17.12.1976
Neðri deild: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

128. mál, Bjargráðasjóður

Frsm. (Gunnlaugur Finnsson) :

Herra forseti. N. tók þetta frv. til meðferðar á fundi sínum í gær, og þar sem áhersla er á það lögð að frv. nái fram að ganga og verði að lögum fyrir jólaleyfi, sem stafar bæði af því að það þarf að taka tillit til þeirra laga við gerð fjárhagsáætlana sveitarfélaga, sem og vegna fjárhagsstöðu sjóðsins, þá var bersýnilegt að ekki gafst tími til að senda frv. út til umsagnar, enda raunar ekki ástæða til vegna þess að hér er um tiltölulega fáa aðila að ræða, þ. e. a. s. Samband ísl. sveitarfélaga og rn. sjálft, en stjórn Bjargráðasjóðs, sem skipuð er fulltrúum frá báðum þessum aðilum og frá landbúnaðinum, stóð að samningu frv.

Hins vegar fékk n. á fund sinn þá Magnús E. Guðjónsson framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga og Hallgrím Dalberg ráðuneytisstjóra og ræddi við þá um þær breyt., sem gera á á lögunum.

Þessar breytingar eru ekki viðamiklar. Þær eru fyrst og fremst til samræmingar gjaldalega séð, þ. e. a. s. gert er ráð fyrir að framlög sveitarfélaganna hækki úr 50 kr. á íbúa í 160 kr., sem er aðeins minni hækkun en verðlagshækkun hefur orðið á því tímabili síðan lögum var síðast breytt um Bjargráðasjóð.Í öðru lagi er gert ráð fyrir að hækkuð verði sú prósenta, sem tekin er af söluvörum landbúnaðarins, úr 0.23% í 0.35% og á þann veg verði styrkt sú deild sjóðsins sem fer með bætur á sviði landbúnaðarins.

Aðrar breytingar eru minni háttar. Þær eru til samræmingar, t. d. miðað við setningu laga um Viðlagasjóð vorið 1975, og gert ráð fyrir því að bætur verði ekki greiddar úr sjóðnum ef þær falla undir Viðlagatryggingu Íslands. Þá eru og í frv. útfærð ákvæði varðandi milligöngu sveitarfélaganna sjálfra, ákvæði varðandi vanskil og form á lántökum og endurlántökum sveitarfélaganna og að það skuli heimilt að undanþiggja stimpilgjöldum skuldabréf sem sveitarstjórnir gefa út á hendur einstaklingum sem sveitarfélögin endurlána.

Meiri hl. n. var sammála um að mæla með þessu frv. óbreyttu. Hins vegar er ekki því að leyna, og ég tala þar fyrir mig sjálfan, að mér þætti ástæða til að athuga hvort ekki væri rétt að samræma tekjur sjóðsins hvað verðbindingar snertir, þannig að bæði hin almenna deild og landbúnaðardeildin byggju við verðtryggt framlag. En þarna er nokkurt ósamræmi vegna þess að iðgjöldin til búnaðardeildarinnar hækka sjálfkrafa við hækkað söluverð búvara. Einnig má henda á það, hjá hinum aðilanum í tryggingakerfinu, Viðlagatryggingu Íslands, er miðað við stofn vegna brunabótamats, þ. e. a. s. álagsstofn brunabótaiðgjalda. Hann hækkar líka miðað við byggingarvísitölu á milli ára, þannig að þau iðgjöld, sem greidd eru til almenna sjóðsins, eru fastbundin ákveðinni krónutölu. N. þótti þó ekki rétt að gera till. um það að svo stöddu og stendur þess vegna einróma að þessari meðferð.

Það er rétt að taka það fram í lokin, að Eðvarð Sigurðsson og Magnús T. Ólafsson sátu hjá við atkvgr. í n. En það mun ekki vera vegna þess að þeir séu efnislega ósamþykkir þessum breyt., eins og þær liggja fyrir, miðað við þann skamma tíma sem hefur verið fyrir n. að vinna, heldur skildi ég það svo, að það væri fyrst og fremst andstaða við að mál væri þvingað í gegn á svo skömmum tíma. En ef það er ekki rétt túlkun hjá mér, þá hafa þeir að sjálfsögðu tækifæri til þess að leiðrétta það. Meira held ég að ég hafi ekki um þetta að segja.