13.12.1976
Neðri deild: 21. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

102. mál, tilkynningarskylda íslenskra skipa

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég get vel skilið það, að hv. 8. þm. Reykv. kæri sig ekki um að vísa málum til samgrh. sem sjávarútveg varða, því að hann er það mikill sjómaður að hann kann skil á því hvað ég er fjarri þeim hæfileikum. Hins vegar er það svo í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir til 1. umr., að það hefur verið unnið að því í samgrn. að endurskoða þessi lög og ýmsa þætti málsins. Nú er ég ekki undir það búinn að greina frá þeirri vinnu hér við þessa umr. En til þess að tefja ekki málið fyrir hv. þm., sem ég hef enga löngun til, þá tel ég eðlilegt að segja frá þessu, en mun hins vegar láta koma málinu á framfæri við sjútvn., sem vafalaust fær frv. til meðferðar fremur en samgn., og þá verði það athugað í samráði við hv. flutningsmann hvernig sameina má þessi sjónarmið og vinna hér að endurbótum eins og frv. gerir ráð fyrir.

Ég vildi sem sagt segja frá því, að í samgrn. er verið að vinna að þessari athugun, og við skulum svo sjá hvernig með málið verður farið þegar það fer úr þessari hv. deild.