17.12.1976
Efri deild: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

132. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hlýt að taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður, Jón Árm. Héðinsson, sagði um þá reynslu sem fengist hefur af störfum loðnunefndar. Ég hygg að þessi stofnun hafi leyst ákaflega erfið vandamál, sem steðjuðu að vetrarútgerðinni til loðnuveiða, og farnast furðuvel. Þótt flestir okkar, sem höfum eitthvað umgengist þá sem stunda þessar veiðar, hafi mátt hlýða á kvartanir einstaklinga, þá ætla ég að hitt sé mála sannast, að loðnunefnd hafi gert mikið gagn.

Hér er svo ráð fyrir gert í 2. gr. að þessi lög öðlist gildi 1. jan. 1977. Ég hlýt einnig að taka undir orð hv. þm. Jóns Ármanns á þá lund, að hér sé allmikill flýtir á og óþarfaflýtir. Þetta frv. er lagt fram í jólaönninni, en ýmislegt í eðli þess með þeim hætti að æskilegt er að ræða það við fleiri aðila heldur en Félag ísl. fiskmjölsframleiðenda og LÍÚ og forsvarsmenn Farmanna- og fiskimannasambandsins. Hér er loðnunefnd óneitanlega ætlað furðulega mikið vald.

Ég er að eðlisfari andvígur hugmyndunum um hið upplýsta einveldi, og jafnvel þó að til komi stoð og ráðuneyti jafnágætra aðila og stjórnar LÍÚ, Farmanna- og fiskimannasambandsins og Félagi ísl. fiskmjölsverksmiðja í þessu tilliti, þá vildi ég gjarnan að við reyndum að þrengja sem allra minnst að valdi þeirra manna sem stjórna nú þessum skipum og gera þau út til loðnuveiðanna. Ég hlýt að spyrja sem svo: Hvað verður um útgerð skipa að sumri til á loðnu til öflunar hráefnis fyrir einstakar verksmiðjur? Hér er alls ekki kveðið á um nein sérstök tímatakmörk eða árstíðabundið gildi þessara laga. Aths. við lagafrv. þetta byrja á þennan hátt: „Nú er komið í ljós að bræðsluskipið Norglobal fæst ekki leigt til landsins til loðnubræðslu á vetrarvertíð eins og tvö undanfarin ár.“ Sem sagt, meginforsenda fyrir setningu nýrra laga er þessi: Nú er komið í ljós að bræðsluskipið Norglobal fæst ekki leigt til landsins. Það er eins og bræðsluskipið Norglobal sé eitt af sjálfum náttúruöflunum. Maður hefði ekki orðið hissa að sjá hér lagafrv. þar sem grg. byrjaði svona: „Nú hefur tunglið verið tekið niður af festingunni, því þarf að gera ráðstafanir og festa í lög til frambúðar.“

Norglobal var fengið hingað á miðin á sínum tíma upprunalega við ákaflega sérstakar aðstæður, þegar við misstum af völdum náttúruhamfara hvora á fætur annarri, sitt árið hvort einhverja stærstu og afkastamestu síldarverksmiðjuna okkar. En einhvern veginn var ég þeirrar trúar að útgerð á bræðslufisk við Ísland ætti ekki að byggjast til frambúðar á veru Norglobals á miðunum.

Þegar borið er fram frv. þessarar tegundar, þá hlýtur maður að sakna þess að ekki skuli sjást af hálfu sjútvrn. viðleitni til þess að leysa vandamál loðnuflutninganna eða hins mikla bræðslufiskafla á vetrarvertíð til frambúðar og með skynsamlegri ráðstöfunum en þessum, sem í eðli sínu miða að því, ef í harðbakka slær, að draga fremur úr loðnuveiðunum heldur en hitt, þó ég ætli hæstv. sjútvrh. alls ekki slíkan tilgang.

Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í spjall um frv. í þessari mynd. En ég get einhvern veginn ekki látið hjá líða að minnast á hugmynd sem fram kom fyrir einum 15–16 árum um góða lausn á því vandamáli sem fylgir flutningi á bræðslufiski um langan veg til verksmiðjanna. Þetta er hugmynd Gísla heitins Halldórssonar verkfræðings sem hann setti þá fram og hafði lagt allmikla vinnu í að kynna sér og rannsaka og jafnvel fengið verksmiðjur í Bandaríkjunum til þess að hanna tæki það sem hér um ræðir, þar sem voru strigastyrktar gúmmíslöngur í hvalslíki sem hann ætlaðist til að veiðiskipin hefðu um borð. Þá var miðað við síldaraflann, síldinni yrði dælt í þessar slöngur, sem síðan hefðu flotmagn, og dráttarskipum væri ætlað að draga þessa síldargeyma til hafna. Hann styrkti þessa hugmynd sína þeim rökum að síldveiðiskipin okkar væru orðin ákaflega dýr tæki, ekki síst fyrir rafeindabúnaðinn, raunar meira og minna fljótandi rafeindatæki og allt of dýr til þess að hafa þau í „transporti“ með síld til verksmiðjanna. Þess vegna væri við hæfi ef hægt væri að safna síldinni á þennan hátt úti á miðunum og láta síðan dráttarbáta annast flutninginn til hafna.

Mér fannst þessi hugmynd Gísla á sínum tíma góð. Mér er kunnugt um að ýmsir útgerðarmenn, sem hugleiddu hana, þótti hún einnig góð. En það hefur alltaf verið látið við það sitja að þykja þessi hugmynd góð og aðrar álíka, sem miðuðu að því að leysa vandamál hráefnisflutninganna til frambúðar, en engin vinna verið lögð raunverulega í frekari nýtingu þessara hugmynda.

Ég tek undir það, sem hv. þm. Jón Árm. Héðinsson sagði, að enn gæfist tími til að athuga þetta frv. Ég er alveg viss um að hæstv. sjútvrh., sem a. m. k. í þessari d. síðan ég kom hingað hefur tekið þess háttar málaleitunum þm. af sérstakri ljúfmennsku og með mikilli geðprýði, — ég er viss um að hann mun taka til greina þessa beiðni okkar um dálítið meira tóm til þess að hugleiða frv. og leita álits þeirra, sem um eiga að fjalla, á frv., því að ég hygg að hann geti treyst því að þessi d. muni ekki vilja verða þess valdandi að loðnuveiðar tefjist í vetur og ekkert slíkt búi undir krítik okkar á frv.