17.12.1976
Efri deild: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1350 í B-deild Alþingistíðinda. (941)

127. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa langt mál um þetta frv., en mér finnst að mörgu leyti óeðlilegt að því sé flýtt svo mikið sem raun ber vitni þegar fram kemur andstaða Sambands ísl. sveitarfélaga og ef það er rétt, sem hér hefur komið fram, að óþarft sé að setja þetta ákvæði á þessu ári.

Það er alveg rétt, að það er erfiðara að fylgjast með þessum málum í stórum sveitarfélögum, og ég held að mönnum hafi verið þetta ljóst þegar var fjallað um frv. til l. um fasteignamat í fyrra og þá var gerð sú breyting á fasteignamati að matið er stöðugt. Eftir því sem byggingunum miðar áfram, þeim mun meir hækkar matið hlutfallslega. Ef byggingartími er eðlilegur, þá ætti í flestum tilfellum ekki að vera lagður fasteignaskattur á viðkomandi hús. En ég held að það sé rétt að menn geri sér grein fyrir að það verður einnig mjög erfitt fyrir sveitarstjórnir í stórum sveitarfélögum að fylgjast með hvenær hús hafa verið tekin í notkun. Við skulum gera okkur grein fyrir því að það hefur tíðkast í mörg ár að það væri reynt að komast hjá því, að hús væru tekin út og tekin í mat, til þess að komast hjá greiðslu fasteignagjalda. Og ég veit að hv. þm. geta fengið það staðfest með því að ræða við ýmsar sveitarstjórnir. Þetta hefur verið allmikið vandamál í mörgum sveitarfélögum, og þetta vandamál verður alveg það sama ef þetta ákvæði verður að lögum.

Ég vil einnig geta þess, að það, sem hefur e. t. v. helst hamlað og stuðlað að því að menn hafi tekið þrátt fyrir þetta hús sín í mat, er að eigin húsaleiga reiknast í flestum tilfellum af fasteignamati, en ef fasteignamat er ekki fyrir hendi, þú reiknast eigin húsaleiga af byggingarkostnaði. Og þessi eigin húsaleiga hefur stundum verið það há að menn hafa þess vegna flýtt sér að koma húsum sínum í mat. Allar þær hugmyndir, sem fram hafa komið nú að undanförnu um breytingar á skattalögum, hafa gert ráð fyrir því að húsnæðisliðirnir á framtalinu væru felldir niður. Ef það verður gert verður þessi hvati ekki lengur fyrir hendi.

Mér finnst óskynsamlegt að hraða svo þessu máli að menn geti ekki fengið tækifæri til þess að gera sér fulla grein fyrir því, hvað er hér veríð að gera, því ég hef það á tilfinningunni að það hafi ekki verið rannsakað nægilega vel við undirbúning málsins og ekki heldur í n. Og það er alveg nóg á dagskrá þingsins núna þessa síðustu daga fyrir jól þótt menn séu ekki að eyða tíma í mál sem í reynd liggur ekki svo á, þótt ég viti að allir hafi góðan vilja til þess að ungt fólk, sem á í erfiðleikum, greiði ekki há gjöld. Það er allt annað mál.