16.12.1976
Neðri deild: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

100. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég get nú mjög stytt mál mitt vegna þess að hv. þm. Lárus Jónsson nefndi hér ýmis atriði sem ég hefði viljað koma að.

Mér fannst, þegar hv. þm. Lúðvík Jósepsson var að tala, eins og hann teldi að nú væri verið með þessu frv. að gera einhverja grundvallarbreytingu, fjármagnið færi nú eitthvað annað en það hefði áður gert. Ég veit að hv. þm. er kunnugt að þessi breyting er ekki nein grundvallarbreyting. Með gildandi lögum var þessu söluskattsstigi skipt milli þess að greiða niður olíu til húshitunar og hluti þess fór í Orkusjóð til þess að flýta hitaveituframkvæmdum. En hv. þm. leggur áherslu á að lög um sérstakan olíustyrk standi áfram og að meiru verði varið til styrkveitinga, og ég held að ég hafi tekið rétt eftir, að hann hafi sagt að það mætti greiða jafnvel helmingi hærri fjárhæð en nú er greidd. Ég veit ekki hvort menn hafa gert sér grein fyrir því, hvað svona lagað getur þýtt. Mér sýnist það liggja alveg í augum uppi að ýmsar fjölskyldur mundu sjá hag sinn í því að fara að gera út á olíustyrkinn.

Ég gerði hér grein fyrir tölum sem fjh.- og viðskn. fékk frá Þjóðhagsstofnun, og þetta eru tiltölulega einföld reikningsdæmi, hvað út kæmi. Ef við tökum t. d. 550 rúmmetra íbúð eða einbýlishús, það er ekkert óalgeng stærð, þá fæ ég út úr því dæmi að það mundi kosta að kynda það með núverandi olíuverði 178 500 kr. Ef við greiddum 20 þús. kr. í styrk og um væri að ræða 5 manna fjölskyldu, þá kæmu þarna 100 þús. kr. til frádráttar eða raunverulegur kostnaður við að kynda þetta hús fyrir þessa fjölskyldu væri 78 500 kr. Ef við reiknum svo út hvað kostar að kynda þetta sama hús frá hitaveitu, — og ég nota þær tölur sem við höfum frá Þjóðhagsstofnun og við höfum enga ástæðu til þess að rengja, — þá kostar það 59100 kr., þ. e. a. s. þarna munar 19 000 kr. Ég er hræddur um að það mundi draga úr áhuga ýmissa á því að fá hitaveitu, ef styrkurinn yrði svo hár, og ég vara við því að hækka þennan styrk of mikið.

Hér er látið eins og við séum aðeins að tala um 700 millj. kr. til þess að greiða niður olíuverðið. Raunverulega erum við að tala um 1700 millj., eins og hv. þm. Lárus Jónsson gerði hér að umræðuefni. Menn mega ekki gleyma því hvert hlutverk Orkusjóður leikur í þessu máli öllu. Það er ætlað að verja þessum fjármunum, — ég veit að vísu ekki fremur en aðrir hv. þm. hvernig skiptingin verður hjá Orkusjóði, það mun þingið sjálft ákveða við afgreiðslu fjárlaga, — en Orkusjóður ver þessu fjármagni, segjum 1000 millj., annars vegar til rannsókna og hins vegar verður þessu varið til beinna framkvæmda við hitaveitur. Ég legg áherslu á að breytingin frá því, sem nú er, er þess vegna ekki svo mikil að ástæða sé til að gera slíkt veður út af þessu eins og er gert hér í umr. Hæstv. viðskrh. benti á að lög nr. 9/1976 eru tímabundin, alveg eins og fjárl. eru, og hér er þess vegna ekki neinn grundvallarmunur á ferðinni.

Ég held að allir hv. þm. viti það líka og það hefur kannske einkum orðið ljóst nú á síðustu dögum, þegar við erum að fást við fjárl., að fjármagn til hinna ýmsu framkvæmda er takmarkað og það hlýtur að vera skynsamlegt að nota hluta af því, sem á að fara til þessara mála, nota það til hitaveituframkvæmda, en ekki eingöngu til niðurgreiðslna á olíu. Ég bendi þar enn á Orkusjóðinn.

Ég tek undir með hv. þm. Gunnlaugi Finnssyni, að það sé skynsamlegt að ákvæði um ráðstöfun þessa fjár komi í reglugerð. Ég er honum sammála um að sú aðferð, sem viðhöfð hefur verið um úthlutun fjárins, sé ekki sú heppilegasta, og það gefst þess vegna tími til þess að athuga betur hvernig þessu verði best fyrir komið. Hann talaði um að það þyrfti að athuga vel að koma í veg fyrir að niðurgreiðslur yrðu misnotaðar, ef olían yrði niðurgreidd vegna húshitunar. Það hafa verið uppi raddir um að jafnvel með núverandi fyrirkomulagi hafi verið hægt að misnota kerfið, og ég er ekki frá því að svo sé.

En í þessum umr. öllum liggur við að maður freistist til að halda að með því að koma upp hitaveitu sé jafnvel verið að auka óréttlætið í þjóðfélaginu. Maður freistast til að halda þetta við að hlusta á þann málflutning sem hér hefur farið fram. Menn verða líka að athuga það, að við náum aldrei fullkomnu jafnvægi í hinum ýmsu héruðum landsins eða að jafna öll þau lífsgæði, sem við æskjum okkur, milli allra héraða eða landshluta. Þeir, sem búa í einu héraði, þurfa kannske að greiða meira til þess að hita upp híbýli sín heldur en aðrir, en þeir búa kannske við einhver önnur gæði sem eru þeim mikilvægari eða eru mikilvægari þar heldur en þau eru hér, og svo öfugt. Þetta er háð mati hvers og eins.

Ég þarf ekki að hafa þessi orð fleiri. En ég tek undir það sem hv. þm. Lárus Jónsson benti á, að þessi leið, sem hér er valin, að flytja þetta inn í fjárl., er alla vega eðlilegri fyrir hv. Alþ. Þessu fé er ráðstafað hér á hv. Alþ., en ekki einhvers staðar úti í bæ.