16.12.1976
Neðri deild: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

100. mál, söluskattur

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég vil nú í upphafi lýsa yfir furðu minni og andúð um leið á þeim málflutningi sem hér hefur verið hafður í frammi í þá átt að gera þetta mál einungis að atkvæðamáli og þar með tilefni til að koma höggi á pólitíska andstæðinga. Ég vil ekki líta á þetta mál sem slíkt, þó að það megi segja e. t. v. að öll mál, sem við erum að fjalla um hér á Alþ., séu atkvæðamál. Mergurinn málsins er auðvitað sá, að til þessa svokallaða olíustyrks var stofnað upphaflega til þess að koma til liðs við það fólk í landinu sem stórhækkað olíuverð gerði svo til ókleift að hita upp sín hús með skaplegum kostnaði. Hitt vil ég segja einnig, að hvort þetta frv., sem hér liggur frammi til umr., verður samþ. eða ekki, skiptir í rauninni ekki meginmáli, heldur það, hvort fjármagnið verður veitt eftir öðrum leiðum til þess að létta undir hitunarkostnaðinn hjá fólki sem kyndir hús sín með olíu.

Ég get vel tekið undir þau rök hæstv. viðskrh., að með þessum lögum, sem hafa verið sett til eins árs í senn, er svo sem ekkert 100% öryggi fengið. Það má alveg eins fella þau lög niður og þá stöndum við í sömu sporum og fyrr. En hins vegar vil ég segja það, að þegar markaður tekjustofn er felldur niður og málið afgreitt inn í fjárl. hvers árs, þá vill reyndin verða sú að hið upphaflega málefni gleymist og það verði látið fara eftir fjárhag ríkisins hverju sinni við afgreiðslu fjárl. hvort mikið eða lítið er veitt til málefnisins sem um er að ræða. Ég held að við hljótum að viðurkenna það, að með því að verja 600 og jafnvel þó það yrðu 700 millj. kr. til niðurgreiðslu á olíukostnaði, þá segir það ekki alla söguna eins og hún sýnist liggja fyrir, því að að sjálfsögðu greiða allir jafnt hinn almenna söluskatt, og það er staðreynd, að ef við miðum við 70 þús. manns sem þurfa enn að hita upp hús sín með olíu, þá nemur það fast að þriðjungi söluskattsstigsins, þ. e. 500–600 millj. Hinn raunverulegi styrkur til þessa fólks er því sáralítill, hann gæti hlaupið á einum 100 millj.

Það er talað um að eins og horfi nú muni olíustyrkur á einstakling hækka úr 9500 kr. upp í 10600 kr. Það er að vísu nokkur hækkun. En við skulum setja dæmið þannig upp, að það sé tvennt eða þrennt í heimili, aldrað fólk sem er kannske orðið tekjuminna en almennt gerist, og það fengi sem olíustyrk um 30 þús., — við skulum gera ráð fyrir þremur í heimili, 30 þús. kr. yfir árið. Þetta nemur e. t. v. 11/2 mánuði í olíuniðurgreiðslu. Hina 10–11 mánuðina þurfa þessir húseigendur að greiða olíuna fullu verði.

Ég minntist hér á aldrað fólk, og ég tel að við þurfum ekki hvað síst að hafa það þarna í huga. Víða úti um landsbyggðina, eins og hér raunar líka, býr aldrað fólk kannske í stærra húsnæði en það þarf með. En það þarf alla vega að hita upp sitt húsnæði og þegar þessi kostnaður er um 20 þús. kr. á mánuði fyrir meðalstórt húsnæði, — hann fer hærra, hann fer allt í 30 þús., ég veit persónulega dæmi um það, — þá er þetta orðin allt að því óbærileg byrði fyrir fjölda fólks sem við þetta þarf að búa. Þess vegna hefði ég haldið að þetta hlutfall milli olíugreiðslna og aftur framlags í Orkusjóðinn þyrfti að hækka. Mér er alveg sama um hvort það gengur í gegnum fjárlög eða hvort það gengur í gegnum sérstök lög. Ég tel það gilda einu.

