16.12.1976
Neðri deild: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1338 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

100. mál, söluskattur

Frsm, minni hl. (Lúðvík Jósepsson) :

Forseti. Ég hafði hugsað mér að gera hér nokkrar aths. í tilefni af umr., sem hér fóru fram, en sé ekki ástæðu til þess að orðlengja um þetta mál að öðru leyti, því að mér er ljóst að hér er orðið um nauman tíma að ræða til afgreiðslu á þeim málum sem fyrir liggja og sennilega þurfa afgreiðslu. Ég sé að það vantar nú einmitt þá þm. í salinn sem tóku þátt í umr. og ég ætlaði að víkja máli mínu til, en ég held að ég verði að segja það, sem ég ætlaði mér að segja, þrátt fyrir það að þeir séu hér ekki.

Í fyrsta lagi vildi ég vekja athygli á því, að með þessu frv. er vissulega verið að gera stórfellda breytingu og grundvallarbreytingu, öfugt við það sem hér var sagt af hálfu ýmissa þeirra sem mæltu með frv., vegna þess að nú er lagt til að fella niður lagaákvæði um greiðslu á olíustyrk. Það er út af fyrir sig þekkt fyrirhæri hjá okkur að greiðslur til margvíslegra mála gangi í gegnum ríkissjóð og fjárlagaafgreiðslu. En það er ekkert bundið við það að um slíkar greiðslur séu engin lagaákvæði. Það er þvert á móti algengt að lög eru um tilteknar ráðstafanir, þar sem ákveðið er hvað skuli gera og hvað ekki, og síðan er áætlað fjármagn á fjárl. til þess að framfylgja lögunum. En hér er valin sú leið að fella úr gildi lagaákvæði um greiðslu á olíustyrk. Ákvæðin mega sem sagt ekki vera lengur bundin í lögum, að þetta skuli gert, heldur á þetta að vera einföld ákvörðun sem tekin er hverju sinni í sambandi við fjárlagaafgreiðslu.

Það er alveg augljóst mál að þegar svona er haldið á málum, þá er verið að gera þessa ákvörðun miklum mun óákveðnari en verið hefur og óbundnari á allan hátt. Ég vil alveg sérstaklega undirstrika þetta, svo að menn átti sig á því, að vitanlega var hægt, ef mönnum sýndist það vera rétt, að taka þennan gjaldstofn og láta hann renna í ríkissjóð og síðan yrðu útgjöld samkv. lögum færð í fjárl. eins og í öðrum tilfellum. En þá stóð eftir sem áður lagaleg binding um það að olíustyrkinn skyldi greiða. En nú á sem sagt að stíga skrefið svo langt í þessum efnum að það á að fella úr lögum ákvæði um greiðslu olíustyrksins, þannig að það sé engin lagaleg skuldbinding í þeim efnum eftir, en gjaldið á að renna í ríkissjóð og síðan verður að ráðast hverju sinni, hvort meiri hluti verður fyrir því í fjvn. og síðan hér á Alþ. að taka þennan hluta af tekjum ríkisins og verja honum í þessu skyni.

Ég vil segja það um þetta, að hér er greinilega verið að stíga eitt skrefið enn í þá átt að losa sig við þetta gjald, enda var svo sem verið að hleypa rökum undir það að svo mætti verða, sérstaklega í málflutningi hv. þm. Lárusar Jónssonar. Það var alveg augljóst af hans málflutningi, hans röksemdir eru þannig, að það eigi auðvitað að stiga næsta skrefið líka, því að hann taldi að það að verja þessum olíustyrk til framkvæmda í orkumálum og þá auðvitað sérstaklega til hitaveituframkvæmda, slíkar framkvæmdir væru slíkt hagsmunamál þeirra, sem þurfa að kynda hús sín með olíu, að þeir hlytu að vilja berjast fyrir því. Og beint framhald af þessum hugsanagangi er auðvitað að láta allt gjaldið ganga til þess. Hv. þm. áttar sig ekki á því, að þetta gjald hefur verið lagt á til þess að mæta tilteknu vandamáli sem er fyrir hjá því fólki sem verður að kaupa olíu til þess að kynda upp hús sín. Það þýðir lítið að ætla að mæta þeim vanda á þann hátt að segja: Við tökum allt gjaldið og ráðstöfum því í tilteknar góðar framkvæmdir sem koma vissum aðilum vissulega að gagni. — Auðvitað datt engum manni þetta í hug þegar gjaldið var lagt á. Þá voru allir á einu máli um það, sem stóðu að því að samþykkja gjaldið, —- það voru ekki allir þm., þeir þekktust, þm. Sjálfstfl., sem voru á móti þessari gjaldtöku strax frá upphafi, — þegar gjaldið samt var upphaflega lagt á, þá voru menn almennt á þeirri skoðun að það bæri að nota gjaldið til að lækka kostnaðinn hjá þeim sem þurfa að kaupa olíu, en ekki til þess að ráða bót á hitaveituframkvæmdamálum.

