20.10.1976
Efri deild: 5. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

31. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um byggingu og rekstur dagvistarheimila, eins og það er nú kallað, — dagvistarheimila fyrir börn er í sjálfu sér minna mál heldur en það kannske lítur út fyrir að vera við fyrstu sýn. Það hefur inni að halda nokkrar og ekki stórvægilegar breytingar á lögum um dagvistarheimili, — breytingar sem gera þarf fyrst og fremst til samræmingar við þær breytingar á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga sem ákveðnar voru um síðustu áramót. Það hefði í sjálfu sér verið hægt að flytja frv. til l. um breyt. á eldri lögum, en hentugra þótti og jafnframt aðgengilegra fyrir þm. væntanlega að flytja frv. í heild.

Með hinni breyttu greiðslutilhögun var stefnt að því að flytja ákveðin verkefni til sveitarfélaga, en hins vegar var ekki stefnt að því að draga úr framlagi til verkefnanna út af fyrir sig. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa áfram ákvæði í lögum um rekstrarfyrirkomulag til dagvistarheimila. Er hér gert ráð fyrir að heildarframlagið haldist innan sömu marka og áður, en þá greiddi sveitarsjóður helming rekstrarframlags á móti ríkissjóði, en nú er gert ráð fyrir að sveitarfélögin ein greiði rekstrarframlag jafnframt því sem þeim var séð fyrir tekjuauka, eins og kunnugt er. Hér er einnig verið að tryggja áframhaldandi stuðning opinberra aðila, nú sveitarfélaga, við rekstur dagvistarheimila sem rekin eru af öðrum aðilum en sveitarfélögum.

Um skilgreiningu á einstökum atriðum, sem eru í sjálfu sér ákaflega einföld, vil ég leyfa mér að vísa til þeirra aths. sem fylgja þessu frv., en legg að öðru leyti til að frv. verði að umr. lokinni vísað til hv. félmn.