15.12.1976
Efri deild: 22. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

127. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Samkvæmt gildandi lögum um tekjustofna sveitarfélaga skal leggja fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignamati. Skattur þessi skal miðast við fasteignamatið og vera 1/2% af fasteignamati íbúða og íbúðarhúsa, en 1% af öðrum fasteignum. Þennan fasteignaskatt er hverju sveitarfélagi skylt að leggja á, en auk þess er sveitarstjórn heimilt að innheimta álag á fasteignaskatt, en álagið má þó ekki vera hærra en 50%. Þetta er sem sagt heimild, en skylda að leggja hið umrædda 1/2% eða 1% á.

Nú er í lögum svo ákveðið að þar til nýtt fasteignamat hafi tekið gildi skuli ráðh. heimilt að ákveða fyrir 15. nóv. ár hvert að gjöld næsta árs, sem reiknuð eru sem hlutfall af fasteignamati, megi breytast í hlutfalli við breytingu byggingarvísitölu. Sú heimild hefur verið notuð undanfarin ár, þannig að með þeirri ákvörðun, sem tekin var og auglýst 15. nóv. s.l. um milli 23 og 24% hækkun, mundi sú hækkun að óbreyttum lögum á næsta ári vera aðalmatið að viðbættu 236% álagi. En þó að þessi tala sé notuð í frv. vil ég taka það skýrt fram að hér er um það að ræða að fasteignamat og fasteignaskattar mundu hækka um rúm 23% á næsta ári.

Nú voru á síðasta þingi samþykkt lög um skráningu og mat fasteigna og er í þeim gert ráð fyrir að nýtt fasteignamat skuli taka gildi 1. des. 1976. Í tilkynningu frá fjmrn. 3. des. var tilkynnt að þetta nýja matsverð fasteigna skuli taka gildi frá og með 31. des. n.k. Einnig er tekið fram í þessari auglýsingu fjmrn. að yfirfasteignamatsnefnd hafi ákveðið svokallaðan framreikningsstuðul fyrir matsverð fasteigna 51/2, en í tilkynningu eða bréfi frá yfirfasteignamatsnefnd kemur þó fram, eins og raunar er einnig nefnt í auglýsingu fjmrn., að hækkunin verður nokkru meiri í einstökum sveitarfélögum heldur en þessi almenna hækkun matsins. Ef ekkert væri að gert mundu fasteignaskattar hækka mjög verulega á næsta ári vegna þessa nýja fasteignamats og sveitarstjórnir, sem ekki óskuðu eftir slíkri hækkun, fengju ekki við það ráðið þar sem þeim er skylt að leggja á þessa ákveðnu hundraðstölu af fasteignamati. Af þessum ástæðum er frv. flutt sem hér liggur fyrir, og er aðalefni þess að fasteignaskattar skuli á næsta ári ekki verða hærri en þeir hefðu orðið samkv. gildandi mati fasteigna. Það þýðir að fasteignagjöld skuli ekki hækka um meira en rúm 23% á næsta ári frá því sem verið hefur á þessu ári.

Svo er annað ákvæði einnig í þessu frv., í 1. gr., sem leiðir af breytingu á framkvæmd fasteignamats. Í þeim lögum, sem giltu þangað til lögin voru sett á s.l. vori, lögum um fasteignamat frá 1963, var svo ákveðið að fasteign skyldi tekin í mat þegar hún væri fullgerð. M.ö.o.: fasteignaskatt mátti þá ekki leggja á fasteign fyrr en hún var fullgerð, þá fyrst fór fasteignamatið fram. Með hinum nýju lögum verður breyting á þessu, og samkv. bréfi, sem formaður yfirfasteignamatsnefndar hefur ritað félmrn., er gert ráð fyrir því að mannvirki í byggingu verði að jafnaði metin einu sinni á ári, miðað við ásigkomulag þeirra þá. Þetta þýðir að nú má búast við því að hús í smíðum verði metin fasteignamati og þegar það fasteignamat liggur fyrir, þá er um leið orðið samkvæmt tekjustofnalögunum skylt að leggja fasteignaskatt á þá eign. Þetta gæti leitt af sér fyrir t.d. ungt fólk, sem er að koma upp yfir sig íbúð, tryggja sér íbúð með ærinni fyrirhöfn og tilkostnaði, að þegar það er í miðjum klíðum, húsið kannske fokhelt eða eitthvað lengra komið, þá er fasteignin metin og fasteignaskattur lagður á húsið ofan á öll þau önnur útgjöld sem þau þurfa að standa undir. 1. gr. þessa frv. miðar að því að koma í veg fyrir slíkt. Með henni er ákveðið að eigi skuli þó heimilt að leggja fasteignaskatt á fasteignir fyrr en þær hafa verið teknar til afnota eða eru fullgerðar. Er þetta í samræmi við túlkun og fyrri framkvæmd.

Ég vænti þess að þetta frv. fái góðar undirtektir hér, og það er nauðsynlegt að það fái afgreiðslu á Alþ. nú áður en þinghlé hefst.

Ég vil taka það fram að vafalaust eru margir sveitarstjórnarmenn þeirrar skoðunar að sveitarstjórnir ættu að hafa rýmri heimildir til að leggja á fasteignaskatta en mundi vera samkvæmt þessu frv. Um það eru vafalaust mjög skiptar skoðanir meðal sveitarstjórna. En ég tel að sú n., sem fjallar um verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og tekjustofna sveitarfélaga í sambandi við það, verði að taka þau mál í heild til meðferðar og tillögugerðar, en ekki sé ástæða til að rýmka slíkar heimildir nú.

Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.