig.

En það er eins og jafnan áður, að hæstv. forsrh. heldur sig mjög skýrt við það að við megum ekki taka ákveðna stefnu í þessu máli. Við megum ekki gera það upp við okkur hvert sé viðhorf okkar í grundvallaratriðum, t.d. varðandi gagnkvæmar veiðiheimildir. Við megum ekkert gefa upp um þetta fyrr en við erum búnir að gefa Efnahagsbandalaginu kost á að leggja fram till. sínar, tilboð sitt um þetta mál. Ég tek undir það sem hv. 2. landsk. þm., Benedikt Gröndal. sagði um þetta. Þetta er auðvitað alveg fráleit afsökun hjá hæstv. ríkisstj. Þetta er alveg óvenjulegt. Það liggur jafnan fyrir, þegar aðilar ganga að samningaborði eða hefja viðræður, hver sé meginstefna þeirra, a.m.k. í öllum stærri og viðameiri málum sem umr. hefjast um. Að það sé eitthvert höfuðatriði að geta sagt: Ég hef ekki gert það upp við mig, ég veit ekkert hver mín afstaða verður, ég skil ekkert og veit ekkert fyrr en ég er búinn að heyra hvað hinn aðilinn segir, – það er auðvitað alveg fráleitt að stilla málum svona. Ef þeir byðu okkur t.d. aðgang að fiskimiðunum við Austur-Grænland og aðgang að síldveiðunum í Norðursjó og nefndu í því tilfelli 30 þús. tonn, eins og nú er fram komið, þeir byðu okkur slík réttindi gegn því að fá að hafa hér stöðugt að veiðum á miðunum hjá okkur 12 skip í staðinn fyrir 24 áður, hver er þá skoðun okkar? Viljum við ræða málið á þessum grundvelli? Teljum við fært að gera samning á þessum grundvelli? Auðvitað er það rétt, sem hefur komið hér fram í umr. áður, að við vitum að það er alveg sama hvað einhver Gundelach talar um mörg þús. tonn á miðunum við Grænland, við mundum aldrei ná þeim þús. tonna. Það er ekkert um það að ræða. Og við vitum líka að við gætum ekki heldur náð því síldarmagni í Norðursjó sem við höfum náð, í kringum 12 þús. tonnum, nema hverfa frá öðrum veiðum á sama tíma, — veiðum sem við eigum möguleika á hér heima hjá okkur eins og nú er komið.

Ég álít að ríkisstj. eigi að móta þessa stefnu og hún eigi að koma fram, og þá kannske hættir þessi erlendi sendimaður að senda frá sér slíkar tilkynningar eins og hann gerir um algjörlega óraunhæfa og fjarstæðukennda hluti.

Ég geri samt sem áður ráð fyrir því að hæstv. ríkisstj. hugleiði það sem hér hefur verið bent á í þessum efnum, að hún átti sig á því hve alvarlegt málið er. Það er alveg ábyggilegt og henni er óhætt að trúa því, að hún hefur ekki stuðning þjóðarinnar til þess að fara að semja eins og nú er ástatt. Hún hefur ekki stuðning þjóðarinnar til þess að semja um gagnkvæmar veiðiheimildir á þeim grundvelli sem getur legið fyrir, því við vitum hvaða möguleikar eru fyrir hendi. Ég held því að það væri best fyrir hæstv. ríkisstj. að gera upp hug sinn strax, segja hreint til í málinu, eins og við höfum farið fram á, og bera til baka það sem sem rangt hefur verið sagt frá varðandi þessar umr. og gera hinum erlenda aðila ljóst að hverju við getum a.m.k. ekki gengið varðandi höfuðatriði þessa máls. Það er sem sagt von mín að ríkisstj. taki það til alvarlegrar athugunar sem henni hefur verið bent á hér enn einu sinni í þessu máli.