14.12.1976
Sameinað þing: 31. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er mikill og leiður misskilningur hjá hv. fyrirspyrjanda að ég hafi verið eitthvað stuttur í spuna við hana þegar ég svaraði henni. Ég las aðeins upp bréf frá Seðlabanka Íslands, og hún vitnaði réttilega í þetta bréf nú. Þar segir í niðurlagi bréfsins:

„Í upphafi árs, þegar ákvarðanir voru teknar um útgáfu þjóðhátíðarmyntarinnar, skýrði bankastjórn Seðlabanka Íslands ríkisstjórn frá því, að þegar endanlegt uppgjör lægi fyrir mundi bankinn gera till. um ráðstöfun fjárins, en jafnframt óska þess að ríkisstjórn og Alþ. tækju lokaákvörðun um hana. Mun því málið koma til kasta Alþ. þegar þar að kemur.“

Það má svara þessu líka án þess að vera stuttur í spuna, en gagnorður eins og vera á í fsp., með því að segja að þessi fyrirætlun, sem þarna kemur fram, er óbreytt. Það, sem gerst hefur, er ekki annað en það, að Seðlabankinn hefur gert till. um ráðstöfun þess fjár sem hann afhenti fyrirsvarsmanni eiganda þess, ríkisstj. og ríkisstj. mun síðan taka það til athugunar hvort að hún vill fallast á þessar till. En þær till., sem hún fellst á og gerir, munu koma til kasta Alþ. í einu eða öðru formi, eins og hv. fyrirspyrjandi drap á.

Þessar hugmyndir, sem voru lagðar fram í bréfi Seðlabankans s.l. föstudag, eru ekki nýjar. Þær tillögur eða hugmyndir eru a.m.k. í öllum aðalatriðum þær sömu sem voru settar fram af hálfu Seðlabankans í bréfi til ríkisstj. á sínum tíma, og bankamálaráðherra mun líka þá hafa fengið samsvarandi bréf, að ég ætla, um það. Þær till. kynnti ég bæði í ríkisstj. og í þjóðhátíðarnefnd, ef ég man rétt. Um þetta munu vera fyrir hendi gögn í forsrn. Og það var ekki gerð athugasemd af hálfu neins, svo ég muni, þá við þessar till., enda skildist mér að hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir hefði út af fyrir sig engar athugasemdir að gera við þessar hugmyndir, heldur væri það formið eitt og að hjá henni leyndist vafi og hún drægi þá ályktun, af því að þetta hefði aðeins verið afhent ríkisstjórn án þess að Alþ. væri nefnt, að málið ætti ekki að koma til kasta Alþ. En sem sagt, ég endurtek það sem ég sagði, að það er óbreytt fyrirætlun ríkisstj., málið kemur til kasta Alþingis.