16.12.1976
Neðri deild: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

100. mál, söluskattur

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Ég get nú stytt mál mitt vegna þess að frá því að ég bað um orðið hefur hæstv. viðskrh. komið inn á ýmis efnisatriði í ræðu hv. 2. þm. Austurl. sem mig langaði til að gera aths. við, en ég get sleppt.

Ég vil þó segja það og get varla leitt það hjá mér varðandi brýningar hv. 2. þm. Austurl. og hv. 5. þm. Vesturl. á málefnaafstöðu okkar dreifbýlisþm. í Framsfl., að ég vildi gjarnan benda þeim á að lesa þær umr., sem hafa farið fram hér á Alþ. á a. m. k. tveimur síðustu þingum, og reynt að meta það hvort deilur um jöfnun á ýmsum kostnaði eru flokkspólitískar deilur eða ekki. Og ef þær eru flokkspólitískar, í hvaða flokkum þeir finna þá harðasta andstöðu við málefni dreifbýlisins. Ég efast ekkert um það fyrir mitt leyti og ég er ekki hræddur við að leggja það undir dóm og hvetja til að það verði lesið. Og ég segi þetta fyrst og fremst vegna túlkunar hv. 5. þm. Vesturl. á þeim orðum sem viðskrh. hafði hér áðan.

Ég veit að hér er um að ræða mjög mikið mat, annars vegar að meta það, hvort við eigum að hverfa frá Olíusjóðnum sem sérstökum sjóði og fella hlutverk hans undir fjárlög ríkisins, og mat á því, sem fram kom hjá síðasta ræðumanni, hvort við náum þeim tilgangi sem var upphaflega með lögunum um Olíusjóðinn, og hvort það er réttlætanlegt að gera þetta vegna einföldunar, hreinlega vegna einföldunar. Ég vil benda á það í þessu sambandi, að enda þótt lagasetning verði að eiga sér stað árlega í því formi sem verið hefur hingað til, þá er ekki tekist á um þetta mál endilega núna við setningu fjárl. Það var tekist á um þetta mál við setningu laganna í fyrra og eflaust í hittiðfyrra líka, en þó sérstaklega í fyrra.

Staðan hefur breyst. Það er rétt sem fram hefur komið hér, að upphaflega var Olíusjóðnum ætlað jöfnunarhlutverk fyrst og fremst, en ekki að vera frekari þáttur í uppbyggingu á sviði hitaveitumála og jarðborana vítt um landið. En hvers vegna kemur þessi staða upp? Síðan fyrstu lögin voru sett hafa farið fram mjög veigamiklar framkvæmdir, fyrst og fremst hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu, í Kópavogi, Hafnarfirði og Seltjarnarnesi. Og þá kemur spurningin: Eigum við þá áfram að nota Olíusjóðinn allan til að greiða niður olíu úti um landið og þá í auknum mæli, eða eigum við að verja honum til orkuframkvæmda til að flýta hitaveituframkvæmdum? Og þá verðum við að gæta að því að við verðum að reka það sem ég vil kalla skynsamlega pólitík. Við verðum að gæta að því að greiða ekki olíu það mikið niður að hitunarkostnaður íbúða með olíu verði minni en t. d. með rafmagni. Ég man ekki betur en í fyrra væri munurinn ekki mjög mikill. En hins vegar kemur stórt stökk þaðan og að hitunarkostnaði þess húsnæðis sem hitað er með jarðvarma. Þess vegna, þegar þetta hlutfall er ákveðið, þarf að líta í ýmsar áttir. Það þarf að sjálfsögðu að huga að hækkuðu verði olíunnar annars vegar, en þó að fara ekki svo hátt upp með niðurgreiðslurnar að þær verði ekki hvetjandi eftir sem áður að virkja bæði jarðvarma og raforku vegna húshitunar.

Ég vil sérstaklega taka undir það, að aðstöðumunurinn við að kynda með olíu og nota aðra orkugjafa er geysilega mikill. Það mun koma fram í þeim athugunum, sem Hagstofan hefur gert varðandi framfærslukostnað úti um landsbyggðina, að hitunarkostnaðurinn er sá þátturinn þar sem langmestu munar í framfærslukostnaði.

