13.12.1976
Efri deild: 21. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

66. mál, vegalög

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst víkja að fyrirspurn frá hv. 5. þm. Norðurl. v. sem kom hér fram við 1. umr. um frv. í sambandi við regluna um að vegirnir næðu til kauptúna og þá miðað við kortið. Ég hef nú borið mig saman við vegagerðarmenn og þeir hafa sagt að þetta þýddi það, að heimilt væri að færa þetta út frekar en hér er gert ráð fyrir, og man ég eftir að um Skagaströnd var spurt í því sambandi og er gert ráð fyrir að þessi stofnbrautaregla nái þangað. Eitthvert annað kauptún var nú — (RA: Það var Borgarfjörður eystri.) Það var Borgarfjörður eystri sem var það sama um að segja, að þetta kort er ekki tæmandi og skoðun þeirra, sem höfðu samið málið, var sú, að það væri ekki hugsun þeirra að útiloka þessa staði þó þetta væri þannig.

Út af brtt. á þskj. 149, þar sem er talað um útborganir vegna þéttbýlisvega og um mánaðarlega greiðslu í þessu sambandi, þá langar mig til þess að skýra frá því í fyrsta lagi, að hér er um reglugerðarákvæði að ræða í sambandi við núgildandi lög. Var það talið heppilegra til þess að Vegagerðin gæti fylgst með hvað framkvæmt yrði og féð ekki notað á annan veg. Og hinn nýi vegamálastjóri hefur óskað eindregið eftir því að þetta reglugerðarákvæði yrði þá frekar endurskoðað heldur en það væri bundið í löggjöf, þar sem þá yrði að vera túlkunaratriði hvað eftirlitið gæti verið mikið og ýmisleg vinna í sambandi við reikninga. Ég vil því leyfa mér að fara fram á það við hv. flm. að þeir falli frá þessari breytingu, af því að það er líka nauðsynlegt að hraða málinn, en vil hins vegar geta þess, að ég mun í samráði við Vegagerð ríkisins óska eftir því að reglugerðarákvæðið verði endurskoðað til þess að tryggja betur þá greiðslu, sem þarna fer fram, heldur en menn telja að núna sé gert, þó að nú sé reynt að gera það eins og tök eru á. En þá ætti að vera auðvelt að koma því hvoru tveggja saman, að halda eftirlitinu fullkomlega og tefja ekki fyrir þeim sem í framkvæmdum standa. Ég vil mjög mælast til þessa, ekki síst þar sem vegamálastjóri okkar er nú nýtekinn við störfum og hefur mjög eindregið óskað eftir að þetta verði gert.