17.12.1976
Efri deild: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

106. mál, innflutningur á olíupramma

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 125 er frv. til l. um að leyfa innflutning á olíupramma, en eins og kunnugt er gerði Olíumöl hf. í Hafnarfirði á árinu 1974 samning við norskt fyrirtæki um byggingu olíustöðvar í Hafnarfirði fyrir móttöku og geymslu á vegolíu og asfalti. Var stöð þessi reist eins og samningar stóðu til og hefur Olíumöl starfrækt stöðina til framleiðslu á olíumöl.

Í framhaldi af þessum framkvæmdum hefur það og gerst, sem vænta mátti, að flutt hefur verið olíumöl staða á milli. Þannig hefur verið flutt olíumöl til Vestfjarða og víðar, og nú er verið að gera þetta fyrirtæki að landsfyrirtæki til þess að annast framkvæmdir í sambandi við olíumalarlagningu.

Í sambandi við það, að fara á að flytja olíumölina landshluta á milli, stóð til að kaupa frá Noregi pramma sem sérstaklega er byggður til flutninga á heitri olíumöl og getur flutt um 220 tonn. Þetta skip er upphaflega byggt fyrir nokkuð löngu, svo að það má ekki skv. núgildandi lögum flytja það inn vegna aldurs. Hins vegar hefur það verið endurbyggt og hefur verið í leigu hér til þessara flutninga og hefur reynst mjög vel, enda er búið að endurbyggja það að verulegu leyti, m. a. endurnýja allar vélar þess og tæki sem þarf til siglinga. En upphaflegur aldur þess gerir það að verkum að það þarf sérstaka lagaheimild til að mega kaupa skipið. Þess vegna er þetta frv. flutt, og efni þess er að leyfa ráðh. að heimila að kaupa þetta skip þó að eldra sé en 12 ára, sbr. lög frá 1970, og hefur Siglingamálastofnunin mælt með því að það verði gert.

Frv. þetta fékk góða afgreiðslu í hv. Nd., og ég vonast til að það verði eins hér í þessari hv. d., enda hefur reynslan af skipinu sýnt að óhætt muni vera að mæla með því vegna þess að það er búið að endurbyggja það og styrkja til þessara flutninga sem því eru ætlaðir.

Ég legg til. herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.