15.12.1976
Efri deild: 22. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (860)

11. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég var til kvaddur í önnum Geirs Gunnarssonar, sem er í fjvn., að sitja fundi allshn. Ed. er hún fjallaði um frv. það er hér um ræðir. En svo vill til að reynsla mín og ég hygg nokkurra þm. annarra af önnum þingsins þessa dagana fyrir jól virðist stangast allmjög á við álit sumra ráðh., a.m.k. þess ráðh. sem lýsti því yfir í Sþ. nú fyrir stundu, að nógur tími gæfist þm. til þess að lesa nú og kynna sér frv., — viðamikið frv. sem lagt hefur verið fram í Nd. og á að taka til umr. og afgreiðslu til nefndar fyrir jól.

Í allshn. var fjallað um þetta frv., eins og hv. frsm. allshn. greindi frá, eftir því sem tími gafst til, en hvergi nærri að mínu viti eins og þurft hefði, enda kemur það fram í grg. n. É g tel að sökin á því lendi tæpast á allshn. Nd., heldur hafi hér verið um verkstjórnaratriði að ræða. Ekki ber að lasta það þótt allshn. Nd. hafi tekið sér langan tíma til þess að fjalla ítarlega um þetta merkilega frv. Sökin á því, að Ed. fékk frv. ekki fyrr til meðferðar, hlýtur að liggja á einhverjum öðrum, hér hafi eins og svo oft áður brostið verkstjórn af hálfu þeirra sem eiga að leggja málín fyrir Alþ. og stjórna vinnubrögðum alþm.

Ég get ekki réttlætt vinnubrögðin, þessi skjótu og flausturslegu vinnubrögð í allshn. Ed., með því að við í þessari d. getum tekið syo mikið mark á góðum vinnubrögðum allshn. Nd. Á hinu hlýt ég að taka mark, sem hæstv. dómsmrh. hefur sagt um þörf þess að fá frv. þetta nú samþ. sem lög. Þau rök tek ég gild.

Í fjarveru Geirs Gunnarssonar, sem á sæti í allshn., eins og ég sagði áðan, en hefur ekki tóm vegna anna í fjvn. til þess að fjalla um þetta mál í allshn. af því að alþm. hafa miklu meira að gera þessa daga fyrir jól en hæstv. iðnrh. taldi í Sþ. áðan, — í fjarveru hans hlýt ég að gera grein fyrir því, að við munum bera fram við 3. umr. till. Svövu Jakobsdóttur, sem hún flutti í allshn. Nd. varðandi réttarvörslu gæsluvarðhaldsfanga. Ég hefði raunar gjarnan viljað að hæstv. dómsmrh. gerði grein fyrir afstöðu sinni til þessarar till., þar sem mér virðist að ekki skakki öðru en því, að í till. Svövu er gert ráð fyrir því að skipan þessarar réttargæslu sé skylda þegar svo beri til að ekki tefjist af því meðferð málsins, en í frv. er gert ráð fyrir því, að það sé á valdi dómsmrh. eða dómara hvort slík réttargæsla fæst. Það kom fram á fundum allshn., að enda þótt menn sæju fram á að e.t.v. gæti till. Svövu, ef að lögum yrði, leitt til þess undir vissum kringumstæðum og við gefnar aðstæður, þegar um óprúttna menn væri að ræða og harðfylgna réttargæslumenn þeirra, að mál yrðu erfiðari í meðförum, en aftur á móti og á hinn bóginn kom fram það álit, að hætta gæti verið það mikil á því að óvarlega væri farið að því að hneppa menn í gæsluvarðhald að þarna þyrfti að gjalda varhug við. Ég er einn af þeim sem óttast að þarna geti heill og hamingja þegnanna verið að veði, einkum og sér í lagi ef það ætti okkar að bíða að fá refsiglaðari dómsmrh. heldur en þann sem við nú höfum, sem ýmsir kannske óska sér, en ég bið guð að forða okkur frá. Við munum af þeim sökum bera þessa till. Svövu fram hér í d. En gjarnan vildi ég að hæstv. dómsmrh. gæti notað til þess nokkrar mínútur að gera grein fyrir afstöðu sinni til þessarar till. í áheyrn okkar áður en að því kemur.