17.12.1976
Efri deild: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

132. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. 1. landsk. þm. taldi sig hafa verið fisklausan í allan vetur og hefði fengið fyrsta fiskinn með þessu frv., og þá var sá fiskur bara loðna. Þetta átti víst að vera einhver gagnrýni á það að engum málum væri vísað til sjútvn. En ég held að það sé ekki bein skylda rn. að sjá um að það sé einhver ákveðin tala mála í ákveðnum n. Hins vegar skal ég segja þessum hv. þm. það, að máli var vísað til sjútvn., ég held að eitthvað sé komið á annan mánuð síðan, og ég hef ekki séð neitt nál. koma enn þá. Ef menn hafa mikla starfslöngun og vilja vinna vel, þá eiga þeir bara að hnippa í formann í sinni n. og segja að það liggi mál fyrir sem þeir vilji afgreiða. Mér finnst þetta heldur leiðindatónn og algerlega ástæðulaus í sambandi við það mál sem hér liggur fyrir.

Þessi hv. þm. sagði að ef ætti að fara að skylda skip til ferða og taka vald af skipstjórum, þá yrði að borga. Hver á að borga, á að taka það á ríkið, ef á að koma á skipulagi í einni atvinnugrein? Ég skil ekki heldur hvað þm. var að fara þegar hann kom inn á þetta atriði, alls ekki. Hér hefur verið skylda samkv. lögum um löndun á loðnu til bræðslu, ákveðin skylda sem hefur hvílt á skipstjórnarmönnum og verksmiðjum og hefur þurft að gripa til öðru hverju, og þessir aðilar allir hafa tekið því vel. Það voru í byrjun nokkrir smávægilegir árekstrar, en nú undanfarin ár hefur þetta gengið mjög vel. Ég segi fyrir mitt leyti, ef það er komið eins og segir í frv., að n. er heimilt að stöðva allar veiðar á loðnu til bræðslu um stundarsakir ef fyrirsjáanlegt er að langt löndunaröngþveiti muni skapast, er þá ekki sjálfsagt, ef menn vilja halda áfram veiðum, að hafa þessa heimild til þess að koma í verg fyrir að þarna verði skemmdir.

Í sambandi við flutninga á stærri skipum á lengri leiðum, þá hélt ég að þm. væru almennt sammála um það að vitaskuld eru það stærstu skipin sem fyrst og fremst eiga að taka þær skyldur á sig. Við skulum segja að loðna sé hér við Austfirði eða Suðausturlandið og þetta sé um hávetur, þá er ekki skynsamlegt að beina fyrst og fremst minnstu loðnuskipunum fyrir Langanes og allt til Siglufjarðar. Ég er hræddur um að ef eitthvað kæmi fyrir slíkt skip, þá væri sagt að það hefði verið heimskulegt að hafa ekki skipulagt það betur. Stærri og fullkomnari skipin eiga auðvitað að fara hinar lengri ferðir. En það er ekki heldur til þess ætlast og loðnunefnd fær enga heimild til að skylda hin stærri skip til þess að fara lengri leiðir fyrir ekki neitt. Hún hefur þá sömu heimild og hún hefur núna í lögum, að beita strax flutningastyrkjunum. Þá fá þessir aðilar greiðslu fyrir þessar ferðir. Hér er verið að taka upp alveg skilyrðislaust heimild fyrir loðnunefndina að hafa þetta vald til að velja úr stærstu skipin, tryggja verksmiðjunum á Norðurlandi frekara hráefni eða réttara sagt miðla á milli verksmiðjanna hráefninu, sem ég tel að sé þýðingarmikið.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. fannst óskaplegt að sjá þessar aths., að það sé komið í ljós að bræðsluskipið Norglobal fæst ekki leigt til landsins til loðnubræðslu næstu vetrarvertíð eins og tvö undanfarin ár. Þetta er það sem skapar núna þetta bil á milli veiða og vinnslu, að sú verksmiðja, sem hér hefur verið starfrækt nú um tveggja ára skeið á loðnuvertíðinni, hverfur, stærsta verksmiðjan hverfur og það verksmiðjan sem hefur fylgt eftir flotanum. Þetta er vitaskuld mikið áfall fyrir loðnuveiðarnar í heild, og þetta er ekki nein smáverksmiðja því að hún hefur afkastað um 2000 smál. á sólarhring. Eðlilegt er að þetta eina atvik hafi gífurlega mikil áhrif. Það skiptir ekki höfuðmáli ef það væri verksmiðja sem er lengst frá veiðisvæðinu lengst af. Hún er ekki eins þýðingarmikil og verksmiðja sem getur fylgt veiðinni eftir.

