17.12.1976
Neðri deild: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

19. mál, fjölbrautaskólar

Fram. (Ingvar Gíslason):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. menntmn. um þetta frv. Ég vil geta þess, eins og tekið er skýrt fram í nál., að n. hefur rætt þetta mál allítarlega og er efnislega samþykk því máli sem hér liggur fyrir, en leggur þó til að 1. gr., sem fjallar um breyt. á 3. gr. laga um heimild til að stofna fjölbrautaskóla, — að 1. gr. frv. þess, sem hér er til umr., verði breytt nokkuð að orðalagi í upphafi og auk þess verði bætt við nýrri málsgr.

N. hafði samráð við nokkra aðila í sambandi við þetta mál. Hún fékk á sinn fund Magnús E. Guðjónsson framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga vegna þeirra ákvæða sem er að finna í 2. gr., þar sem gert er ráð fyrir nýjum ákvæðum varðandi skiptingu stofnkostnaðar milli sveitarfélaga og ríkisins þegar um er að ræða stofnun fjölbrautaskóla. Kom mjög eindregið fram í máli framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga að hann sá ekki ástæðu til að gera neinar sérstakar aths. varðandi þessa grein, taldi, að þarna væri um eðlilega skipan að ræða að svo komnu máli, og var því ekki uppi með neinar hugmyndir um breyt. Er skemmst frá að segja um það, að menntmn. flytur enga brtt. við 2. gr. frv.

Aftur á móti kom það fljótlega upp í athugunum n. og eftir viðræður við þá aðila sem við var rætt, Óskar Guðmundsson framkvæmdastjóra iðnfræðsluráðs og séra Guðmund Sveinsson rektor Fjölbrautaskólans hér í Reykjavík, að eðlilegt væri að breyta nokkuð orðalagi 1. gr. eins og hún var lögð hér fram af hæstv. menntmrh. og einnig að bæta við nýju ákvæði, eins og fram kemur á þskj. 198, þar sem er að finna umorðun 1. gr.

Ég vil taka það fram, að í rauninni er hér ekki um neinar efnisbreytingar að ræða, heldur miklu frekar að þarna sé um að ræða aðferðarmun að vissu leyti og fyllri ákvæði sem við teljum að sé til bóta að komi fram og leggjum til að samþ. verði.

Hvað snertir fyrri breyt. á 1. gr., þá segir svo í frv. sem hæstv. ráðh. lagði fram: „Um iðnnám fer eftir námsskrá sem sett skal að fengnum till. fræðsluráðs og að höfðu samráði við iðnrn. og hlutaðeigandi fræðsluráð“ o. s. frv., en n. leggur til að í stað þess verði tekið upp svofellt orðalag: „Um iðnnám fer eftir námsskrá sem sett er af menntmrh. skv. l. um iðnfræðslu.“ Við teljum að það sé eðlilegra að hafa þessa aðferð, þ. e. að fara beinlínis eftir lögum um iðnfræðslu þegar námsskrá verður sett um iðnfræðsluna í fjölbrautaskólunum, og með því teljum við að tryggar sé að það komist á fullt samræmi í námsskrárgerð fyrir venjulega iðnskóla og fyrir iðnfræðslusvið fjölbrautaskólanna. Við teljum ákaflega mikilvægt að þessu markmiði verði náð, og þó að við efumst að vísu ekki um að sjálfsagt hefði það einnig mátt nást með því orðalagi sem er í frv. upphaflega, þá teljum við heppilegra þetta orðalag, að það komi alveg skýrt í ljós að það verði beitt sömu aðferðum við námsskrárgerð fyrir iðnfræðslusvið í fjölbrautaskólanum eins og þegar um er að ræða venjulega iðnskóla.

Svo er hitt atriðið, sem þarna er um að ræða, sem við leggjum til í sambandi við breyt. á 1. gr., að þá er um að ræða nýtt ákvæði eða viðbót sem yrði ný málsgrein í þessari grein, eins og segir á þskj. 198: „Um annað nám við fjölbrautaskóla, er réttindi veita, skal farið eftir námsskrá sem sett er að fengnum till. þeirra aðila er hafa með höndum veitingu réttinda.“ Við töldum rétt í menntmrn. að taka upp þetta ákvæði eftir ítarlegar viðræður, m. a. við séra Guðmund Sveinsson rektor Fjölbrautaskólans í Breiðholti, en hann telur mjög mikilvægt upp á framkvæmd þessara laga að slíkt ákvæði sé fyrir hendi til þess fyrst og fremst að tryggja þeim nemendum, sem leggja stund á verklegt nám í fjölbrautaskólum, að þeir séu eins settir og ef þeir stunduðu nám í öðrum skólum.

Við í menntmn. leggjum til að þetta frv. verði samþ. með þeim breyt. sem fram koma á þskj. 198 og varða umorðun á 1. gr. og nokkra viðbót við þá gr.