14.12.1976
Sameinað þing: 31. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

Umræður utan dagskrár

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Mér þykir miður að þurfa að eyða dýrmætum tíma Alþ. í þessu annríki í dag í umr. utan dagskrár, en ég finn mig til þess knúna af sérstöku tilefni. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að gefa mér hér orðið, og ég skal vera stuttorð. En tilefnið er fregnir í fjölmiðlum nú fyrir helgina um það, að Seðlabanki Íslands hafi stofnað sjóð af hagnaði þeim er varð af sölu sérstakrar þjóðhátíðarmyntar í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974. Nemur sá hagnaður samkvæmt fréttinni 337 millj. kr. en þar af skulu 300 millj. renna til sjóðsins er verja skal til varðveislu og verndar á verðmætum lands og menningar.

Hinn 10. des. fyrir tveim árum bar ég fram hér á Alþ. fsp. til hæstv. viðskrh., svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„1. Er sölu þjóðhátíðarmyntar lokið?

2. Hve mikill ágóði hefur orðið af sölunni?

3. Verður ráðstöfun þess fjár lögð fyrir Alþingi?“

Það var fyrst og fremst þriðji og síðasti liður fsp. sem mér lék sérstaklega hugur á að fá svarað. Í stuttri grg. og umr. um fsp. tók ég fram, að ég væri ekki haldin neinni tortryggni um að umræddum ágóða af sölu þjóðhátíðarmyntarinnar yrði vel og skynsamlega varið, en taldi óeðlilegt að Seðlabankinn ráðstafaði svo stórri fjárupphæð utan við fjárlög Alþingis. Vitna ég í því sambandi til 41. gr. stjórnarskrárinnar. Taldi ég ástæðu til þess að Alþ. væri vel á verði gegn því að valdamiklar stofnanir seildust inn á verksvið þess og gerðust ríki í ríkinu. Þá minnti ég jafnframt á að árið 1968 voru sett sérstök lög eða bráðabirgðaákvæði aftan við lög um gjaldmiðil Íslands vegna útgáfu á minnispeningi um Jón Sigurðsson. Var ríkissjóði heimilað með þessu bráðabirgðaákvæði að leggja 50% álag á nafnverð og skyldi hagnaðinum varið til framkvæmda á fæðingarstað Jóns forseta á Hrafnseyri. Ég spurði þá og spyr enn, hvort ekki sé ástæða til að fara eins að nú, þ.e. að binda með lögum og ákvörðun Alþ. ráðstöfun á þeim miklu fjármunum sem hér er um að ræða.

Hæstv. viðskrh. svaraði þessari fsp. heldur stuttur í spuna og taldi hana óþarfa og las síðan sem svar við fsp. bréf frá Seðlabankanum. En 3. lið fsp. minnar var svarað í niðurlagi bréfsins á eftirfarandi hátt, orðrétt upp úr Alþingistíðindum, með leyfi forseta:

„Í upphafi árs. Þegar ákvarðanirnar voru teknar um útgáfu þjóðhátíðarmyntarinnar, skýrði bankastjórn Seðlabankans ríkisstj. frá því, að þegar endanlegt uppgjör lægi fyrir mundi bankinn gera till. um ráðstöfun fjárins en jafnframt óska þess að ríkisstj. og Alþ. tækju lokaákvörðun um hana. Mun því málíð koma til kasta Alþ. þegar þar að kemur.“

Undir þetta skrifa Davíð Ólafsson, Sigurður Örn Einarsson.

