17.12.1976
Efri deild: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1350 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

127. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Ýmsar þær röksemdir, sem fram hafa komið hjá þeim hv. þrem þm. sem hafa lýst yfir ýmist andstöðu eða mikilli gagnrýni á 1. gr. frv., eru harla einkennilegar, eins og t. d. þegar hv. 7. landsk. þm. upplýsir annars vegar að sú sveitarstjórn, sem hann á sæti í, hafi notað heimild laganna til þess að undanþiggja húsbyggjendur fasteignagjaldi tvö fyrstu árin eftir að hús eru tekin í notkun, — og þetta er ákaflega virðingarvert gagnvart húsbyggjendum, ekki síst ungu fólki sem á erfitt sín fyrstu ár, —- en óneitanlega skýtur nokkuð skökku við þegar sá hinn sami maður vill fella 1. gr. frv. og þar með skapa sveitarfélögunum möguleika á því að þyngja fasteignaskatta á þessu sama fólki.

Það er öllu víðtækari tilgangur með 1. gr. Í lögum um fasteignamat frá síðasta vori er svo ákveðið í ákvæði til bráðabirgða, að þegar nýtt fasteignamat tekur gildi, sem margfaldast eins og kunnugt er a. m. k. 51/2 sinnum og stundum meira, þá er tekið fram í þessu lagaákvæði að áður en þau taka gildi skuli endurskoða lög um þau gjöld sem fylgja fasteignamati til þess að þau hækki ekki í samræmi við þessa hækkun fasteignamats.

Í framhaldi af þessu ritaði formaður yfirfasteignamatsnefndar félmrn. bréf þar sem hann benti á það ákvæði í fasteignamatslögunum sem hér er til umr., að nú verði fasteignamat framkvæmt einni.g varðandi hús sem eru í smiðum. Þetta ákvæði 1. gr. er, eins og skýrt kemur fram í grg. og tekið hefur verið fram, eingöngu til þess að staðfesta þá reglu sem gilt hefur, og þess vegna er undarlegt þegar nú koma fram andmæli gegn þeirri reglu, eins og hér sé um eitthvað nýtt að ræða. Hvers vegna hafa ekki andmæli gegn því að ekki skuli greiða fasteignaskatt fyrr en íbúðir eru fullgerðar, komið fram fyrr, því sá hefur verið hátturinn samkv. lagaákvæðum og framkvæmd í fjölda ára. Hér er ekki um neina breytingu að ræða. Hér er verið að staðfesta þá venju og þau lög sem áður hafa gilt, fyrst og fremst til að vernda húsbyggjendur fyrir nýjum skattaálögum.

Mér kemur mjög á óvart að Samband ísl. sveitarfélaga skuli hafa mótmælt eða gert athugasemdir við þessa grein. Mér hafa engar slíkar athugasemdir eða mótmæli borist. Hins vegar rengi ég ekki það sem hér er frá sagt, að framkvæmdastjóri Sambandsins hafi mætt á fundi n. og andmælt þessu, en mér hafa ekki borist nein andmæli frá þeim samtökum.

Hins vegar, fyrst þrír hv. þm. hafa talið ástæðu til að andmæla þessu ákvæði og vilja þannig opna möguleikann fyrir því að hækka gjöld bæði á ungu fólki, sem er að byggja, og öðrum og af því að ég rengi ekki að Samband ísl. sveitarfélaga hafi þá afstöðu sem hér hefur verið lýst, þá legg ég til að umr. verði frestað og málið tekið út af dagskrá til frekari athugunar.