17.12.1976
Efri deild: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

132. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það var nú ekki seinna vænna að sjútvn. fengi einn fisk í soðið, svona rétt fyrir jólin, svo það yrði ekki ofát á kjöti, og birtist nú eitt frv. síðustu klukkutíma þessa þings er við eigum von á að fá til meðferðar í n. Ég er eiginlega hálfundrandi yfir ákvæðum þessarar einu gr. frv., því 2. gr. er aðeins um gildistöku. Það hefur nefnilega verið svo, að margir menn hér á Íslandi hugsa eilítið fram í tímann og halda að þeir fái að njóta árangurs af því erfiði sínu að búa í haginn fyrir sig. Hefur það jafnan verið talið gott ef vel hefur tekist til, eins og sannað hefur verið nú á þessum haustdögum, og á ég þá við það að allmargir menn hafa lagað skip sín eða breytt skipum sínum í samræmi við ríkjandi aðstæður við loðnuveiði, og um leið má segja að þau séu hæfari til að sigla langar leiðir.

En það er annað sem kemur fram við gildistöku þessa frv., ef að lögum verður. Frá þessum mönnum er tekinn ákvörðunarréttur um ráðstöfun á eigin afla og tekið fram fyrir hendur á skipstjórunum. Þá kemur upp sú spurning: Hvað þýðir það? Ég hefði vilja sjá hér eina grein í viðbót í þessu frv. sem hefði lagt svo til, að sé slíkur ákvörðunarréttur tekinn af skipstjóra, þá fylgi því skilyrðislaus greiðsluskylda.

Það fer ekki á milli mála að lög um loðnunefnd hafa borið árangur, um það erum við allir sammála, og hún hefur unnið starf sitt mjög vel og á hinar mestu og bestu þakkir skilið. Allir stjórnmálaflokkar og allir hv. alþm. hafa verið sammála um að rétt væri að koma þessari n. á, þó að nefndafarganið sé mikið. Hafa þessir menn skilað frábæru starfi. Formaður n. er starfsmaður sjútvrn., og ég veit ekki annað, þrátt fyrir ýmsa hnökra þegar mest er álagið og jafnvel orðahnippingar, þá hefur n. sem heild skilað frábæru starfi.

Nú á að auka það valdsvið sem n. hefur þegar, og það er í því fólgið að n. getur ákveðið stöðvun á tilteknum skipum og tilteknum stærðarflokki skipa. Ég verð nú að spyrja: Hver er vernd stjórnarskrárinnar í þessu sem mörgu öðru? Það getur nefnilega skipt gífurlegum tölum hvort maðurinn er frjáls að taka ákvörðun og veit um að hér er ákveðið laust pláss, hann ásamt mörgum öðrum veit af því og er frjáls að sigla á þann stað og til þess viðskiptaaðila sem hann vill. Þetta er svo alvarlegt mál, að ég tel persónulega útilokað að hespa því af á tveimur dögum þingsins — gjörsamlega útilokað. Við hljótum að verða að heyra í allmörgum mönnum, — þeir eru ekki mjög margir, þeir geta verið 15–20 eða eitthvað fleiri, sem eiga þennan stærðarflokk sem hér er verið að þrengja umsvif að, — og það er útilokað annað en að heyra viðbrögð þessara manna. Ég get ekki tekið alvarlega óskir verksmiðjueigenda, því þetta er tæplega þeirra mál. Ég segi: tæplega þeirra mál. Þeir fá vonandi nóg framboð af loðnu og verða að sætta sig við það. Það skilyrði, sem þeir geta sett, er að loðnan sé fersk og hæf til vinnslu. Hins vegar kann að vera nokkur deila uppi í samtökum útvegsmanna og vildi ég þá kanna það mál allt nánar.

Þeir, sem hafa gert skip sín öruggari í siglingum, það má segja að nokkur sanngirni sé í því að þeir sigli lengra og eru rök fyrir því að borga þá vel fyrir það. En þetta verður að vera gert með frjálsu samkomulagi. Gildandi lög hafa reynst góð, þau hafa leyst þennan vanda, og ég vil því ekki rasa um ráð fram. Ég verð að segja það alveg eins og er. Ég viðurkenni það vandamál, sem frv. fjallar um, og reyndar hafði ég hér á hv. Alþ. bent á það í tillöguflutningi að gert yrði átak við að reisa verksmiðjur til þess að bjarga yfirvofandi ofveiði, ef svo mætti segja, miðað við afkastagetu verksmiðjanna. En það hefur gengið heldur böksulega að fá hlustað á það. Þess vegna vil ég að við fáum svigrúm til þess að fjalla um þetta mál.

Það er engin nauðsyn að þetta frv. taki gildi og verði að lögum 1. jan. því að loðnuvertíð hefst fyrri hluta janúar og það hefur aldrei átt sér stað að verksmiðjur væru yfirfullar í janúar. Það hefur aldrei átt sér stað. Og því miður — ég segi: því miður — er útlitið ekki gott og bátar almennt ekki komnir í fulla starfsemi fyrr en seinni hluta janúar, m. a. vegna þess að það er nú einu sinni svona búið að rekstrarmöguleikum bæði netaverkstæða og báta að það er ekkert efni til í landinu, menn fá ekki keypta og selda víxla til að gera við næturnar, hreinlega til að gera við næturnar, og það er stórkostlegt vandamál að hafa veiðarfærin tilbúin. Þess vegna liggur þessu frv. ekkert á með þeim hraða að það þurfi að hrökkva til og afgr. það í snarheitum. Við skulum bara hafa það tilbúið í janúarlok. Þá verðum við búnir að heyra álit margra manna, sem þetta mál snertir, og hlusta gaumgæfilega á það, og þá verðum við tilbúnir að gera þær breyt. á núv. lögum sem leysi aðsteðjandi vanda, eins og frv. boðar. En hann er það flókinn og hann er það viðkvæmur og það er það mikið í hættu fyrir vissa aðila, að ég vil hlusta á þessa menn. Það er ekki hægt að komast hjá því.