15.12.1976
Sameinað þing: 32. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég bjóst við því, þegar þessir tveir hv. þm. kvöddu sér hljóðs utan dagskrár, að þeir bæru fram til mín einhverjar fsp., skýrar fsp., en það er erfitt að festa hendur á því hvað það er sem þeir óska svara við. Helst er ádeila þeirra í því fólgin að leynd hafi verið yfir þessu máli, að gengið hafi verið fram hjá Alþ. og Alþ. látið standa frammi fyrir gerðum hlut, eins og annar hv. þm. komst að orði. Allt er þetta byggt á hinum mesta misskilningi.

Í fyrsta lagi er þess að geta, að frv. hefur verið útbýtt nú á Alþ. og ætlunin er að það verði tekið til 1. umr. síðar í þessari viku. Að því er stefnt að reyna að taka það til 1. umr. á föstudaginn kemur, og hafa því hv. þm. sæmilegan tíma til þess að kynna sér frv. áður en það kemur til 1. umr. Ætlunin er að reyna að koma málinu til hv. iðnn. áður en þinghlé verður, en síðan verði ekki meira í málinu gert, en iðnn. reyni að nota tímann í þinghléi til þess að kynna sér málið og ræða það og þegar menn koma saman aftur til þings eftir nýár verði málið tekið til framhaldsumr. og afgreiðslu. Hér er því á engan hátt óeðlilega farið að, heldur þvert á móti ætlaður rúmur tími til afgreiðslu málsins.

Hv. þm. virðast misskilja þetta mál mjög þegar þeir segja að Alþ. standi frammi fyrir gerðum hlut, það sé búið að gera þennan samning. Í 23. gr. samningsins, sem prentaður er með frv. á bls. 36, stendur svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Samningur þessi skal öðlast gildi þann dag, þegar ríkisstj. og ES hafa undirritað hann og Alþ. hefur samþykkt heimildarlögin að nýju.“ Ekkert í þessum samningi tekur gildi fyrr en Alþ. hefur á eðlilegan og löglegan hátt samþykkt frv. Þessi fyrirvari er svo skýr að um það ætti í rauninni ekki að þurfa frekar að ræða.

Varðandi gang málsins að öðru leyti, þá þarf ekki að rekja það hér, verður rakið nánar siðar í umr., að það fyrirtæki, sem ætlað var að reisti þessa verksmiðju í félagi við íslendinga, bandaríska fyrirtækið Union Carbide, hætti við þátttöku sína þegar til kom, og tók nokkurn tíma að ná niðurstöðu í því vandasama uppgjörsmáli. En því lauk þannig eftir miklar umr. og nokkra fyrirhöfn að það fyrirtæki féllst á að greiða verulegar bætur til íslendinga fyrir að það hætti þátttöku sinni, og eru þær bætur þannig að áslendingar sleppa alveg skaðlausir fjárhagslega frá þeim viðskiptum. Þegar ljóst var að þetta fyrirtæki vildi draga sig í hlé var talið rétt að kanna hvort annað fyrirtæki vildi ganga þar inn í, og það varð norska fyrirtækið Elkem Spigerverket sem varð fyrir valinu og umr. við það fyrirtæki hafnar í aprílmánuði s.l., eins og rakið er greinilega í grg. þessa frv. Þetta er traust fyrirtæki sem nýtur mikils álits, bæði í sínu heimalandi og annars staðar, og hefur mikla reynslu í framleiðslu þeirri sem hér er um að ræða. Þessar samningaviðræður hafa nú leitt til þess samnings sem lagður er fyrir Alþ. til samþykktar. Þessar viðræður hafa tekið öllu lengri tíma en hefði þurft til þess út af fyrir síg að ná samkomulagi milli okkar og þeirra, vegna þess að menn vildu reyna að tryggja, áður en gengið yrði frá samningum, fjárhagslegan grundvöll fyrirtækisins og lánsútvegun. En þeir hlutir höfðu ekki verið tryggðir áður en samþykktur var samningurinn við Union Carbide. Nú liggur það fyrir að hinn nýi fjárfestingarbanki Norðurlanda mun lána verulegan hluta stofnkostnaðar með hagkvæmum kjörum sem báðir aðilar hafa fallist á að væru viðunandi og bankinn fyrir sitt leyti samþykkt. Þá er ekkert lengur því til fyrirstöðu að málið verði lagt fram til endanlegrar samþykktar.

