15.12.1976
Neðri deild: 23. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

31. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Frsm. (Gunnlaugur Finnsson):

Herra forseti. Ég hef raunar ekki miklu við að bæta í þessari umr. Ég vildi þó aðeins nefna, að það, sem kom fram í máli hv. þm. Ellerts B. Schram, 11. þm. Reykv., kom til umr. í n. En ég hygg að hann sé á sama máli og við, sem að nál. stöndum, að hér sé um að ræða mál sem ekki á heima í lagasetningu, heldur í reglugerðarákvæðum frá viðkomandi rn. Alveg á sama hátt eins og skólamannvirki eru hönnuð, þar eru sett ákveðin norm, á sama hátt hlýtur þetta að vera hlutverk rn., að ákveða fjölda barna á hverja einingu flatarmáls, og ég geri mér grein fyrir því og vek athygli á því að hér er um mjög vandasamt mat að ræða: annars vegar að fjöldi sé ekki þrúgandi, þannig að börn séu frjáls þar sem þau eiga að dvelja, en ekki að geymast, og geti sinnt sínum hugðarefnum, hins vegar að við sníðum okkur stakk eftir vexti á þann veg að við reisum ekki íburðarmiklar hallir yfir þessa starfsemi, heldur reynum að hafa þær eins ódýrar og unnt er, en þó svo vel úr garði gerðar að þær nái tilgangi sínum.

í annan stað vil ég segja það, að ég er ekki alveg sammála hv. þm. Svövu Jakobsdóttur um það að stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hafi verið andvíg þessari breytingu eða a.m.k. ekki samþ. hana. Það, sem ég hef heyrt frá stjórn Sambandsins um þetta atriði, er að hún hefur óskað eftir skýrari tekjuskiptingu og verkefnaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga og eitt af þeim verkefnum, sem þar ættu að hafa forgang, væri einmitt rekstur dagvistunarstofnana. Og mér fannst að skilja mætti af máli hennar að með því að leggja niður ríkisstyrkinn væri dregið mjög úr fjárveitingum til dagvistunar í heild. Hér er hreinlega um mat að ræða á því hvort ríkið greiðir þetta eða hvort það eru sveitarfélögin sem greiða það. Að sjálfsögðu er sveitarfélögunum falin ábyrgð. Sveitarfélögin fengu tekjur á móti, en samkvæmt núgildandi lögum eru þau ekki skyldug til þess að sinna þessu verkefni. Það er rétt að hafa þetta í huga. En ef við lítum á þróunina, þá er hún sú, að sveitarfélögin hafa í auknum mæli sinnt þessum verkefnum, og ég hygg að sú verði þróunin áfram. Ég skal viðurkenna að fjármagn er af skornum skammti. Það var uppi sú stefna í fyrra að málefnið yrði að öllu leyti fært yfir til sveitarfélaganna, en ég taldi eðlilegt á þessu stigi að ríkið héldi áfram að vera hvetjandi aðili fyrir sveitarfélögin eða einstök samtök að reisa dagvistarstofnanir. Og enda þótt ég geri ráð fyrir því að flestir harmi það að ekki er meira fjármagn til skipta, þá verð ég þó að vekja athygli á því, að málaflokkar hafa ákaflega misjafnt vægi, og miðað við lagasetninguna 1973, sem kemur til framkvæmda með fjárveitingum 1974 upp á 40 millj. til stofnkostnaðar, hefur þessi málaflokkur þó það breyst á þessum árum frá 1974 til 1977, miðað við það sem nú hefur verið samþykkt í fjárlagagerð, að þetta fjármagn hefur þó aukist um 175% frá 1974, þ.e.a.s. hækkað í 110 millj. Að vísu var mjög lítil hreyfing á milli áranna 1975 og 1976, en tæp 70% hækkun er þó á þessu framlagi milli áranna 1976 og 1977 miðað við það sem nú er áformað. (Gripið fram í: Er hv. þm. að tala um stofnkostnaðinn?) Um stofnkostnaðinn, eingöngu um stofnkostnaðinn, en ekki rekstrarkostnaðinn. Rekstrarkostnaðurinn er alveg sér á báti, þar hefur þetta verkefni verið fært yfir til sveitarfélaganna og það að fallast á þessa yfirfærslu er á engan hátt hægt að túlka sem fráhvarf frá þeirri stefnu að mínu mati sem mörkuð var af vinstri stjórninni.