Ég hef sagt það hér áður og segi það enn, að ég tel framkvæmdir í hitaveitumálum sjálfsagðar, og þær eru jafnsjálfsagðar nú og þær hafa verið um langan tíma. En það hefur alltaf verið svo, að það hefur þótt sjálfsagt að greiða fyrir slíkum framkvæmdum með lánsútvegunum og sérstökum lántökum erlendis þegar svo hefur staðið á, og sú fyrirgreiðsla átti auðvitað að duga, en ekki grípa til þess að taka fé frá öðrum sem þurftu verulega á þessu fjármagni að halda. En mér skilst að það sé samstaða í stjórnarflokkunum um að stíga þetta skref nú, að ákveða að fella niður lög um greiðslu á þessu olíugjaldi. Það er greinilegt að þá er fullkomin óvissa um hvað við á að taka.

Sumir tala um það, að ef fjvn. ákveði eða geri till. um það til þingsins og þingið samþykki að taka hluta af þessu gjaldi og verja því til olíustyrks, þá geti væntanlega það rn., sem hefur haft með þessi mál að gera, viðskrn., búið til reglugerð um, hvernig gjaldinu skuli skipt, án allra lagaákvæða. Ég verð að segja það, að það er mjög óvenjuleg aðferð að ávísa t. d. svona í einu lagi í sambandi við mál eins og þetta 700 millj. kr. til rn. og svo ákveði viðskrn. með einfaldri reglugerð hvernig það vill deila þessari fjárhæð út. Ég fyrir mitt leyti t. d. vildi ekki eiga það undir hv. þm. Lárusi Jónssyni, miðað við þann málflutning sem hann hefur haft hér uppi, að hann setti reglur um þetta. Ég býst við að hann mundi ákveða, að þetta skyldi allt fara í eina eða tvær borholur, sem væru líklegar einhvers staðar, til þess að reyna að ná í heitt vatn, og segja síðan við alla þá sem þurfa að kaupa sér olíu: Þetta hlýtur að vera í ykkar þágu. Þetta stefnir að því að auka við hitaveituframkvæmdir í landinu. (Gripið fram í: Tvær holur norður á Akureyri.) Ja, t. d. tvær við Akureyri og sagt við austfirðinga: Þetta er nálægt ykkur. — Ég mundi ekki vilja eiga þetta mál undir neinum slíkum.

Það væri miklu eðlilegra að hafa lögin áfram. (Gripið fram í.) Já, ég býst við því út af fyrir sig, eins og hér er verið að segja, að hæstv. viðskrh., sem nú er, mundi skipta þessu á eitthvað skaplegri hátt. Þó veit ég ekkert hvað hann mundi gera þegar íhaldið væri búið að tala nógu mikið við hann, að fenginni reynslu. Þá mætti vel búast við því að það yrði eitthvað klipið af þessu gjaldi. En ég segi: Hitt hefði auðvitað verið miklu eðlilegra og meira í samræmi við aðrar reglur, að lög um greiðslu á olíustyrk hefðu staðið þótt gjaldið hefði verið tekið í ríkissjóð og þótt fjárveiting af því hefði síðan verið sett inn á fjárlög til þess að standa við ákvæði laganna. Það var í samræmi almennt við reglur um þessi mál. En mér sýnist að með því að fella niður ákvæði laganna um greiðslu á olíustyrki sé stutt í hina framkvæmdina, að það verði fellt algerlega niður að greiða þennan styrk.

Eins og ég sagði hér í upphafi míns máls skal ég ekki tefja þessar umr. meira, þó að hér hafi ýmislegt verið sagt sem ástæða væri til að víkja að. Það er þýðingarlaust að standa hér í einhverju karpi um það hvort framkvæmdir í hitaveitumálum séu gagnlegar eða ekki gagnlegar. Ég er ekki að deila við neinn mann um það. Ég játa að það er mjög nauðsynlegt að vinna að því að koma upp jarðvarmahitun á sem flestum stöðum í landinn. Það hefur verið mikið nauðsynjamál og það er mikið nauðsynjamál, og það á að vinna að framgangi þess án þess að þurfa að skerða fjárgreiðslur til þeirra sem standa höllum fæti á þennan hátt, eins og mér sýnist að stefnt sé að með þessu frv.

Afstaða mín er því sú sem ég hef gert hér grein fyrir áður: Ég er algerlega á móti frv. og tel að það stefni alveg í ranga átt.