Í þessu bréfi frá Seðlabankanum kemur það skýrt og greinilega fram, að málið skuli koma til ákvörðunar á Alþ. Áréttaði hæstv. viðskrh. þetta meginatriði síðar í umr. Mætti því ætla að málið hefði þar með verið klappað og klárt og engra athugasemda þörf nú. En það kemur hins vegar harla einkennilega og óþægilega fyrir. að í fréttum af þessum hátíðlega atburði s.l. föstudag, er yfirstjórn Seðlabankans afhenti forsrh. þjóðhátíðarsjóðinn, er hvergi minnst einn orði á Alþ. Ákvörðun um ráðstöfun fjárins, hlutverki hins nýstofnaða sjóðs virðist slegið á fast. Talað er að vísu í öðru orðinu um till. Seðlaþankans sem þó hljóma fremur sem fyrirmæli. Eða hefði verið ástæða til þess að efna til veglegrar móttöku að víðstöddum sjálfum forseta lýðveldisins, ríkisstj. og öðru stórmenni, ef þarna hefði aðeins verið um að ræða afhendingu fjárupphæðar sem Alþ. og ríkisstj. mundu hugsanlega vilja verja með einhverjum öðrum hætti en yfirstjórn Seðlabankans hefur þegar ákveðið? Hið sama má segja um skipan sjóðsstjórnar sem Seðlabankinn hefur ákveðið að skuli skipuð 3 mönnum: fulltrúa ríkisstj., Háskóla Íslands og Seðlabankans. Sumir kynnu að telja fullt eins eðlilegt að fulltrúi t.d. frá Menningarsjóði eða Þjóðminjasafni kæmi þar fremur til greina en fulltrúi frá Seðlabankanum.

Með þessu er ég ekki að gefa í skyn að Alþ. gæti ekki fellt sig við hugmyndir Seðlabankans um að verja þessum sjóði til varðveislu og verndar á verðmætum lands og menningar með þeim hætti sem þegar virðist ákveðinn. Það yrði að koma í ljós, Mér fyrir mitt leyti finnst hugmyndin í þjóðlegum og menningarlegum anda og um leið í anda þjóðhátíðarársins. Ég hef þó frá upphafi talið að þessum fjármunum yrði hvað best varið til að hrinda að stað byggingu þjóðarbókhlöðu sem tryggði sómasamlega varðveislu á blöðum okkar og bókum, þ. á m. handritasafni Landsbókasafnsins, einu mesta dýrmæti þjóðarinnar sem komið er að stofni til frá Jóni Sigurðssyni, og þá jafnframt til þess að bæta aðstöðu Þjóðskjalasafnsins þar sem haugar af mikilvægum þjóðlegum fróðleik liggja undir skemmdum. Ég hlýt að minna á það í þessu sambandi að í apríl 1970 var samþ. á Alþ. svo hljóðandi þáltill. frá ríkisstj. Íslands, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar 1974 skuli reist þjóðarbókhlaða er rúmi Landsbókasafn Íslands og Háskólabókasafn.“

Þessi till. var samþ. á Alþ. með 51:1 atkv. Það er sorglegt að þessi þál., sem afgreidd var frá Alþ. árið 1970, virðist hafa gleymst. Í Byggingarsjóði þjóðarbókhlöðu eru nú einar 35 millj. Þetta er raunasaga. Það er engu líkara en að söguþjóðin og Alþ. hafi gleymt bókunum sínum.

Herra forseti. Ég leyfi mér hér að lokum að beina þeirri fsp. til hæstv. viðskrh. eða annarra ráðh. í ríkisstj. hvort hæstv. ríkisstj. hyggist innan tíðar leggja fram á Alþ. lagafrv. eða þáltill. um varðveislu og notkun þessa þjóðhátíðarfjár, þannig að Alþ. gefist með eðlilegum hætti kostur á að koma þar fram óskum sínum og áhrifum. Hér er annars vegar grundvallaratriði að því er varðar störf og hlutverk Alþ. sem verður að vera á hreinu. Tilgangur minn með þessari fsp. er sá einn að fá úr því skorið, hvort svo sé hér og hvort réttur Alþ. til ákvörðunar í þessu máli sé þar með tryggður.

Ég vek sérstaka athygli á því, að í 1. gr. laga um Seðlabanka Íslands segir að bankinn sé eign ríkisins. Ætti það að taka af öll tvímæli um að það er Alþ. og engin stofnun önnur sem hér hefur ákvörðunarréttinn.