14.12.1976
Sameinað þing: 31. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

1. mál, fjárlög 1977

Svava Jakobsdóttir:

Hæstv. forseti. Á þskj. 165 hef ég leyft mér að flytja brtt. við fjárlög þess efnis, að fjárframlög til stofnkostnaðar dagvistunarheimila hækki úr 110 millj. 700 þús. kr. upp í 176 millj. Það hefur komið fram í máli hv. þm. Geirs Gunnarssonar og Karvels Pálmasonar að fjárveiting til dagvistunarheimila er alls ónóg, og meira að segja formaður fjvn., hv. þm. Jón Árnason, tók það fram um þessa hækkun fjvn., sem hún hefur nú gert till. um við 2. umr., að hún væri engan veginn fullnægjandi. Það er því augljóst að með þessari hækkun, sem fjvn. leggur til, er ekki verið að sýna þessum málaflokki neinn sérstakan sóma, heldur er hækkunin flutt í þeirri veiku von að firra ríkisstj. og meiri hl. Alþ. gagnrýni vegna ámælisverðrar vanrækslu í þessum málum síðan ríkisstj. tók við völdum. Hér er nefnilega um svo brýnt hagsmunamál að ræða fyrir sveitarstjórnir og allan almenning að hin smánarlega tala 85 millj. hlaut að breytast.

Á fjárlögum þessa árs var fjárveiting 64 millj., en fjárþörf tæpar 165 millj. ef átti að vera hægt að sinna nýjum umsóknum. Afleiðing af þessari smánarlegu fjárveitingu ársins í ár, þessum 64 millj., var sú að engum nýjum dagvistunarheimilum var bætt inn á fjárlög. Hér var auðséð að stefnt var visvítandi að því að ríkið kippti að sér hendi með framlög til stofnkostnaðar, alveg á sama átt og það gerði með lagabreytingum um rekstrarkostnað dagvistunarheimila á síðasta ári. Fjárveitingin í ár var sem sagt upphafið af endalokunum. Það átti að svelta þennan málaflokk alveg til þess að sönnuðust orð íhaldsins, að lögin frá 1973 um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri dagvistunarheimila væru dragbítur á framkvæmdir. Með þessu móti átti að sanna réttmæti þeirrar íhaldsstefnu að þessi mál væru best komin hjá sveitarfélögum einvörðungu, enda þótt vitað sé að sveitarfélögin hafi ekki nægilegt fé til að sinna þessum málum sem skyldi. Upphæðin, sem var upphaflega í fjárlögum fyrir árið 1977, þessar 85 millj. gerðu ekki betur en svo að framlagið héldi raungildi sínu, en vitað var að hin raunverulega þörf var áætluð 230–240 millj. Er því till. fjvn. nú um 10 millj. ekki nema helmingur af því sem þarf til þessa málaflokks.

Menntmrn. hefur hins vegar sett fram till. um 176 millj. kr. sem algjört lágmark, í þeirri von að geta bjargað þessum málum, og það er sú till., sem ég hef tekið upp. Með þessu móti, ef veittar væru 176 millj. til þessa málaflokks á næsta ári, væri hægt að veita öllum umsóknaraðilum einhverja úrlausn, þó þær upphæðir væru vitanlega allt of lágar. Til dæmis um misræmið á fjárveitingu og þörf get ég nefnt að framlag til Reykjavíkurborgar einnar þyrfti að vera 67:3 millj. miðað við 4 ára greiðsluáætlun. Með till. fjvn. um 110 millj. er hér auðvitað verið að mynda skuldahala hjá ríkissjóði upp á 120 millj. kr.

Ég legg áherslu á að þessi till. mín verði samþ. Ég fullyrði að stefna ríkisstj. í þessum málum veldur algjöru neyðarástandi, — neyðarástandi sem á eftir að hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir fleiri en eina kynslóð í landinu. Um mikilvægi þessa málaflokks og það ástand, sem nú ríkir í þjóðfélaginu vegna stefnu ríkisstj., ætla ég ekki að fjölyrða að sinni. Það gefst tími til þess væntanlega nú alveg á næstunni.