Ég vil að sjálfsögðu einnig taka undir þau rök, að framlag í Orkusjóð, sem gengur til þess að leita að jarðhita og virkja jarðhita úti um landið, það eru peningar sem er vel varið og þessu fólki, sem nú býr við þennan mikla kostnað, óvefengjanlega til góða. En við skulum um leið gera okkur grein fyrir að þessi hitaveituvæðing úti um land, þar sem jafnvel jarðhiti er fyrir hendi, tekur sinn tíma. Hún tekur í mörgum tilfellum, að ég hygg, 5–10 ár, og á meðan á þessu tímabundna ástandi stendur tel ég skylt að koma til móts við þetta fólk með því að lækka olíukostnaðinn meira en hefur verið gert og margfalt meira en stefnt er að nú.

Ég vil líka minna á það meginatriði, sem nú blasir við, að það er gengið út frá því sem vísu að olía muni enn hækka um 10–15%. Þar með sé ég ekki annað en að sá olíustyrkur, sem horfur eru á að nú eigi að greiða, minnki frá því sem nú er, og það er hlutur sem ég get engan veginn sætt mig við né fallist á.

Nú hefur það komið fram hér að fjvn. hefur þetta mál til meðferðar og inni í fjárlagafrv. eru 600 millj. sem eiga að ganga til olíuniðurgreiðslna, en 1000 millj. til Orkusjóðs. Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir að þessar 600 millj. yrðu hækkaðar í 700 millj. Það bætir að vísu nokkuð, og það ber einnig að taka tillit til þess að á næsta ári verða um 9000 færri en í s. l. ári sem koma til með að njóta þessa styrks, þannig að meira ætti að koma á hvern einstakling. Engu að síður er það alveg ljóst, að eins og nú horfir er ekki stefnt að nóga miklum jöfnuði í þessum efnum. Það er í rauninni ótímabært að tala um jöfnuð hér því að mismunurinn er svo feikilegur. Það hefur verið staðhæft og það er rétt, það er 4–5 sinnum hærri hitunarkostnaður hjá fólki með olíukyndingu heldur en hinum, sem njóta hagkvæmustu hitaveitukjara, og þar kemur auðvitað fyrst og fremst inn Reykjavík sem á orðið rótgróið hitaveitufyrirtæki, þannig að verðið hér á höfuðborgarsvæðinu er langsamlega lægst. Frá hitaveitum úti um land, sem enn eru að standa undir stofnkostnaði og hafa lagt mikla fjármuni til stofnframkvæmda, þar er auðvitað hitakostnaðurinn eitthvað hærri.

Ég held sem sagt að það sé ekki aðalatriði hvort þetta lagafrv. verður samþ. eða ekki. En ég vil láta enn í ljós ugg minn, sem er á rökum reistur og á reynslunni, að þegar markaður tekjustofn er felldur niður og settur undir almenna fjárlagafgreiðslu, þá þýðir það að jafnaði að málinu er verr sinnt en áður. Ég get í þessu sambandi minnt á tappagjaldið okkar til vangefinna. Hefði það verið framlengt sem markaður tekjustofn, þá hefði það þýtt fjórum sinnum hærri fjárupphæð í þágu vangefinna heldur en nú er gert ráð fyrir í fjárl. Þetta er staðreynd. En ég er bjartsýn um það mál, því að ég vona að sá markaði tekjustofn verði framlengdur og verði tekinn upp aftur í sérstakri löggjöf.

Ég vil vænta þess að nú fyrir 3. umr. verði þetta mál tekið til endurskoðunar. Ef við ætlum að hafa þetta olíugjald meira en sýndarmennsku eina, þá gætum við unað við það að 1000 millj. rynnu til olíuniðurgreiðslna og hinar 600–700 millj. til Orkusjóðs. Veit ég vel að Orkusjóður hefur mörgum verkefnum að sinna sem við öll bindum miklar vonir við. En með tilliti til hinnar feiknalegu fjármögnunar sem á sér stað í orkumálum, þá fæ ég ekki séð að þessar 300–400 millj. þyrftu að vera teknar frá þessu verkefni við jarðhitaleit og jarðboranir úti á landi enda þótt við fengjum hér stærri hlutdeild af þessum 1600–1700 millj. heldur en nú er gert ráð fyrir. Ég mun því við afgreiðslu fjárl. við 3. umr. taka afstöðu eftir því hver verður meðferð fjvn. á þessu máli.