17.12.1976
Efri deild: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

127. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Steinþór Gestsson) :

Herra forseti. Félmn. hefur fjallað um þetta frv. á tveimur fundum, og hún mælir með því að frv. verði samþ. með þeirri breyt. sem hún flytur á sérstöku þskj. Nokkrir nm. hafa þó fyrirvara um afgreiðslu frv., sem er fyrst og fremst í því fólginn að þeir telja fyrri grein þess óþarfa. Að öðru leyti munu þeir að sjálfsögðu gera nánari grein fyrir þeim fyrirvara sem þeir hafa um þetta efni.

Frv. þetta, sem hér um ræðir, hefur í sér fólgin þau ákvæði að tryggja að fasteignaskattur hækki ekki milli ára umfram það sem eðlilegar verðlagshækkanir segja til um, þrátt fyrir breytt fasteignamat sem tekur gildi um næstu áramót. Menn eru því ásáttir um það í n. að 2. gr. frv., sem er ákvæði til bráðabirgða, sé eðlileg og þeir eru allir sammála um að mæla með því að bráðabirgðaákvæðið verði samþ. Það er aftur á móti um fyrri gr. frv. að segja, að mönnum þótti sem hún mundi ekki vera nauðsynleg. En ég er þeirrar skoðunar og víð, sem skrifum undir nál. án fyrirvara, að hún sé eðlileg og að mínum dómi nauðsynleg, og vil ég aðeins skýra það örlítið nánar.

Í eldri lögum um fasteignamat eru þau ákvæði að eign eða bygging skuli ekki tekin í fasteignamat fyrr en hún er fullgerð, og hefur það verið metið þannig að þegar bygging er orðin fullgerð að 80%, þá mætti taka hana í fasteignamat. Í lögum um tekjustofna sveitarfélaga segir hins vegar að fasteignaskattur sé ekki greiddur af öðrum eignum en þeim sem fasteignamat taki til. Það er því alveg berlegt að eftir eldri fasteignamatslögum hafði sveitarstjórn ekki heimild til að leggja fasteignaskatt á fyrr en bygging var metin fullgerð. Við breyttar aðferðir við fasteignamat eftir lögunum, sem sett voru á síðasta þingi, er gert ráð fyrir því að fasteignamat fari fram í áföngum á hverri byggingu fyrir sig og þar verði stuðst við álit og skýrslur byggingafulltrúa og þannig að hús í byggingu kemur til fasteignamats áður en það er fullgert eða tekið í notkun. Það, sem þetta ákvæði 1. gr. þýðir, er í rauninni það eitt að sú regla, sem var í lögum og eins og hún hefur verið í framkvæmd, verði einnig hér eftir lögð til grundvallar álagningu fasteignaskatts, eins og verið hefur hingað til.

Segir svo í frv., eins og það var lagt fyrir þessa hv. d.: „Eigi er þó heimilt að leggja fasteignaskatt á fasteignir fyrr en þær hafa verið teknar til afnota eða eru fullgerðar.“ Þetta er gjörsamlega til samræmis við það sem er í gildandi lögum.

Hins vegar sýndist okkur að þetta orðalag í 1. gr. gæti skilist á þann veg að ekki væri heimilt að leggja fasteignaskatt á óbyggða lóð, og því höfum við orðið sammála um að gera breyt. á orðalagi í þessari 1. gr., þannig að fyrir „fasteignir“ komi „byggingar“ og hljóði þá þannig: „Eigi er þó heimilt að leggja fasteignaskatt á byggingar fyrr en þær hafa verið teknar til afnota eða eru fullgerðar.“ Þá eru tekin af öll tvímæli um það, að eins og áður hafa sveitarstjórnir heimild til þess að leggja fasteignaskatt á óbyggðar lóðir. Má segja það sama um það ákvæði, eins og ég var raunar búinn að taka fram, að hér er leitast við að viðhalda nákvæmlega því fyrirkomulagi um álagningu fasteignaskatts sem verið hefur hingað til. Það er meginefni þessa frv., og því teljum við eðlilegt að það sé samþ. með þessari breyt. og leggur félmn. það til.