19.10.1976
Sameinað þing: 6. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

240. mál, hafnarmál Suðurlands

Jón Helgason:

Herra forseti. Ég vil taka undir þakklæti til samgrh. fyrir þessa skýrslu og það fyrirheit hans að reynt verði að fá fjárveitingu nú til þess að halda áfram starfi þeirrar n. sem rannsaka á hafnarstæði á suðurströndinni. Ég vil leggja sérstaka áherslu á að þessu starfi verði haldið áfram, enda þótt okkur vaxi e.t.v. eitthvað í augum þær upphæðir sem bygging nýrrar og vandaðrar hafnar á suðurströndinni hlýtur að kosta. Það er nauðsynlegt að vita hvaða möguleikar þarna eru fyrir hendi, og við vitum aldrei hvenær tækifæri getur komið til þess að hefjast handa. Aðstæðurnar geta breyst þannig að slíkt tækifæri fáist.

Hér er ekki tími til að ræða þetta frekar. En ég vil aðeins skýra frá því að nokkrir áhugamenn í Mýrdal hafa beitt sér fyrir því að hafnar væru lendingarbætur við Dyrhólaey til þess að eitthvað gerðist þar meðan verið væri að rannsaka þetta mál. Það var unnið þar nokkuð í haust, smávegis vitanlega, fyrir fjárveitingu sem sýslunefnd Vestur-Skaftafellssýslu veitti í því skyni, til þess að skapa þar betri möguleika fyrir smábáta að komast á sjó. Ég tel að þetta sé svo athyglisvert framtak hjá þessum mönnum að það sé nauðsynlegt að styðja það frekar, og ég vænti þess að Alþ. muni líta með velvilja á beiðni um slíkt þegar hún kemur fram.