17.12.1976
Neðri deild: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1370 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

128. mál, Bjargráðasjóður

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í framsöguræðu hv. frsm. þá sátum við tveir nm. hjá við afgreiðslu þessa máls, ég og hv. þm. Magnús T. Ólafsson, og það er rétt, að það er ekki út af fyrir sig af efnislegum ágreiningi um frv. eins og það liggur nú fyrir, en snertir fyrst og fremst vinnubrögð. Þetta frv. var lagt hér fram eða lá á borðum þm. s. l. miðvikudag, þá sáum við það fyrst. Þá stóð yfir atkvgr. vegna 2. umr. fjárlaga og menn voru bundnir á þriðja klukkutíma við þau störf. Síðan hófst hér fundur á mjög óvenjulegan hátt, verð ég að segja, í hv. Nd. og þetta mál þá tekið fyrir og vísað til n. Morguninn eftir er síðan boðaður nefndarfundur og málið afgreitt frá n. án þess að menn hefðu haft nokkurn tíma til þess að athuga málið eða ráðgast við einn eða neinn: Það eru þessi vinnubrögð, sem svo mjög setja nú merki sitt á störf Alþ., sem ég vildi nota tækifærið til þess að mótmæla um leið og ég segi þessi orð hér. En efnislega erum við samþykkir þessu frv. eins og það liggur nú fyrir og gerum ekki athugasemd við það.