10.12.1976
Neðri deild: 20. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

Umræður utan dagskrár

Garðar Sigurðsson; Virðulegi forseti. Ég vonaðist til þess að mega segja hér nokkur orð eins og aðrir og ekki síst með tilliti til þess, að ég hef ekki tekið til máls fyrr á þessu þingi. En hins vegar eins og ævinlega skal ég sýna sanngirni og reyna að stytta mitt mál eftir því sem framast er kostur.

Þessar umr. hófust vegna þess að enn einu sinni höfum við heyrt fréttir frá útlöndum þess efnis að varasendimaður Efnahagsbandalagsins, Finn Olav Gundelach, hefur látið hafa eftir sér að samningar við íslendinga séu í nánd. Hann hefur meira að segja tekið það fram í hverju þeir eigi að vera fólgnir. Hann hefur nefnt skipafjölda o.fl. Hins vegar stendur það fyrir framan okkur hvað íslenskir ráðh. hafa sagt. Þvert ofan í orð Gundelachs, sem segir að bráðabirgðasamningar séu líklegir um áramótin, fullyrða íslenskir ráðh. að engir samningar hafi verið nefndir og komi ekki til greina að svo stöddu. Gundelach hefur margsinnis látið hafa eftir sér, að mjög miklar líkur séu á því, að bretar fái að veiða hér áfram með 12 skipum, á sama tíma og íslenskir ráðh. fullyrða það hér í fjölmiðlum landsins að alls ekki hafi verið minnst á nokkurn skipafjölda. Íslenskir ráðh. hafa einnig tekið það fram, að alls ekki hafi verið talað um aflamagn, sama daginn og herra Gundelach nefnir að þeir geti boðið okkur 30 þús. tonna veiði á miðum Efnahagsbandalagsins. Þarna ber svo mikið á milli að það er ekki hægt að segja annað en að annað sé hvítt og hitt svart. Annar aðilinn segir satt og hinn lýgur. Nú höfum við gert því skóna að íslenskir ráðh. segi satt, og ég vona að þeir segi satt. En — ef þeir segja satt — þá lýgur Gundelach, það er augljóst mál. Hæstv. forsrh. sagði í sinni ræðu að herra Finn Olav Gundelach bæri ábyrgð á orðum sínum sjálfur. Var út af fyrir sig ánægjulegt að fá að vita það. En eftir að hafa borið saman ummæli sannorðra íslenskra ráðh. og ummæli sendimanns Efnahagsbandalagsins fer ég að leyfa mér að efast um, að hann geti verið ábyrgur orða sinna.

Ef það er rétt að íslenskir ráðh. segi satt og Gundelach segi ósatt, þá tel ég með öllu ófært að setjast aftur að samningaborði með slíkum manni. Við eigum í fyrsta lagi að mótmæla þessum fréttaburði, og ég er út af fyrir sig ánægður með að okkar ágæti hæstv. utanrrh., Einar Ágústsson, eigi von á því að hitta margnefndan Finn Olav Gundelach í kvöldverðarboði nú í kvöld og geti þá sett rækilega ofan í við þennan sendimann danskan frá Efnahagsbandalaginu.

Þar sem ég lofaði að vera stuttorður vil ég aðeins geta þess, að ég var heldur ánægður yfir að heyra orð hv. þm. Þórarins Þórarinssonar þegar hann talaði fyrst og dró fram þá staðreynd, sem við vissulega þekkjum öll. að ríki frá Efnahagsbandalaginu hafa nú þegar heimild til að veiða á næsta ári 66 þús. tonn af fiski á íslenskum miðum, en Gundelach geti hins vegar ekki boðið okkur — og hafi sagt það í útlöndum — meira en 30 þús. tonn. Þá skulum við aðeins athuga það, að þessi 30 þús. tonn, sem Gundelach hugsanlega getur boðið, eru líklegast síld að mestu leyti, og þó er það vafasamt vegna þess hvernig ástand síldarinnar er í Norðursjó.

Og ef það er ekki síld, þá er það annaðhvort bara hreinn hugarburður eða örsmár karfi sem er afar lítils virði. En þessi 66 þús. tonn, sem hinir veiða hér, eru a.m.k. að verðmæti til ekki minna en 100 þús. tonna virði af síld á sama markaði. Þess vegna þurfa þeir að bjóða okkur verulega miklu meira til þess að um nokkra gagnkvæma samninga geti orðið að ræða. Þess vegna er ljóst af þessum tölum einum, þótt ekki kæmi annað til, að þeir hafa ekkert okkur að bjóða, og af þeim ástæðum getur ekki orðið um gagnkvæmar veiðiheimildir að ræða. Allt slíkt tal er hreinlega út í hött. Það sjá menn fyrir framan sig og því verður ekki neitað.

Að lokum vil ég segja það, að ég er dálítið undrandi á því að hér skuli vera þrástagast á hlut eins og gagnkvæmum samningum um fiskverndarmál við þessa menn. Það tal allt saman er afar lítilsvirði að mínum dómi. En ég vil leggja áherslu á það, að ríkisstj. Íslands ber skylda til að mótmæla þessum fullyrðingum Gundelachs og neita að taka þátt í nokkrum viðræðum við slíka menn.