15.12.1976
Sameinað þing: 33. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

112. mál, landhelgismál

Flm. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Það fór eins og mig grunaði, að lítið var að græða á ræðum hæstv. ráðh. og annarra talsmanna ríkisstj. um það mál sem hér er til umr., þ. e. a. s. um það hvort nú eigi að semja við Efnahagsbandalag Evrópu um gagnkvæm fiskveiðiréttindi eða ekki.

Ég ætla á þeim örfáu mínútum, sem ég hef hér til umráða, að víkja að nokkru af því sem kom hér fram hjá talsmönnum ríkisstj.

Hvað sögðu utanrrh. og sjútvrh. um þessa meginspurningu? Þeir hafa báðir gefið yfirlýsingu um að þeir vilji ræða við Efnahagsbandalagið um gagnkvæman veiðirétt, þ. e. a. s. að veita útlendingum rétt til veiða í okkar fiskveiðilandhelgi gegn því að við fáum að veiða í þeirra landhelgi. Um þetta atriði vildu þessir háu herrar ekkert ræða í þessum umr. En það er einmitt þetta sem spurt er um í dag: Hvað meina þessir hæstv. ráðh. með yfirlýsingum sínum um þennan gagnkvæma fiskveiðirétt? Það er það sem þjóðin vill fá að vita.

Hæstv. utanrrh. segir að við leggjum til með okkar till. að ekki verði rætt við fulltrúa annarra þjóða. Slíkt er auðvitað hreint út í hött. Þetta sama sagði hæstv. sjútvrh, að við vildum ekki ræða við aðrar þjóðir. Því hefur verið marglýst yfir hér á Alþ. í umr. um þetta mál að um það atriði að mæta til samningaviðræðna og ræða við erlenda fulltrúa stendur ekki deila. Deilan stendur um hitt, hver sé stefna okkar í þeim viðræðum sem eiga að fara fram. Viljum við fallast á gagnkvæman veiðirétt eða viljum við það ekki? Það er þetta sem við heimtum að fá svar við. En það er þetta sem ráðh. vilja ekki svara. Það er þetta sem formaður utanrmn., Þórarinn Þórarinsson, fæst ekki heldur til að svara. Hitt er auðvitað útúrsnúningur, að það sé einhver ókurteisi í samningaviðræðum við útlendinga að mæta til viðræðna við þá með stefnu í því máli sem ræða á um. Sannleikurinn er sá, að ég hygg að nær allir, sem standa í samningaviðræðum, hafi áður en þeir mæta til viðræðna gert upp við sig hver þeirra stefna á að vera. En hér er það flokkað andir kurteisi að koma að samningaborðinu um jafnalvarlegt mál eins og hér er um að ræða vitandi ekki neitt, hafandi ekkert að segja, þykjast ætla að hlusta, en vera þó að ræða um þessa gagnkvæmu veiðiréttindasamninga sem þeir hafa gefið yfirlýsingar um.

Þórarinn Þórarinsson, formaður þingfl. Framsfl., sagði að við í stjórnarandstöðunni værum með sífelld svikabrigsl á hendur ríkisstj. Þetta er mesti misskilningur. Frá okkar hálfu hafa ekki komið fram nein svikabrigsl. Ég hef tilfært ummæli þeirra sjálfra um það að hverju þeir stefna. Hvað sagði utanrrh., flokksbróðir hv. þm. Þórarins Þórarinssonar, þegar hann ræddi um þetta mál nýlega á fundi í Framsóknarfélagi Reykjavíkur? Blað ritstjórans, Tíminn, segir að ráðh. hafi sagt: „Engir samningar við Efnahagsbandalagið“ — það var auðvitað stórt prentað í blaðinu, en svo stóð undir: „nema um gagnkvæm veiðiréttindi.“ Já, nema um gagnkvæm veiðiréttindi. Er óeðlilegt að um það sé spurt: Hver eru þessi gagnkvæmu réttindi sem hér er verið að tala um? Að hverju er stefnt?

Hæstv. sjútvrh. reyndi einnig að drepa málinu á dreif eins og jafnan áður, víkja sér undan því, sem um var spurt, og ræða það, sem till. fjallar um. Þess í stað þuldi hann hér gamlan lestur um að ég hefði verið á móti útfærslunni í 200 mílur. Hann las hér upp örlítinn kafla úr viðtali við mig varðandi þetta mál þegar átökin um 50 mílurnar voru sem mestar í septembermánuði 1913. Það er e. t. v. fróðlegt að heyra næstu setningar á eftir sem hæstv. ráðh. vildi ekki lesa upp, en voru í þessu viðtali við mig. Þar segir orðrétt: „Ég tel að við íslendingar höfum þegar skipað okkur svo greinilega, að ekki verði um villst, á bekk með þeim þjóðum sem lengst vilja ganga í landhelgismálinu. Ég tel þó að sjálfsögðu vel koma til mála að Alþ. samþ, yfirlýsingu um afstöðu okkar til 200 mílna landhelginnar og að 50 mílurnar séu aðeins áfangi á þeirri leið. En ég legg enn og aftur áherslu á það, að 50 mílurnar eru verkefni dagsins.“

