10.12.1976
Neðri deild: 20. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur H. Garðarsson:

Virðulegi forseti. Ég tók þátt í viðræðunum við Efnahagsbandalagið fyrir hönd Sjálfstfl. á svipaðan hátt og hv. 4. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson, gerði, og ég get tekið undir þau orð hans, að ummæli Finns Olavs Gundelachs komu mér mjög á óvart.

Hæstv. forsrh. hefur gert grein fyrir því, að fulltrúi Efnahagsbandalagsins í viðræðunum við íslendinga hefur gefið einhliða yfirlýsingu varðandi stöðu þessa máls eins og hann virðist vilja hafa hana. Af hálfu íslenskra stjórnvalda þarf ekki að hafa fleiri orð um það. Hinn erlendi sendimaður hefur greinilega látið óskhyggjuna ráða gjörðum sínum. Það liggur skýrt fyrir að íslendingar hafa full yfirráð yfir 200 sjómílna fiskveiðilögsögu umhverfis landið og það er á okkar valdi hvernig við hagnýtum fiskimiðin innan þessa svæðis. Er það vissulega mesti og besti árangur í þessum málum frá upphafi, vil ég segja. Það vill oft gleymast í umr. hér þegar hv. alþm. ræða um þessi mál, að það hefur vissulega unnist glæsilegur sigur við það að koma bretum út úr 200 sjómílna fiskveiðilögsögunni. Er það miklu betri og meiri árangur heldur en margur trúði á að næðist svona fljótt, þegar þessi barátta hófst fyrir rúmlega einu ári.

En það, sem mér finnst einkennandi og eiginlega til skammar fyrir hv. Alþ., er þegar hv. þm. sem eru stjórnarandstæðingar, geta ekki einu sinni látið sig hafa það að viðurkenna það sem vel hefur áunnist í þessu mikilvæga máli, og það sem verra er, þegar þessir sömu hv. þm. snúa beinlínis út úr og fara ranglega með ummæli þm. hér í þessum umr.

Hv. 5. þm. Vestf. sagði að hæstv. ráðh. hafi gefið út villandi upplýsingar. Annaðhvort hefur hv. þm. greinilega ekki hlustað á orð hæstv. forsrh. áðan eða ekki viljað heyra það sem sagt var. Það er einnig til skammar hvernig sumir hv. þm. umgangast töluð orð og sannleikann hér á Alþ. Það er ekki hlustað á það sem sagt er, orð og ummæli eru rangsnúin og það sem verra er, þjóðkjörnir fulltrúar sýna ábyrgðarleysi og halda vísvitandi fram skoðunum sem þeir vita sjálfir að þeir geta aldrei staðið við og hafa jafnvel. án þess að nánar skuli farið út í það, haft önnur ummæli utan þingsala í hópi vina sinna erlendis heldur en þeir viðurkenna svo hér fyrir framan þjóðina að þeir raunverulega hafi haft. Ég held að sumir hv. þm. ættu að tala sjaldnar og minna, en standa betur við það sem þeir segja innan þings sem utan. Sem sagt, þeir ættu að reyna að vera sannir og heiðarlegir menn, en ekki flugmælskir og ómerkilegir stjórnmálamenn. Íslendingar gera kröfur til þess, að forustumenn þjóðarinnar séu heiðarlegir og geri ætíð það sem þjóðinni er fyrir bestu í viðtækustu merkingu þess orðs. Ég endurtek: og geri ætíð það sem er þjóðinni fyrir bestu í víðtækustu merkingu þess orðs.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson, 2. þm. Austf., gaf í skyn, að eitthvað kynni að hafa verið dregið undan í sambandi við viðræðurnar. Ég tók þátt í þessum viðræðum og hef lesið fundargerðir þeirra. Það er ekkert dregið undan í fundargerðunum varðandi það hvað fram fór í viðræðunum. Hv. þm. hefur fengið þessar skýrslur og veit því vel að allar aðdróttanir, sem hníga í aðra átt, eru úr lausu lofti gripnar. Ég veit að hv. þm. er mér sammála um það að athuguðu máli.

Ég vek athygli á því, að í væntanlegum viðræðum í Brüssel verða hvorki ráðh. né þm. sem hafa tekið þátt í viðræðum við Efnahagsbandalagið til þessa. Það kom fram í ræðu hæstv. forsrh. Embættismannaviðræður sem þessar hafa þess vegna allt annað gildi og allt annað vægi heldur en fyrri viðræður. Mér finnst það vel koma til greina, eins og fram kom hjá hv. 5. þm. Norðurl. e., að engar viðræður færu fram á næstunni ef svona er staðið að málum af hálfu Efnahagsbandalagsins og talsmanna þess.

Ríkisstj. og núv. stjórnarflokkar hafa stuðning og traust þjóðarinnar í þessu máli, að það voru þessir aðilar, en ekki stjórnarandstaðan, sem tryggði íslendingum 200 sjómílna fiskveiðilögsögu. Þetta er söguleg staðreynd sem þarf ekki að hafa mörg orð um.