15.12.1976
Efri deild: 22. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

11. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að verða við tilmælum hv. þm. Stefáns Jónssonar og láta í té álit mitt á brtt. þeirri sem Svava Jakobsdóttir flutti í Nd. Þess er þó að geta að hún er ekki varðandi það frv. sem er hér til meðferðar, en þessi mál eru nú rædd að meira eða minna leyti í samhengi, heldur varðar hún frv. um breyt. á lögum um meðferð opinberra mála. En ég vil í því sambandi einmitt undirstrika það sem ég sagði áðan, að það er alveg ljóst að þar er ekki um endanlegar brtt. réttarfarsnefndar að ræða, heldur má vænta þess að hún taki öll lögin um meðferð opinberra mála til rækilegrar endurskoðunar, og þær tillögur koma á sínum tíma. En ég greiddi atkv. gegn þessari brtt. Svövu Jakobsdóttur, ekki af því að ég telji ýkjamikinn mun á því hvort hún er samþ. eða samþ. er sú till. sem nú er í frv. En sú till. er komin í frv. skv. till. lagadeildar Háskólans, var sett inn eftir ábendingum þaðan, og þeim þótti réttur manns, sem væri í rannsókn, nægilega tryggður með þeim ákvæðum, að það væri lagt á vald dómara að meta hvort þörf væri á því að skipa honum réttargæslumann eða ekki. 1 brtt. hv. þm. Svövu Jakobsdóttur var þetta orðað sem skylda, en þó með þeim fyrirvara að í framkvæmdinni býst ég ekki við að á þessu yrði í sjálfu sér mikill munur, hvort orðalagið sem væri. (Gripið fram í.) Þegar t.d. svo er komið að um gæsluvarðhald er að ræða, þá er það alltaf dómari sem úrskurðar, en það, sem þessi grein á við, er um rannsókn fyrir rannsóknarlögreglumanni, að eftir atvikum eigi að beita þeim ákvæðum í 80. gr. laga um meðferð opinberra mála við þá utanréttarrannsókn. En það er lagt alveg á vald dómara að ákveða hvort þörf sé á því, en ekki bara farið eftir óskum hlutaðeigandi, enda gæti verið að það væri erfitt að fullnægja því og gæti verið til að tefja ef það væri alltaf hlaupið eftir duttlungum í því efni. En það, sem ég legg áherslu á, er að þessi litla breyt., sem ég tel ekki á neinn hátt lítils háttar, á hvorn veginn sem hún er, haggar ekkert við þessu frv. sem hér er um að ræða, og það er aðalatriðið fyrir mér að fá það í gegn, þannig að það geti komist í gildi. En þó að t.d. frv. um meðferð opinberra mála, sem er að vísu fylgifiskur þessa frv., þyrfti vegna samþykktar á breyt. hér að fara til Nd., þá er þar ekki neinn stórkostlegur skaði skeður. En auðvitað vil ég samt mæla með því að fá þetta óbreytt eins og það er, sem sé að láta þetta standa.