Við slíka samningagerð eins og þessa, sem staðið hefur yfir síðan í aprílmánuði á s.l. vori, ætla ég, að í rauninni detti engum manni í hug, ekki heldur þeim tveim þm. sem töluðu hér utan dagskrár, að gera ráð fyrir því að þeir eða fulltrúar Alþb. yrðu kvaddir í samninganefnd til að vinna að þeim samningum, — þm. sem hafa leynt og ljóst á þingi og annars staðar barist gegn þessari verksmiðju og lýst sig algerlega andvíga málinu. Ef þetta, sem þeir tala um, leynd málsins, felur í sér kröfu um það eða ádeilu réttara sagt fyrir að þeir hafi ekki verið kvaddir í samninganefndina, þá er það slík fjarstæða að ég er undrandi á því. Ég held að það hefði hvorki orðið til þess að greiða fyrir málinu né heldur þeim sjálfum til neinnar ánægju þó að Stefán Jónsson eða Skúli Alexandersson hefði verið beðinn um að taka sæti í þessari samninganefnd. Ég held sannast sagna að það hefði ekki verið neinum aðila til góðs.

Það var ósköp eðlilegt að þeir, sem að þessu máli hafa staðið og bera ábyrgð á framkvæmd þess, stæðu að þessari samningagerð. Það er fjarri öllu lagi að staðhæfa að hér hafi verið nokkru leynt. Síðan þessar viðræður hófust við Elkem Spigerverket í aprílmánuði hefur alltaf annað veifið verið skýrt frá því hvernig þeim víðræðum miðaði áfram. Varðandi undirskrift undir samninginn, sem birtur er með þessu frv. nm járnblendiverksmið;una í Hvalfirði, var það fyrir réttri viku, miðvikudaginn 8. des., sem sú undirskrift fór fram, þegar samningsgrundvöllurinn lá fyrir og samþykki Fjárfestingarbankans um lánveitingu, og sama dag, 8. des., skýrði stjórnarformaður Járnblendifélagsins frá þessu í útvarpi í fréttatíma. Í fréttum kl. 19 8 des. þessa árs átti fréttastofan viðræður við dr. Gunnar Sigurðsson þar sem hann skýrði frá því að nú séu samningaviðræðurnar komnar á lokastig eða lokið og að málið verði lagt fyrir Alþ. í næstu viku, eins og gert hefur verið í dag. Því fer fjarri að nokkur leynd hafi verið yfir þessu máli.

Hitt er annað mál, að það gerist oft þegar mál eru í undirbúningi og áður en frv. er formlega lagt fyrir Alþ.,þm. ríkisstj.- flokkanna er sent frv. til þess að eiga þess kost að kynna sér það áður en það er lagt formlega fyrir. Þetta var gert nú á mánudaginn. Og ég taldi rétt að hv. þm. Alþfl., sem höfðu verið stuðningsmenn málsins og greitt atkv. með því, gagnstætt þm. Alþb., fengju frv. einnig til athugunar. Í rauninni skiptir þetta harla litlu máli. Hins vegar brýst fram hjá hv. þm. einhver afbrýði yfir því að þeir hafi verið settir skör lægra en þm. Alþfl. En það stafar einfaldlega af því að þm. Alþfl. hafa stutt þetta mál.

Ég vil líka taka það fram að í rauninni hefði verið unnt að ganga frá samningum við Elkem Spigerverket á grundvelli gildandi laga, vegna þess að lög um járnblendiverksmiðjuna heimila að semja við Union Carbide eða annan aðila. Út af fyrir sig hefði kannske ekki verið þörf á því að fá lagaheimild til þess nú. Ég hef hins vegar frá upphafi talið sjálfsagt að málið kæmi til Alþ. til endanlegs samþykkis, eins og nú hefur verið gert. Þess vegna hefur verið samið nýtt frv. sem að grundvelli til er samhljóða hinum fyrri lögum, en hins vegar er bætt inn í frv. ýmsum fyllri ákvæðum til frekari skýringar, því að það kom fram, bæði í viðræðum við Union Carbide, eftir að lögin voru samþ. í fyrra, og eins nú í samningunum við Elkem Spigerverket, að það væri æskilegt að taka inn í lögin nú ýmis ákvæði sem gengið hafði verið út frá áður, en ekki voru sett í lögin. Eins og komið verður að þegar gerð verður grein fyrir málinu, hafa nokkrar breytingar gerst, m.a. að því er raforkusamninginn snertir, þannig að í heild sinni gefur hann okkur sömu tekjur eða svipaðar tekjur að áliti Landsvirkjunar og fyrri samningur, en greiðslutilhögun og verði í byrjun samningstímabils og síðar hefur verið nokkuð víkið til.

Ég skal ekki fara frekar út í efni málsins nú, en aðeins taka það fram að eftir að svo fór um hið bandaríska fyrirtæki Union Carbide, sem iðnrh. Alþb. hafði valið sér til samfélags í þessu máli, þá vænti ég þess að hinn nýi félagi, sem núv. ríkisstj. hefur valið sér til samfylgdar og samfélags í þessu efni, þetta norska fyrirtæki, reynist traustara en hitt reyndist, sem iðnrh. Alþb. hafði valið.