Það var drepið á það hér áðan af hæstv. viðskrh , að með þessari breytingu yrði markað í fjárl. hvernig þessu fjármagni yrði varið. Það verður gert varðandi orkuþáttinn. En hitt sýnist mér varðandi niðurgreiðslu á olíu eða kyndingarkostnaði með olíu, að þar þurfi annaðhvort að setja í fjárl. sjálf ákvæði um það hvernig olía verði greidd niður eða þá að setja um það sérstaka reglugerð, því að í lögunum verður enginn stafur til um það eftir að lögin frá 28. febr. 1976 eru úr gildi fallin. Og ég vil sérstaklega benda á það hér, að mér finnst ástæða til þess að þetta atriði verði vel skoðað.

Ég fyrir mitt leyti var ekki sammála því hvernig ráðstafað var niðurgreiðslunni á olíunni þegar það var gert í eina tíð, en samkomulag mun ekki hafa náðst um aðra leið. Ég held að þarna sé viðfangsefni sem eigi að ákvarða í reglugerð. Það er ekki víst, að það verði eina rétta leiðin að greiða niður ákveðna upphæð á hvern íbúa sem býr í slíku húsnæði. Ég tel ástæðu til að skoða betur hvort ekki er rétt að greiða niður sem prósentu af þeirri olíu sem keypt er til húshitunar, ef það finnst leið til að koma í veg fyrir misnotkun á kaupum til þessara þarfa. En ég met það svo í dag, að þetta hafi ekki verið skoðað til enda eða kannað til hlítar.

Það fer ekkert á milli mála að með útfærslu á nýjum hugmyndum um fjarhitakerfi í kaupstöðum og kauptúnum kann líka svo að fara að það verði ódýrara að kynda með svartolíu frá fjarhitastöðvum en jafnvel að nota rafmagn. Ég tel að þetta atriði þurfi líka að koma inn í dæmið. Og ég skal bæta einu við sem ég tel að þurfi að líta sérstaklega á. Við vitum að það er eingöngu vegna íbúðarhúsnæðis sem olía er greidd niður. Aðstaða sveitarfélaga, sem reka skóla, er feikilega misjöfn, og ég tel að það sé á það lítandi og raunar sanngirnismál að inn í slíka reglugerð verði tekin upp einhver jöfnun á milli sveitarfélaga varðandi hitun á opinberu húsnæði, svo sem skólabyggingum. En eftir að þessi leið hefur verið mörkuð, að taka þetta eina söluskattsstig inn í fjárlög og deila því svo út aftur, þá vil ég sérstaklega leggja áherslu á það, að ég tel að við þurfum að endurskoða úthlutunarreglurnar.

Ég skal, herra forseti, ekki hafa þetta mál mitt lengra. En ég vil þó aðeins víkja að þeirri hugmynd sem fram hefur komið hér, gagnrýni á að taka slíkan tekjustofn, eitt söluskattsstig, sem upphaflega er ákveðið til vissra nota, og fella það inn í fjárlög, taka það inn í hina almennu eyðslu ríkisins, skulum við segja, eða eyðslu og framkvæmdir. Mér sýnist málið standa þannig að við eigum þarna á milli að velja að nýta þennan tekjustofn eða draga saman í framkvæmdum, því að það er miklum mun erfiðara fyrir okkur að skera niður rekstrarkostnað ríkisins en að hægja ferðina í framkvæmdunum. Mitt mat er það að þetta komi niður á framkvæmdunum. Og ég vil vekja athygli á því sem kom fram í ræðu hv. 2. þm. Austurl., þar sem hann sagði að við værum að færa tekjustofninn yfir til þeirra sem heita vatnið hafa. Þetta er alls ekki rétt. Þeir þurfa ekki að hafa áhyggjur. Það eru þeir sem í dag hafa ekki heitt vatn, en eiga von í heitu vatni. Og ef við gætum sæst á hvert hlutfallið yrði milli þess hluta söluskattsstigsins, sem fer til niðurgreiðslu á olíu, og þess, sem fer til almennra framkvæmda, þá á sviði orkumála, þeirra flýtiverkefna vegna jarðborana og hitaveitna, þá tel ég rétt að nýta þennan tekjustofn og gefa þessum framkvæmdum sérstakan forgang.