Í sambandi við loðnuveiðarnar er varla við því að búast að við íslendingar séum búnir undir stórfellda vinnsluaukningu á sjálfri loðnuvertíðinni þegar mest berst að, vegna þess að undanfarin ár hefur loðnuverðið verið lágt og starfræksla verksmiðjanna mjög léleg undanfarin tvö ár. En nú hefur aftur orðið sú ánægjulega breyting að verð á þessum afurðum hefur hækkað verulega. Nú er líka þegar kominn allmikill lyftingur í menn að byggja og stækka loðnuverksmiðjur sem fyrir eru. Hér hafa auðvitað líka, til viðbótar vetrarvertíðarloðnunni, loðnuveiðar nú í sumar og haust og þær sem standa enn haft mikið að segja, því að þar hefur veiðst miklu betri loðna en við erum að veiða og vinna á vertíðinni. Með tilkomu þessara veiða skapast auðvitað allt annar grundvöllur fyrir loðnuverksmiðjur í landinu, eins og allir hljóta að skilja, ef við lengjum verulega nýtingartíma verksmiðjanna, að þær geti starfað í jafnvel 6, 7, & mánuði á ári í staðinn fyrir kannske í mesta lagi 2–3, eins og oftast var hér áður hjá þessum verksmiðjum. Þá var auðvitað það mikið sem fór í fastakostnað, í vexti og afskriftir, að þessar verksmiðjur voru ekki þess umkomnar að borga sama verð og verksmiðjur t. d. í Danmörku sem störfuðu mest allt árið. Þetta getur gerbreyst og þetta hefur í för með sér mikil og góð áhrif, bæði fyrir afkomu útgerðar og sjómanna.

Ég segi auðvitað Alþ. ekkert fyrir verkum hve langan tíma þessi hv. d. þarf til þess að átta sig á þessu máli og afgreiða það. En ef það er talað um að Alþ. komi ekki saman fyrr en nokkuð seint í janúar, þá á eftir að láta frv. fara í gegnum báðar d. og það getur alltaf orðið einhver bið á því, eins og gerist og gengur. En ég ber aðeins fram þá ósk sem fram hefur komið frá aðilum, bæði kaupendum og seljendum. Og það er skoðun okkar í sjútvrn. að það sé mjög gott að fá afgreiðslu á þessu máli nú áðar en Alþ. fer í jólafrí. Þetta mál er sameiginlegt áhugamál þeirra sem kaupa og selja þessa vöru, og hvers vegna á þá Alþ. eða sjútvrn. að setja sig upp á móti því að verða við sameiginlegum óskum þessara aðila? Það geta auðvitað alltaf fundist sérhagsmunir eða sérálit.

Það getur komið til greina að verksmiðja, sem á mjög stórt og afkastamikið skip, vilji kaupa bara af sínu skipi eða sínum skipum og alls ekki vera að láta það eða þau sigla langar leiðir með loðnuna. Það sjónarmið er uppi og getur verið uppi, og þá er það okkar, bæði samtakanna, sem standa að þessu frv., og okkar alþm., að meta það og vega hvort er þyngra á metunum að skylda þessa aðila til að fara lengri leiðir, en hina minni báta ekki nema sem allra minnst. Á þetta vil ég leggja ríka áherslu. Ég er þeirrar skoðunar að loðnunefnd eigi að hafa þetta vald.

Hitt er svo allt annað mál, að verði breyting á afkastagetu verksmiðja eða hrun á veiðum eða eitthvað þess háttar, þá er engin ástæða til þess að halda sér endilega við þetta. En ég treysti loðnunefnd, sem skipuð er fulltrúum þeirra aðila sem veiða og vinna — þar er aðili sem er tilnefndur af útgerðinni, og svo aftur aðill, sem er tilnefndur af Félagi ísl. fiskmjölsframleiðenda, og þriðji maðurinn, oddamaðurinn og formaður n., er tilnefndur af sjútvrn. Ég get líka upplýst það hér, að ég hef ekki hugsað mér að skipta um þann mann sem þar hefur verið frá byrjun og var skipaðu. í tíð fyrirrennara míns, hefur staðið sig þar mjög vel og er deildarstjóri í sjútvrn. Ég veit hins vegar ekki hvort hinir aðilarnir hafa skipt um mann, en tel það fremur ólíklegt.

Ég held að ég hafi svo ekkert meira um þetta að segja. Nefndin og deildin verða að meta það og vega hvaða hraði eigi að vera á þessu máli. En ég tel hyggilegra að afgreiða þetta frv. fyrir jól en að bíða til janúarloka eða lengur.