Á sama þskj. flyt ég ásamt hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni till. um að framlag til Félagsstofnunar stúdenta verði hækkað úr 11 millj. upp í 20 millj. 0g legg áherslu á að hér er um algjört lágmark að ræða til þessarar stofnunar. 11 millj. eru allsendis ófullnægjandi, og miðað við þörf og þau rök, sem stjórn Félagsstofnunar stúdenta hefur fært fram við fjvn., er þessi hækkun aðeins til að sýnast. Ef fjárveitingin yrði 20 millj. mundi framlag ríkisins a.m.k. halda raungildi sínu miðað við árin 1969–1974 og er þó alls ekki tekið tillit til fjölgunar stúdenta í þessari tölu. Stjórnin metur sjálf fjárþörf stofnunarinnar 37 millj., og ég vænti þess að hv. þm. sjái að till. mín er mjög hófleg og raunsæ.

Fjárveitingar Alþ. til Félagsstofnunar stúdenta héldu nokkurn veginn raungildi sínu á árunum 1969–1974, en síðustu tvö árin, síðan núv. ríkisstj. tók við, horfir mjög til óheilla, því að á þessum tveim árum lækkar raungildi fjárveitingarinnar til Félagsstofnunar um næstum helming. Þessi þróun svo og sú staðreynd að stúdentum hefur fjölgað mjög hefur gert það að verkum að framlag stúdenta sjálfra til Félagsstofnunarinnar fer ört hækkandi, ekki aðeins í krónutölu, heldur einnig að raungildi. Með stórskertu framlagi ríkissjóðs er þá verið að auka til muna byrðar námsmanna sjálfra. Hér ætlar ríkisstj. auðsjáanlega að láta kné fylgja kviði. Eftir að hafa sett hinar alræmdu reglur um úthlutun námslána á nú einnig að stórskerða félagslega þjónustu.

Félagsstofnun stúdenta er sjálfseignarstofnun með sjálfstæðri fjárhagsábyrgð og var sett á fót með lögum 1968. Hlutverk Félagsstofnunarinnar er að annast ýmiss konar þjónustu við stúdenta og starfsfólk Háskólans, svo sem stúdentagarða, mötuneyti, bóksölu o.fl. Í lögunum er m.a. gert ráð fyrir að stofnunin njóti fjárframlaga úr ríkissjóði til rekstrar og framkvæmda. Var gert ráð fyrir því þegar lögin voru samþ. að framlag ríkisins færi hækkandi með árunum.

Eitt af því, sem Félagsstofnunin rekur, svo sem ég hef áður sagt, er matstofa. Ég vil leyfa mér að lesa hér úr erindi Félagsstofnunar um þann kafla sem að matstofunni lýtur. Þetta erindi var sent menntmrn. með fjárveitingarbeiðninni eða með rökstuðningi fjárveitingarbeiðnar. Í þessu erindi segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sá þáttur í rekstri Félagsstofnunar, sem hefur verið hvað erfiðastur á undanförnum árum, er matstofa stúdenta sem er til húsa í stúdentaheimilinu við Hringbraut. Haustið 1975 voru gerðar miklar breytingar á rekstri matstofunnar til þess að reyna að bæta flárhagsafkomu hennar. Þessar breytingar voru alls ekki sársaukalausar m.a. vegna þess að nauðsynlegt var að segja starfsfólki upp, draga úr þjónustu og hækka matarverð svo mjög að aðsókn að matstofunni dróst verulega saman fyrir bragðið. Þetta þarf raunar ekki að koma á óvart ef þess er gætt að viðskiptavinir matstofunnar þurfa að standa undir nær öllum rekstrarkostnaði hennar. bæði launum starfsfólks. rafmagni og hita og hráefniskostnaði. Mun það harla fátítt í landinu að menn geti leyft sér að kosta svo miklu til daglegs fæðis til lengdar. Skal hér til að mynda minnt á tvo hópa sem báðir eiga kost á að kaupa daglegt fæði á vegum ríkisins. Eru það annars vegar ýmsir opinberir starfsmenn sem búa við mötuneyti þar sem þeir greiða aðeins hráefniskostnað, en ríkið leggur til bæði starfslið og annan fastakostnað, svo sem rafmagn og hita. Hins vegar skal bent á nemendur heimavistarskóla víða um land sem kaupa fæði á svipuðum kjörum. Eðlilegt er að þeir aðilar, sem eiga kost á að nota sér þjónustu stúdentamatstofunnar, þ.e. stúdentar og háskólakennarar, beri kjör sín saman við þessa hópa og geti ekki annað því að búa við svo skarðan hlut sem raun ber vitni. Á þessum málum fæst því engin viðhlítandi lausn fyrir en ríkisvaldið fer að styrkja matstofu stúdenta á sama hátt og mötuneyti opinberra starfsmanna og mötuneyti íslenskra skóla.“