Þannig lá málið fyrir. Ég var að leggja áherslu á það að við stæðum í miðri baráttunni fyrir 50 mílunum sem blað hæstv. sjútvrh., Matthíasar Bjarnasonar, sagði að væri tapað stríð við breta þá og vildi gefast upp. Ég benti á að það dygði lítið að gefa út yfirlýsingu um að færa út í 200 mílur og fylgja því ekki eftir á annan veg en þann að heimila síðan öllum að veiða upp að 12 mílum eftir sem áður, eins og framkvæmdin var nú. Það, sem máli skipti þá, var að halda út í átökunum um 50 mílurnar sem voru áfangi á brautinni til 200 mílna. Um þá meginstefnu var aldrei neinn ágreiningur.

Það, sem fyrir liggur að mínum dómi að loknum þessum umr. nú, er að enn standa málin þannig að fulltrúar ríkisstj. fást ekki til þess að skýra frá því hver þeirra stefna er varðandi þennan gagnkvæma veiðirétt. En þeir ætla eigi að síður að halda áfram samningaviðræðum við þann sem er að reyna að þrýsta sér inn í okkar landhelgi. Þeir vilja ekki svara því enn hvort þeir geti hugsað sér að hleypa breskum togurum inn í okkar landhelgi aftur gegn því, að okkar skip fái að veiða síld í Norðursjó, eða gegn því, að okkar skip fái að fara yfir miðlínuna við Grænland. Um þetta fást þeir ekki til að tala. En þeir vilja ganga til samningaviðræðna við erlenda aðila um þessi mál stefnulaust Þegar menn hafa í huga söguna sem hefur verið að gerast í okkar landhelgismáli, þá er eðlilegt að menn séu óttaslegnir þegar svona er haldið á málum. Það þýðir auðvitað lítið fyrir fulltrúa Framsfl. hér, Þórarin Þórarinsson, að reyna að hughreysta menn með því að þeir geti treyst Framsfl., hann hafi alltaf sýnt örugga forustu í landhelgismálinu, hann hafi reynt að dempa nokkuð niður kröfur alþb.-manna og sósíalista þegar þeir hafi heimtað of mikið, en hann hafi líka reynt að koma í veg fyrir að Sjálfstfl. sviki. Þetta var það sem hv. þm. sagði. En landsmenn muna að Framsfl. samþ. undansláttarsamninginn við vestur-þjóðverja, — samninginn sem við verðum að súpa seyðið af enn, þann samning sem tryggir þeim veiðirétt í íslenskri fiskveiðilandhelgi í næstum heilt ár eftir að vestur-þjóðverjar hafa sjálfir tekið sér 200 mílna landhelgi. Landsmenn muna það líka að Framsfl., sjálfur Þórarinn Þórarinsson, stóð að því að bjóða bretum veiðiheimildasamning til tveggja ára. Þeir fengu bara ekki að koma því í gegn. Ef sá samningur hefði náð fram að ganga, þá hefðu bretar fullan veiðirétt í íslenskri landhelgi í dag og fram eftir næsta ári Menn vita það af fenginni reynslu að það er valt að trúa á festu Framsfl. í þessu máli frekar en ýmsum öðrum.

Nei, hér er vissulega um alvarlegt mál að ræða og það er eðlilegt að þess sé krafist að ríkisstj. segi hreint til um það hver hennar stefna er. Tími minn er nú búinn. Við ykkur, góðir hlustendur, vil ég segja að lokum: Það er ykkar skylda allra að fylgjast vel með framvindu landhelgismálsins. Það er ykkar skylda að veita Alþ. og ríkisstj. aðhald í því máli. Ef þið látið alþm. og ráðh. skilja að landhelgismálið sé ykkur slíkt mál málanna að það muni ráða úrslitum um afstöðu ykkar til manna og flokka, þá getið þið bjargað landhelgismálinu. En ef ykkur tekst ekki að láta þá skilja þessi sannindi, þá er líka landhelgismálið í hættu. Nú þarf krafa ykkar, allra landsmanna, að vera þessi: Engir nýir samningar um veiðiheimildir útlendinga í íslenskri fiskveiðilandhelgi. 200 mílurnar eiga að vera fyrir okkur eina. — Góða nótt.