Svo segir í erindi stjórnar Félagsstofnunar. Hér er ekki verið að fara fram á það að ríkisvaldið styrki matstofuna í þeim mæli sem bað styrkir mötuneyti annarra skóla eða mötuneyti opinberra starfsmanna þó það væri sannarlega eðlileg krafa. Hér er verið að fara fram á það að fjárveitingar til þessa nauðsynlega rekstrar verði auknar til þess hóps manna sem hefur mjög litla möguleika á því að vinna sér inn tekjur nema hluta ársins og veitir sannarlega ekki af að útgjöld til nauðþurfta verði sem allra minnst.

Ég fæ ekki séð annað en fjvn. gæti fallist á þessa till. mína, nema það sé skýlaus stefna ríkisstj. að níðast á námsmönnum á öllum sviðum. Hækkunin, sem fjvn. leggur til, er aðeins 3.4 millj. og er sú upphæð m.a., svo sem segir í grg., ætluð til viðhalds stúdentagarðanna. Það veitir sannarlega ekki af aukinni fjárveitingu til viðhalds stúdentagarðanna því að bæði borgarlæknir og umsjónarmaður eldvarna hafa krafist endurbóta og lagfæringa á stúdentagörðunum, bæði þeim nýja og gamla, ef um áframhaldandi heimavistar- og hótelrekstur eigi að vera að ræða. Svo alvarlega horfir með húsnæði eða byggingar garðanna. Verður því ekki komist hjá því að verja fé til viðgerða og viðhalds. Hins vegar geri ég fastlega ráð fyrir því að stjórn Félagsstofnunar telji heldur vanmetið hjá fjvn., því hún áætlar að lágmarksþörf til viðgerðar sé 10 millj. Þá eru eftir nauðsynleg framlög til matstofu sem stjórnin áætlar að séu 12 millj., og síðan má nefna rekstur skrifstofunnar sem stjórnin áætlar 10 millj. Af þessu má sjá að það er allsendis óverjandi að ekki skuli fást meira fé en fjvn. leggur til. og hv. þm. sjá vonandi að till. mín er algjört lágmark.

Þriðja brtt. mín við fjárlögin er einnig á þskj. 165 og ég flyt hana ásamt hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni. Við leggjum til að framlag til Jafnréttisráðs hækki úr 2.5 millj. upp í 3 millj. 700 þús. kr. Jafnréttisráð gerði sjálft till. um þessa tölu, 3 millj. 700 þús., og telur að þar hafi verið um algjört lágmark að ræða. Sundurliðun Jafnréttisráðs sýnir einnig að megnið af þessari fjárveitingu, sem fjvn. leggur til, mundi varla gera betur en standa undir launum og þá eru eftir mikilvægar rannsóknir sem Jafnréttisráð hefur í gangi, stofnkostnaður og ýmislegt fleira. Jafnréttisráð er tiltölulega ný stofnun og var ákveðið með lögum að það skyldi hafa framkvæmdastjóra og skrifstofu Það var ákveðið með lögum s.l. vor. Með þessu framlagi. sem fjvn. leggur til, mundi það þýða að Jafnréttisráð gæti ekki haft nema hálfan starfsmann sem hingað til. en reynslan sýnir að þörf er á hví að hafa skrifstofu opna allan daginn. Ráðið hefur að vísu skrifstofuherbergil, en til marks um aðbúnaðinn get ég skýrt frá því að það á ekki einn sinni ritvél.

Ég legg áherslu á að Jafnréttisráð á samkv. lögum að gera rannsóknir og athuganir og fylgjast með þjóðfélagsþróuninni í jafnréttismálum. Og ef þetta ráð eða skrifstofa þess á að hafa nokkur tök á því að gegna hlutverki sínu og valda þeim umskiptum í þjóðfélaginu sem Alþ. ætlaðist til þegar það samþ. upphaflega lög um Jafnlaunaráð, þá verður að hækka fjárveitingu til ráðsins.